Fréttasafn13. feb. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Bankarnir taka súrefni frá fyrirtækjum og atvinnulífi

Rætt var við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um stöðuna í efnahagslífinu í Morgunútvarpi Rásar 2 þar sem hann sagði landsframleiðsluna vaxa hægt og þannig verði það áfram á næstu árum og misserum ef ekkert verði að gert. „Við sjáum að útflutningstekjur eru að minnka og hafa ekki minnkað eins mikið í þrjá áratugi.“ Hann sagði atvinnuleysið hafi heldur ekki verið meira í þrjá áratugi, ef árið 2008 væri undanskilið, og að ný útlán banka hafi dregist verulega saman þannig að bankarnir séu að taka súrefni frá fyrirtækjum og atvinnulífinu, menn fái ekki lán til framkvæmda í sama mæli og áður.
Þá kom fram í máli Sigurður að fernt þurfi að gerast. „Það þarf að fjárfesta og byggja undir hagvöxt framtíðar. Þar er ég að tala um innviðauppbyggingu.“ Hann segir að bæta þurfi verulega í þær framkvæmdir sem þegar hafi verið áætlaðar og það þurfi að gera grein fyrir þessum framkvæmdum mjög fljótlega. „Einfaldasta leiðin er að flýta þeim framkvæmdum sem búið er að teikna upp á næstu árum.“ Í öðru lagi þurfi að lækka álögur. „Þar held ég að sé rétt að byrja á fasteignagjöldum og tryggingargjaldi, sem er skattur á laun.“ Tryggingargjald hafi lækkað undanfarið en hann segir að vegna hækkunar launa hafi tekjur ríkisins af gjaldinu staðið í stað.

„Síðan er það aðgengi að lánsfé. Þar er skrýtin staða.“ Hann segir að Seðlabankinn sé að lækka vexti. „Þannig að bankinn er með hægri fótinn á bensíngjöfinni en vinstri fóturinn hjá Seðlabankanum er á bremsunni. Því að það er verið að hækka eiginfjárkröfur á bankana sem þýðir það að útlánagetan minnkar. Þetta er eitthvað sem Seðlabankinn getur breytt með einu pennastriki.“ Hann bendir á að bankinn hafi um síðustu áramót hækkað eiginfjárkröfurnar, en sú ákvörðun hafi verið tekin 2018 þegar aðstæður voru allt aðrar. „Í fjórða lagi er það samkeppnishæfnin,“ Hann segir hana megi treysta með því að einfalda regluverk og leggja meiri áherslu á iðnmenntun og starfsmenntun annars vegar og hins vegar háskólagreinar eins og verkfræði, tæknigreinar og raunvísindi. „Þriðji áratugur þessarar aldar á að vera áratugur nýsköpunar. Það á að drífa vöxtinn.“ 

RÚV, 13. febrúar 2020.

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð.