Ávarp formanns SI á Iðnþingi 2024
Til þess að við getum virkjað og eflt krafta sem búa innra með okkur enn frekar þurfum við að þora að hugsa stórt sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í ávarpi sínu í upphafi Iðnþings 2024 sem fór fram í Silfurbergi í Hörpu. Árni sagði að við þyrftum orku, við þyrftum starfsumhverfi og regluverk sem hvetji í stað þess að letja og tefja; við þyrftum sterka innviði landið um kring, við þyrftum fjárfestingaumhverfi sem trúi á íslenskt atvinnulíf og laði einnig til sín erlenda fjárfestingu og ekki síst þyrftum við menntakerfi sem horfi fram á veginn, skilji framtíðina og geri ungu fólki kleift að blómstra, byggt á hæfileikum hvers og eins.
Hér fyrir neðan er ávarp formanns SI í heild sinni:
„Þjóð sem gleymir sögu sinni glatar sjálfri sér. Sá maður sem man ekki uppruna sinn er aðeins hálfur maður.“ Þessi orð Gylfa Þ. Gíslasonar er hollt að hafa í huga hér í dag á afmælisiðnþingi þegar við minnumst upphafsins. Við megum ekki gleyma sögu iðnaðar á Íslandi því hún er samofin sögu bættra lífskjara landsmanna og aukinnar velsældar.
Í ár fögnum við 30 ára afmæli Samtaka iðnaðarins, sem hafa frá fyrsta degi spilað stórt hlutverk í þessari sögu. Ég óska okkur öllum sem nú störfum innan vébanda SI og í íslenskum iðnaði til hamingju með þessi merkilegu tímamót. Á slíkum tímapunkti er sömuleiðis mikilvægt að minnast þeirra sem á undan okkur gengu og lögðu grunninn að þeim lífsgæðum sem við búum við og þeirri breidd sem iðnaðurinn endurspeglar nú í íslensku efnahagslífi – það gerðist ekki áreynslulaust eða af tilviljun.
Þegar iðnrekendur og atvinnurekendur í löggiltum iðngreinum sammæltust um það í septemberlok árið 1993, að steypa saman sex helstu félögum og samtökum iðnaðar í ný heildarsamtök var nefnilega tekið stórt og mikilvægt skref í framþróun atvinnugreinarinnar á Íslandi. Sóknarhugur og samtakamáttur voru leiðarljósin við stofnunina og hafa einkennt starfsemi Samtaka iðnaðarins, allt frá fyrsta degi janúar 1994 þegar þau tóku formlega til starfa.
Á þeim tíma störfuðu rúmlega 20 þúsund manns í iðnaði og hafði fækkað árin á undan, en íslenskur iðnaður hafði farið mjög illa út úr stöðnun áranna 1988 til 1993. Við vorum því að rísa upp úr býsna kröppum öldudal í efnahagsmálum. EES-samningurinn tók formlega gildi þetta sama ár, sem var umdeild og erfið ákvörðun á sínum tíma, en hefur haft mikil jákvæð áhrif og verulegan ávinning fyrir þjóðarbúið.
Á þessum tíma voru meðal annars skrifaðar greinar í blöðin um þá firru að ætla að grafa Hvalfjarðargöng, sem myndu ekki bara leka, heldur líklega hrynja, auk þess sem enginn myndi vilja aka um þau og enginn ávinningur yrði af þeim fyrir nokkurn mann. Fyrir suma er aldrei rétti tíminn til að hrinda hugmyndum í framkvæmd.
Samt voru hér framsýn tölvufyrirtæki, sem svo voru kölluð, sem sáu hvert framtíðin stefndi en varla til neitt sem heitið gat hugbúnaðargeiri. Útflutningur í iðnaði var tiltölulega einhæfur og fyrirtæki eins og Össur og Marel voru að slíta barnsskónum. Erlend fjárfesting var lítil sem engin. Það var kominn vísir að kvikmyndaiðnaði sem keyrði á þrjósku og ástríðu nokkurra eldhuga. Verktakafyrirtæki og verkfræðistofur bisuðu við að byggja upp fagmennsku og aukna framkvæmdagetu í sveiflukenndu umhverfi þar sem fyrirsjáanleiki var lítill og framkvæmdir takmarkaðar, og svo mætti lengi telja.
