Fréttasafn14. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Beint frá bauninni

Þeir ÓSKAR ÞÓRÐARSON og KJARTAN GÍSLASON eru stofnendur Omnom Chocolate Reykjavík. Fyrirtækið var stofnað árið 2013, eftir nokkurra mánaða tilraunir í eldhúsinu á heimili matreiðslumannsins Kjartans í Breiðholti. Við stofnun Omnom færðu þeir framleiðsluna reyndar á yfirgefna bensínstöð á Seltjarnarnesi. Omnom súkkulaðið er flestum Íslendingum kunnugt og fyrirtækið hefur vaxið og dafnað síðastliðin sjö ár í höndum æskuvinanna tveggja, sem ákváðu 11 ára á Kjalarnesi að einn daginn skildu þeir vinna saman. „Það er auðvitað extra sætt og gaman að fá að byggja upp fyrirtæki með æskufélaga sínum,“ segir Óskar.

Það er auðvitað extra sætt og gaman að fá að byggja upp fyrirtæki með æskufélaga sínum.


Lítil framleiðsla af eðalvöru 

Hugmyndin að Omnom er Kjartans, en hann nálgaðist vin sinn Óskar árið 2012 með þá hugmynd í maganum að opna bakarí sem myndi búa til sitt eigið súkkulaði. „Um það leyti er þessi bylgja að hefjast, eins og með kaffið og bjórinn, að menn voru að búa til svokallaða micro­batches – eða smáskammta – litla framleiðslu af eðalvöru. Við ákváðum að gera tilraunir með að búa til súkkulaði beint frá bauninni,“ útskýrir Óskar, sem er áhugamaður um mat en hafði aðallega reynslu af stjórnun og rekstri fyrirtækja.

Ég man sérstaklega eftir einum tölvupósti sem við fengum frá manni í Dubai þegar við höfðum bara verið starfandi í örfáa mánuði sem hafði einhvern veginn komist yfir Omnom súkkulaði og sagði í póstinum að þetta væri algjörlega frábær vara. Það kitlaði náttúrulega egóið og við hugsuðum, það er kannski eitthvað í þessu hjá okkur.

 

Kjartan er matreiðslumaður og hafði starfað sem slíkur á Íslandi og víðar í Evrópu í nærri tvo áratugi áður en súkkulaðið tók alveg yfir. „Við ákváðum að bíða aðeins með bakaríið, en fórum á fullt í að búa til súkkulaði. Við fórum á netið og pöntuðum okkur alls kyns lítil tæki og vorum að gera prufur heima, til að sjá hvort við gætum þetta. 

Við vorum að gefa fólki að smakka  og það voru allir svo ánægðir að við slógum til. 2. nóvember 2013 vorum við komnir með gömlu bensínstöðina á leigu og framleiddum fjögur þúsund einingar fyrir jólin það árið. Það seldist allt upp!“

Omnom_806A7755

Tölvupóstur frá Dubai glæddi von 

Aðspurður segist Óskar ekki endilega hafa gert sér grein fyrir hversu stórt Omnom yrði í höndunum á þeim félögum, en áætluð velta félagsins er 400 milljónir á þessu ári og þar vinna nú 22 starfsmenn og vörurnar eru um tuttugu talsins. „Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í, en ég hafði einhverja góða tilfinningu fyrir þessu. Ég gerði ekki rekstrar­ eða fjárhagsáætlun. Ég hef gert svo margar þannig og þær stóðust aldrei,“ segir Óskar og hlær. 

„Ég hafði aldrei verið í matvælaframleiðslu og aldrei á neytendamarkaði. En það var alltaf eitthvað á leiðinni sem hvatti mann áfram. Ég man sérstaklega eftir einum tölvupósti sem við fengum frá manni í Dubai þegar við höfðum bara verið starfandi í örfáa mánuði sem hafði einhvern veginn komist yfir Omnom súkkulaði og sagði í póstinum að þetta væri algjörlega frábær vara. Það kitlaði náttúrulega egóið og við hugsuðum, það er kannski eitthvað í þessu hjá okkur.“

Stuðningur í birgjunum en ekki frá stjórnvöldum 

Óskar segir stjórnvöld ekki gera margt til að létta fólki fyrstu skrefin við stofnun nýsköpunar fyrirtækja og ráðleggur þeim sem feta sín fyrstu skref að tala við fjárfesta frekar en bankana. Þolinmótt fé sé lykillinn að því að byggja upp fyrirtæki úr engu. „Ég hef svo sem ekki reynslu af því að reka fyrirtæki annars staðar en á Íslandi, en það er margt gott. Boðleiðirnar í byrjun, fá leyfi, stofna fyrirtæki og svoleiðis – það var ekki erfitt í okkar tilviki. Það var líka einfalt að komast inn á markaðinn, til dæmis inn í Flugstöðina sem var mikilvægt fyrir okkur. Á móti kemur að við höfum ekki fundið fyrir neinum stuðningi frá stjórnvöldum, við höfum ekki fengið skattaívilnanir og borgum jafnhátt tryggingagjald og hundrað ára gömul fyrirtæki. Ég myndi frekar segja að birgjarnir og okkar þjónustuaðilar hafi verið okkar mesti stuðningur með því að aðstoða okkur við greiðslufresti og vera rólegir yfir gjalddögum. Þegar maður er að byggja fyrirtæki upp frá núlli þá er erfitt að eiga nægt reiðufé til taks til þess að halda lager.“

Litrík framtíð 

Þeir félagar hjá Omnom líta framtíðina björtum augum. „Það sem hefur verið erfiðast er að koma félaginu á laggirnar; þar hefur hindrunin verið sjóðsstreymið og fjárfesting sem við höfum þurft að fara í. Aðalfókusinn núna er að búa til góða og arðbæra einingu sem getur haldið áfram að dafna. Við ætlum að halda áfram að búa til gæðavöru og bera hana fram á litríkan og skemmtilegan hátt. Svo lengi sem neytendur eru hrifnir, þá höldum við áfram að framleiða fyrir þá,“ segir Óskar.

Omnom í Asíu og Evrópu en aðallega í Bandaríkjunum 

Omnom hefur frá upphafi selt vörur sínar hér á landi og stílað bæði inn á ferðamenn og Íslendinga. „Við erum til dæmis að selja í Flugstöðinni og í sérverslunum, en líka í matvöruverslunum hér heima,“ segir Óskar. Vörurnar eru seldar bæði í Asíu og í Evrópu, en aðalmarkaður Omnom erlendis er í Bandaríkjunum. Bandaríkjamarkaður hefur vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum, en Omnom hóf innreið sína á þann markað árið 2014. Nú síðast hófu þeir Óskar og Kjartan að selja vörur sínar á Amazon. „Við erum að prófa okkur áfram þar. Það lofar mjög góðu.“

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_