Fréttasafn



20. des. 2016 Almennar fréttir Nýsköpun

Bæta á fjármögnun sprotafyrirtækja

Lagt er til að stofnaður verði vettvangur með bréf í óskráðum félögum í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Nasdaq OMX Ísland eða aðra til þess bæra aðila. Reynt verði eftir fremsta megni að koma í veg fyrir misnotkun með hæfilega íþyngjandi regluverki og fyrirvörum gagnvart þátttakendum á vettvanginum og ef vel tekst til ætti vettvangurinn að auka upplýsingaflæði og stuðla að auknum viðskiptum með bréf í sprotafyrirtækjum. Þetta eru meðal tillagna að úrbótum á fjármögnunarumhverfi íslenskra sprotafyrirtækja sem koma fram í skýrslu KPMG sem unnin var að beiðni atvinnuvegaráðuneytisins. Í skýrslunni er einnig lagt til að ríkið styðji við hópfjármögnun (e. equity crowd funding) og þannig verði markaðurinn í meira mæli látinn ráða því hvaða fyrirtæki fái fjármagn frá hinu opinbera. Þá er meðal tillagna að ráðist verði í kynningarátak þar sem kostir og gallar þess að fjárfesta í sprotafyrirtækjum verði kynntir fyrir almenningi, stofnað verði félag englafjárfesta á Íslandi með það að markmiði að styðja við fjárfestingar hér á landi og hvetja til samstarfs við erlenda aðila í alþjóðlegum samtökum englafjárfesta. Einnig er lagt til að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, NSA, hætti beinum fjárfestingum í sprotafyrirtækjum og leggi þess í stað fjármagn í önnur verkefni og sjóði sem það gera auk þess sem kynnt eru fleiri smærri verkefni sem geta orðið til bóta fyrir fjármögnunarumhverfi sprotafyrirtækja.

Í frétt Morgunblaðsins um skýrsluna er haft eftir Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SI, að staðan á fyrstu stigum fjármögnunar sé almennt nokkuð góð og að ríkið hafi verið að auka mjög myndarlega stuðning sinn við Tækniþróunarsjóð. Hann segir jafnframt að mikil vinna hafi verið í gangi í ráðuneytinu varðandi stefnu Nýsköpunarsjóðs síðastliðin tvö ár. „Lögin um NSA voru sett 1998 og það er þörf að uppfæra þau en á fyrri hluta næsta árs þá verðum við komin með skýrar línur varðandi umgjörð sjóðsins og væntanlega í góðu samstarfi við þann ráðherra sem tekur við málaflokknum. Það er mikilvægt að NSA hafi eitthvert hlutverk og geti gripið inn í ef umhverfið er erfitt. Í dag virðist staðan vera sú að markaðurinn sé að leysa þetta vandamál nokkuð vel og þá er kannski betra að aðrir aðilar séu að fjárfesta beint í fyrirtækjunum.“

Hér má nálgast skýrsluna.