Fréttasafn



2. sep. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Bankarnir ýkja niðursveifluna með því að skella í lás

Það hefur magnað niðursveifluna í hagkerfinu að útlánsvextir til fyrirtækja hafa ekki lækkað í takt við meginvexti Seðlabankans. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í frétt ViðskiptaMoggans og vísar þar til þróunar á vaxtaálagi nýrra fyrirtækjalána. „Vaxtalækkanir Seðlabankans virðast hafa skilað sér til heimila að mestu en ekki til fyrirtækja nema að litlu leyti. Það virðist vera mikil tregða til að lækka vexti til fyrirtækja. Vaxtaálagið hefur rokið upp frá því í fyrra.“

Ýtir undir frekari samdrátt og eykur atvinnuleysi

Ingólfur segir vaxtaálagið yfirleitt tengt mati bankanna á áhættunni af útlánum, sem aftur sé m.a. tengt þróun efnahagsmála og stöðunni í einstaka atvinnugreinum. „Efnahagsástandið hefur versnað og staða einstakra greina. Þannig að áhætta í útlánum gagnvart þeim hefur aukist. Það kann að skýra þessa hækkun sem vegur á móti þeirri lækkun sem hefur verið í grunnvöxtum. Stýrivextir og langtímavextir hafa lækkað en hækkun bankanna á áhættuálagi og verðlagningu útlána hefur gagnverkandi áhrif fyrir hagsveifluna. Bankarnir geta með þessu háttalagi sínu aukið niðursveifluna með því að klippa þannig á fjárfestingu og getu þessara fyrirtækja til að halda hjólum efnahagslífsins gangandi. Það aftur ýtir undir frekari samdrátt og eykur atvinnuleysi. Því er ekki að ástæðulausu að við erum uggandi yfir þessu.“

Þá segir í frétti að segir að máli sínu til stuðnings bendi Ingólfur á að nú mælist mikill samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu og byggingu íbúðarhúsnæðis, sérstaklega á fyrstu byggingarstigum, en framboð lánsfjármagns og vextir fyrirtækjalána hafi mikil áhrif á þessa þætti efnahagsmála. 

Flæði nýs fjármagns til fyrirtækja mjög takmarkað

Um áhrif vaxtastigsins segir Ingólfur í fréttinni: „Þegar bankarnir skella í lás, ekki aðeins með því að hækka áhættuálag og halda vöxtum háum, heldur með því að neita útlánum, þá eru þeir að ýkja niðursveifluna. Tölur benda til þess að flæði nýs fjármagns til fyrirtækja sé mjög takmarkað um þessar mundir sem kemur til viðbótar við það að vaxtaálagið hefur verið að hækka. Þetta er afar slæmt, sérstaklega í ljósi þess að við erum að glíma við mestu niðursveiflu efnahagslífsins í 100 ár og atvinnuleysi er hér í sögulegum hæðum. Höggið er þungt sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir en maður hefði viljað sjá aðrar greinar, s.s. iðnaðinn, ná betri viðspyrnu við þessar aðstæður en raun ber vitni. Þessi tregða við að lækka vexti á lánum til fyrirtækja er hluti af ástæðunni.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 2. september 2020.

RÚV, 2. september 2020.