Ef einhver skyldi spyrja hvort við höfum gengið til góðs, götuna fram eftir veg, með stofnun Samtaka iðnaðarins, hygg ég að svarið sé augljóst. Nú um stundir skapar iðnaður einn og sér ríflega fjórðung landsframleiðslunnar og um síðustu áramót störfuðu um 50 þúsund undir merkjum fjölbreytts íslensks iðnaðar, eða ríflega einn af hverjum fimm. Iðnaðurinn skilar um 38% útflutningstekna af fjölbreyttri starfsemi á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar. Þessar tölur undirstrika umfang og mikilvægi iðnaðarins í gangverki íslenska efnahagslífsins.
Þessum árangri höfum við náð með sóknarhug og samtakamætti ótal margra sem að málum hafa komið í sögu samtakanna og sögu frumkvöðla og eldhuga í íslenskum iðnaði. Margt af því fólki sem er hér í salnum í dag þekkir þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í iðnaði hérlendis og þar með í samfélaginu síðustu 30 ár, og á sinn þátt í því. Ég held að við megum alveg klappa okkur aðeins á bakið fyrir það og sömuleiðis klappa fyrir þessum markverða árangri.
En verkefninu er fjarri því lokið. Óvissan um framtíðarhorfur og áhyggjur af stöðu fjölmargra mála hérlendis sem erlendis lita áfram daglegt líf okkar. Margháttaðar blikur eru á lofti, rétt eins og mörg undanfarin ár. Við þekkjum orðið vel ófremdarástand og óvissu í heimsmálunum, loftslagskrísu og glímu við bæði verðbólgudrauginn og náttúruöflin.
Heimili og fyrirtæki í landinu finna fyrir aukinni dýrtíð og verðhækkunum, til að mynda á húsnæðismarkaði og í byggingageiranum. Stöðugur og vaxandi framboðsskortur á nýju húsnæði og hár byggingakostnaður er vond blanda, sem hjálpar ekki til við að skapa stöðugleika í efnahagsmálum heldur ýtir undir verðbólgu og eykur fjármagnskostnað. Vöruverð hefur hækkað og þrátt fyrir að verðbólgutölur sígi niður á við er verðbólguþrýstingur enn verulegur í kerfinu. Innflutningur og einkaneysla er sömuleiðis að dragast saman – jafnvel verulega á ákveðnum sviðum – og hagkerfið kólnar hratt.
Þá er komin upp alvarleg staða í orkumálum þjóðarinnar eftir kyrrstöðu og athafnaleysi um árabil. Telja má víst að á liðnu ári hafi stjórnvöld og almenningur loksins vaknað til vitundar um þá ógnvænlegu stöðu sem komin er upp í orkuöflun í landinu. Evrópa er búin að ganga í gegnum orkukreppu og orkuskort allt frá innrás Rússa í Úkraínu en það var engin haldbær ástæða fyrir því að Ísland þyrfti að ganga í gegnum slíkt hið sama. Náttúruhamfarir í Svartsengi og Grindavík og úr sér gengið flutningskerfi raforku á stórum hluta landsins auka enn á þetta neyðarástand.
Og hvað er til ráða?
Við sjáum það einmitt svo glöggt í eldsumbrotunum og náttúruhamförunum á Reykjanesi, og þeim afrekum sem unnin hafa verið við að tryggja dreifingu á heitu vatni og verja innviði í Grindavík og í Svartsengi í kappi við glóandi hraunstrauminn, að það er bókstaflega allt mögulegt þegar saman fara íslenskt verkvit og íslenskt hugvit með einlægum vilja til að láta hlutina ganga. Ég ætla að leyfa mér að segja, að þar og í öllum þeim fjölbreyttu og krefjandi verkefnum sem unnin hafa verið á Suðurnesjum á undanförnum vikum og mánuðum hefur íslenskur iðnaður unnið þrekvirki, eins og við munum kynnast aðeins betur hér á Iðnþingi í dag. Íslenskur iðnaður svarar kallinu. Fyrir það megum við vera bæði stolt og þakklát.
