Bæta þarf skilyrði fyrir grænar framkvæmdir í mannvirkjagerð
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, stýrði málstofu um græna hvata og grænni framkvæmdir á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fór fram 22. október á Nordica Hilton. Á málstofunni var fjallað um álitamál og áskoranir sem tengjast mannvirkjagerð á Íslandi í ljósi umhverfis- og loftslagsmarkmiða. Þeir sem tóku þátt í umræðum voru Sigríður Ósk Bjarnadóttir frá Hornsteini, Atli Þór Jóhannsson frá Borgarverk, Eiður Páll Birgisson frá Landslagi og Baldur Hauksson frá Orku náttúrunnar.
Umræðurnar snérust m.a. um hvernig hægt er að þróa framkvæmdir með það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif og skila framkvæmdastað sem næst upprunalegu ástandi. Jóhanna Klara benti á að fyrirtæki í mannvirkjaiðnaði og opinberir verkkaupar séu farnir að leggja aukna áherslu á grænar lausnir og vísaði í nýlega greiningu SI, þar sem 68% aðildarfyrirtækja í mannvirkjaiðnaði segjast hafa tekið frumkvæði að breytingum sem hafa jákvæð umhverfisáhrif. Í máli Jóhönnu Klöru kom fram að Samtök iðnaðarins muni halda áfram að fylgja þessum málum eftir og vinna að því að bæta skilyrði fyrir grænar framkvæmdir í mannvirkjageiranum. Með auknum hvötum og stuðningi við umhverfisvænar lausnir í útboðum og framkvæmdum væri stuðlað að umhverfisvænni mannvirkjagerð.
Orkuskipti og áskoranir verktaka
Atli Þór Jóhannsson frá Borgarverki ræddi um auknar kröfur til orkuskipta og þær áskoranir sem fylgja því fyrir verktaka. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að verkkaupar hvetji til grænni framkvæmda og kom með dæmi þar sem verktökum reynist erfitt að uppfylla kröfur um hreinni tæki og tól vegna ófullnægjandi aðstæðna. Í einstökum tilvikum þurfi verktakar sjálfir að leggja strengi og setja upp aðra innviði til að geta notað rafknúin tæki þar sem rafmagnstæki stórra vinnuvéla krefjist sértækra tenginga sem oft séu ekki til staðar. Hann nefndi einnig að gömul og ósamræmd rafmagnstenging (ekki þriggja fasa) geti verið ófullnægjandi fyrir stóru tækin og takmarka þannig möguleikann á að nota umhverfisvænni búnað. Atli tók jafnframt fram að hann hefði skoðað aðra möguleika en rafmagn, eins og vetnisknúna vinnuvélar. Hann benti á að sú hindrun sé fyrir hendi að vetnisvélum fylgi lítið þjónustunet utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem áfyllingarstöðvar fyrir vetni séu ekki tiltækar. Að mati Atla sé þetta óheppilegt þar sem verktakar þurfa að hafa möguleika á að velja tækni sem henti best í hverju tilfelli.
Endurnýting byggingarefna og langtímasýn
Sigríður Ósk Bjarnadóttir frá Hornsteini fjallaði um mikilvægi þess að horfa til framtíðar við innleiðingu grænna lausna, þar með talið aukna endurnýtingu byggingarefna. Hún nefndi einnig að þó svo að kolefnislosun væri vissulega sú mæling sem væri mest í brennidepli í tengslum við bókhald Íslands, þá væri nú þegar hægt að ná miklum árangri á öðrum sviðum, sérstaklega með vali á byggingarefnum og endurnýtingu þeirra.
Baldur Hauksson frá Orku náttúrunnar sagði að umhverfisvottanir væru að opna á betra samstarf milli hönnuða, verkkaupa og verktaka, en einnig kom fram hjá honum að stundum vanti eftirlit og skilning til að fylgja þessum umhverfiskröfum eftir í verki.
Endurheimt náttúrufars og skilvirkni í útboðum
Þá kom fram í umræðunum mikilvægi þess að setja skýrar umhverfiskröfur í útboðsgögn. Eiður Páll Birgisson frá Landslagi lagði áherslu á að allir aðilar sem koma að framkvæmdinni þurfi að vinna saman til að uppfylla þessar kröfur, sem feli meðal annars í sér að bjarga verðmætum yfirborðsefnum eins og hrauni og gróðurflákum. Hann benti á að með skýrri hönnun, fjármagni frá verkkaupa og eftirfylgni sé hægt að tryggja að staðargróður komi aftur að fullu.
Í umræðunni var einnig fjallað um mikilvægi útivistar- og samgöngustíga sem leggi áherslu á lágmarks röskun á náttúru. Eiður Páll nefndi dæmi um stíga í Garðahrauni og Vífilsstaðahrauni sem dragi úr umferðarálagi og kolefnisspori með því að bjóða upp á umhverfisvænar samgönguleiðir. Þessir stígar bæti aðgengi að útivistarsvæðum og náttúruperlum og stuðli þannig að umhverfisvænni ferðavenjum.
Myndir/BIG,
Atli Þór Jóhannsson frá Borgarverk, Sigríður Ósk Bjarnadóttir frá Hornsteini, Eiður Páll Birgisson frá Landslagi og Baldur Hauksson frá Orku náttúrunnar.
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.