Fréttasafn



10. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar

Ávarp framkvæmdastjóra SI á Iðnþingi 2022

Hér fer ávarp Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á Iðnþingi 2022:

Ráðherrar og aðrir góðir gestir

Já, þannig verður framtíð okkar allra græn. Stjórnvöld setja metnaðarfull markmið, iðnaðurinn finnur bestu lausnirnar og við erum á fleygiferð í átt að kolefnishlutleysi.

Með ári grænnar iðnbyltingar vilja Samtök iðnaðarins gera loftslagsmál í víðum skilningi að grænum þræði í starfsemi sinni. Þræði sem tengir saman þann árangur sem náðst hefur nú þegar og hvatningu til þess að gera enn betur, bæði hjá fyrirtækjum sem og hjá stjórnvöldum, til þess að metnaðarfull markmið náist.

Við erum stödd í miðri iðnbyltingu – grænni iðnbyltingu – sem hófst í lok síðustu aldar og mun standa yfir næstu áratugina. Þessi iðnbylting miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með grænum lausnum, grænni fjárfestingu og grænni orku.

Græn iðnbylting er ólík öðrum iðnbyltingum að því leyti að hún er að frumkvæði ríkja heims sem tóku höndum saman seint á síðustu öld um að bæta heilsu jarðar.

Aðrar iðnbyltingar hafa orðið vegna nýrrar tækni sem ruddi viðteknum venjum úr vegi. Þá voru nýjar lausnir hagkvæmari en fyrri vinnubrögð og voru aflvaki vaxtar. Í árdaga grænnar iðnbyltingar voru lausnirnar ekki hagkvæmar ef þær voru yfirleitt til. Verkefnið nú snýst um það að þróa bestu lausnirnar og síðan að gera þær nógu hagkvæmar svo fjárfest sé í þeim. Lausnirnar eru skammt undan hjá okkar fólki. Stjórnvöld – og þar með samfélagið allt – munu einungis ná árangri í loftslagsmálum ef breytingar leiða til vaxtar í grænni iðnbyltingu rétt eins og gerðist í öðrum iðnbyltingum. Almenningur mun á engan hátt sætta sig við breytingar sem fela í sér lakari lífskjör.

Viðfangsefnið er stórt og metnaðarfull markmið nást ekki nema með samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs.

  • Stjórnvöld setja markmið – þar vegur þyngst kolefnishlutleysi og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Það þýðir meðal annars að við ætlum að hætta að flytja inn og brenna olíu en þess í stað vera sjálfbær og sjálfstæð í orkumálum.
  • Fyrirtækin finna bestu lausnirnar til að ná markmiðunum og ráðast í aðgerðir til að draga úr losun í sinni starfsemi.
  • Það er hins vegar stjórnvalda að móta umgjörð sem stuðlar að þessum breytingum, setja hvata til nýsköpunar og fjárfestinga í nýrri tækni auk þess að stuðla að orkuskiptum.

Samtök iðnaðarins hafa hvatt til samstarfs stjórnvalda og atvinnulífs um þessi mál. Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir var stofnaður árið 2019 til þess að vekja athygli á framlagi Íslands á þessu sviði.

Við höfum góða sögu að segja. Ísland er land hreinnar orku á meðan önnur ríki brenna olíu, kolum og gasi í stórum stíl til húshitunar og raforkuframleiðslu. // Fyrir um hálfri öld síðan var Ísland í fararbroddi ríkja til að nýta jarðvarma. Þess vegna er losun okkar mun minni en ella. Þessi árangur okkar hefur í senn vakið athygli erlendis og gert orkuþekkingu að sérstakri útflutningsvöru sem nýst hefur í 45 löndum í öllum heimsálfum. Ímynd Íslands sem lands hreinnar orku er sterk og áhuginn er miklu meiri en okkur óraði fyrir. Sæm dæmi um það setti Grænvangur sér markmið um að ná 50 umfjöllunum í erlendum miðlum á síðasta ári. Áhuginn var slíkur að umfjallanir voru um eitt þúsund talsins.

Í fyrradag kom út tímamótaskýrsla um orkumál sem starfshópur vann fyrir ráðherra málaflokksins. Niðurstöðurnar þar eru skýrar. Við náum ekki í mark nema auka orkuöflun og hefjast verður handa strax að því gefnu að stjórnvöld kjósi að viðhalda lífsgæðum landsmanna og helst að bæta þau til framtíðar. Framtíðin er hvorki hvít né svört – framtíðin er græn. Orkuskiptin vega þarna þungt og rétt eins og við vorum í fararbroddi í nýtingu jarðvarma fyrir um hálfri öld síðan og höfum nýtt þá þekkingu okkur og öðrum til hagsbóta getum við gert það sama núna í þriðju orkuskiptunum með því að vera í fararbroddi.

Grænu púslin sem þarf til að skapa heildstæða mynd loftslagsmála eru mörg og hér í dag beinum við sjónum okkar að nokkrum þeirra sem snúa að iðnaðinum.

  • Iðnaðurinn færir okkur lausnir sem nýtast munu í þessu stóra verkefni.
  • Framleiðsla verður græn,
  • Græn orkuskipti gera ekki einungis umhverfinu gott heldur geta þau lagt grunninn að nýjum útflutningi þar sem íslenskt hugvit hjálpar öðrum þjóðum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum.
  • Byggingariðnaðurinn hefur þegar lagt grunninn að grænum mannvirkjum

Þannig spinna fyrirtækin grænan þráð á hverjum degi sem smám saman nær að tengja metnaðarfull markmið við raunverulegan árangur. Hér í dag munum við því heyra um sigra sem þegar hafa áunnist, um tækifæri sem græn iðnbylting felur í sér og áskoranir sem þarf að vinna bug á til að ná í mark. Orð eru til alls fyrst en aðgerðir gefa þeim vægi. Með samstilltu átaki náum við að spinna græna þráðinn milli orða og athafna – að metnaðarfyllstu markmiðum.

Iðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja – með því að finna bestu lausnirnar og að innleiða þær – að því gefnu að stjórnvöld skapi réttu umgjörðina. Já, með því að vera í fararbroddi getum við best sótt tækifærin og þannig tryggt að framtíð okkar allra verði græn.