Ef við ætlum að halda áfram að ná árangri, og ef við ætlum að viðhalda og bæta lífsgæði okkar, skapa verðmæti og góð störf, þá þurfum við að taka ákvarðanir, sem geta sumar verið erfiðar og umdeildar. Við erum stöðugt á krossgötum þar sem annars vegar takast á löngunin til að halda okkur við það sem við þekkjum og hins vegar viljinn til að framkvæma og hugsa stærra.
Allir geirar atvinnulífsins skipta okkur máli í okkar litla hagkerfi og grunnstoðirnar hafa stutt við nýja atvinnuvegi. Við eigum ótal sögur af hugmyndum, stórum sem smáum, sem urðu til í sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og ekki síst fjölbreyttum iðnaði sem leiddu af sér mikilvæg skref til framþróunar og bættra lífshátta. Á móti hafa grunnstoðirnar notið stórkostlegs ábata af hvers konar tækninýjungum og grundvallarbreytingum í vinnslu- og framleiðsluaðferðum. Hugmyndirnar, trúin á þær og krafturinn til að hrinda þeim í framkvæmd hafa alltaf verið það sem fleytir okkur inn í betri framtíð.
Eftirspurnin eftir íslenskum hugmyndum er mikil og íslensk fyrirtæki eru stöðugt að hagnýta hugvitið til að ná eftirtektarverðum árangri. Frumkvöðlarnir eru búnir að ryðja skaflinn og við erum í óðaönn að koma á laggirnar nýjum fyrirtækjum sem sum hver munu verða alþjóðleg stórfyrirtæki. Önnur munu skapa ný störf og þekkingu sem ekki hefur áður verið til á Íslandi. Við erum að leggja grunninn að nýjum atvinnugreinum, við erum að hagnýta tæknina til að gera vegalengdir og landamæri að aukaatriði, vinna gegn loftslagsvandanum, skapa meiri verðmæti úr takmörkuðum auðlindum, auka öryggi starfsfólksins okkar og svo mætti lengi telja.
Stærstu vaxtartækifærin til framtíðar eru því í iðnaði. Þannig gæti hugverkaiðnaðurinn, fjórða stoð útflutnings, orðið sú stærsta áður en þessi áratugur er á enda.
Við vitum auðvitað ekki hvernig framtíðin verður en hún er miklu nær en við höldum. Vitur maður sagði eitt sinn að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri einfaldlega að skapa hana. Hver er sinnar gæfu smiður, ekki satt?
Og hver er þá lykillinn að því að framtíðin verði farsæl fyrir íslenskan iðnað og samfélagið allt? Lausnarorðin eru: íslenskt hugvit, íslenskt verkvit, íslenskar hugmyndir, sóknarhugur og samtakamáttur. Hugmyndirnar okkar og verkvitið hafa alltaf verið mikilvægustu verkfærin í kistunni. Og aldrei mikilvægari en núna.
En til þess að við getum virkjað og eflt þessa krafta sem búa innra með okkur enn frekar þurfum við að þora að hugsa stórt; við þurfum orku, við þurfum starfsumhverfi og regluverk sem hvetur í stað þess að letja og tefja; við þurfum sterka innviði landið um kring, við þurfum fjárfestingaumhverfi sem trúir á íslenskt atvinnulíf og laðar einnig til sín erlenda fjárfestingu; og ekki síst þurfum við menntakerfi sem horfir fram á veginn, skilur framtíðina og gerir ungu fólki kleift að blómstra, byggt á hæfileikum hvers og eins.
Við leysum ekkert með því að trúa ekki á okkur sjálf og framtíðina. Við leysum ekkert með því að forðast ákvarðanir. Við leysum ekkert með því að óttast gagnrýni eða deilur og leggja ekki í samtal um hlutina. Við leysum hlutina einmitt með því að trúa á hugmyndirnar okkar, koma þeim í framkvæmd og láta þær verða að veruleika.
Við þurfum að komast strax af stað svo hugmyndalandið Ísland fái áfram að vaxa og dafna. Við skulum ekki bíða bara eftir framtíðinni, heldur taka ábyrgð á því að skapa hana, okkur öllum og framtíðarkynslóðunum til heilla. Þetta verður viðfangsefni okkar í hér á þinginu í dag og vonandi okkar allra eftir að þingi lýkur.
Kæru félagsmenn Samtaka iðnaðarins og aðrir góðir gestir, ég býð ykkur hjartanlega velkomin á Iðnþing 2024!