Fréttasafn



22. mar. 2019 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Bæta þarf regluverk bygginga- og mannvirkjaiðnaðar

„Draga þarf úr töfum og kostnaði við lóðir. Afgreiðsluferli skipulagstillagna þarf að hraða og gera einfaldara. Hraða þarf úrlausn deilumála og veita hönnuðum svigrúm til hagkvæmra lausna. Auka þarf rafræna stjórnsýslu, einfalda þarf byggingareftirlit og draga úr viðvarandi eftirliti.“ Þetta sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, meðal annars á fundi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins á Grand Hótel Reykjavík í gær. Yfirskrift fundarins var Betra regluverk fyrir atvinnulífið. 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur samið við OECD um að framkvæma samkeppnismat á regluverki ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við Samkeppniseftirlitið auk annarra ráðuneyta og stofnana. Í kynningu á verkefni OECD segir að mikilvægt sé að meta áhrif laga og reglna á atvinnulífið og efnahagskerfið í heild og haga reglusetningu þannig að stutt sé við samkeppni. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda á hverjum tíma er að búa atvinnulífinu umgjörð sem styður við þróun þess og er til þess fallin að efla það til lengri tíma. Ingólfur sagði í erindi sínu að þessi sjónarmið væri hægt að taka heilshugar undir og að Samtök iðnaðarins hafi unnið markvisst að umbótum með þetta að markmiði. 

Byggingariðnaður spilar stórt hlutverk í verðmætasköpun hagkerfisins

Ingólfur sagði í erindi sínu að byggingariðnaðurinn hafi vaxið samhliða uppbyggingu innviða hér á landi. „Greinin hefur byggt þau ríflega 140 þúsund íbúðarhús sem eru í landinu. Hún hefur lagt vegi, byggt brýr, hafnir, flugvelli, skóla og sjúkrahús svo eitthvað sé nefnt. Innviðir þeir sem greinin hefur byggt hafa sennilega aldrei spilað jafn stórt hlutverk í verðmætasköpun hagkerfisins og nú. Í greininni starfa um ríflega 15 þúsund manns og 5.400 fyrirtæki. Eitt starf af hverjum fimm sem skapast hafa í hagkerfinu síðustu fjögur árin eru í þessari grein. Segir þetta til um hlut greinarinnar í hagvexti á þessum tíma.“

Ingólfur sagði að það væri því ekki að ástæðulausu að Samtök iðnaðarins leggðu mikla áherslu á samkeppnishæfnina. „Með mikilli samkeppnishæfni má best tryggja góð efnahagsleg lífsgæði. Áhersla samtakanna í þessu sambandi hefur verið á menntun, nýsköpun, innviði og starfsumhverfi. Hluti af því sem mótar samkeppnisstöðu greinarinnar er laga- og reglugerðarumhverfið og framkvæmd þess. Þar má ýmislegt bæta.“ 

Fákeppni og ríkisumsvif 

Þá sagði Ingólfur að mikil fákeppni og ríkisumsvif einkenndu marga þeirra þátta sem byggingariðnaðurinn byggði á. Nefndi hann í því sambandi háa skattlagningu hér á landi sem endurspeglaði mikil ríkisumsvif hér á landi. Einnig nefndi hann fákeppni á fjármála- og raforkumarkaði þar sem fákeppni og ríkisfyrirtæki væru ráðandi. Endurspeglaðist það m.a. í raforkuverði og háum innlendum vöxtum sem kæmu m.a. niður á samkeppnishæfni byggingariðnaðarins. Einnig sagði hann að efnahagssveiflurnar væru mjög miklar hér á landi sem birtust margfalt í byggingariðnaðinum og að þær sveiflur grafi undan framleiðni í greininni og samkeppnisstöðu hennar.

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs frá fundinum. 

Fundur-21-03-2019-3-

Fundur-21-03-2019-1-