Fréttasafn17. mar. 2017 Almennar fréttir

Bjartsýni í skugga krónunnar

Ásdís Auðunsdóttir, blaðamaður á Viðskiptablaðinu skrifar: 

Samtök iðnaðarins hafa nú birt árlega netkönnun sína þar sem skoðuð eru viðhorf félagsmanna samtakanna til núverandi aðstæðna í íslensku efnahags- og viðskiptalífi. Niðurstöðurnar sýna svo ekki verður um villst að bjartsýni ríkir meðal flestra félagsmanna samtakanna ef frá eru talin útflutningsfyrirtæki sem um þessar mundir gjalda fyrir sterkt gengi krónunnar. Um 36% svarenda segjast ánægð eða mjög ánægð með áherslur nýrrar ríkisstjórnar.

Líklegt að störf séu að flytjast úr landi

Niðurstaða könnunarinnar sýnir að 65% þátttakenda meta aðstæður í efnahagslífinu mjög góðar eða frekar góðar fyrir atvinnurekstur í landinu á meðan 11% svarenda meta aðstæðurnar frekar slæmar eða mjög slæmar. Atvinnugreinar með hátt hlutfall útflutnings eru sérstaklega áberandi meðal þeirra sem meta aðstæður slæmar enda hafa þau átt á brattann að sækja í kjölfar mikillar styrkingar krónunnar að undanförnu. Þannig vekur til að mynda athygli að tæp 20% fyrirtækja í framleiðslu og matvælaiðnaði og 23% í hugverkaiðnaði spá því að staðan í efnahagslífinu verði nokkuð verri eftir 6-12 mánuði.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir skýrt að styrking krónunnar hafi slæm áhrif á ákveðnar atvinnugreinar. „Staðan er auðvitað sú að þessi fyrirtæki eru þessa dagana að fást við það að taka ákvarðanir sem eru ef til vill ekki hliðhollar Íslandi en svörin gefa til kynna að á einhverjum jaðri séu störf og starfsemi að flytjast úr landi.“

Mikill skortur á starfsfólki

Ef litið er til kannana fyrri ára er ljóst að bjartsýni meðal fyrirtækja hefur aukist jafnt og þétt undanfarin fjögur ár. Á sama tíma hefur þeim fækkað mikið sem telja aðstæður í efnahagslífinu frekar slæmar eða mjög slæmar. Það er enn til marks um gríðarlegan uppgang í íslensku efnahagslífi að 45% þátttakenda segja skort á starfsfólki. Þar að auki telja um 32% svarenda að starfsmönnum fyrirtækisins muni koma til með að fjölga nokkuð næstu tólf mánuði en 3% svarenda búast þar að auki við að starfsmönnum muni koma til með að fjölga mikið. Þá vekur einnig athygli að tæp 50% þátttakenda segja mikinn eða mjög mikinn þrýsting á hækkun launa innan fyrirtækisins.

Finna fyrir viðhorfsbreytingu gagnvart iðnmenntun

Almar segir niðurstöðurnar enn og aftur staðfesta þann skort sem sé á ákveðnu starfsfólki í landinu en tölurnar eru svipaðar og síðasta ár. „Í vissum geirum erum við komin í erfið mál og það er mikilvægt að skoða hvers konar starfsfólk það er sem fyrirtæki hafa þörf fyrir en hér er langmest um að ræða störf sem krefjast iðnmenntunar.“

Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir eflingu iðnmenntunar í landinu og segir Almar þá bar- áttu ef til vill vera farna að skila árangri. „Við tókum eftir auknum fjölda umsókna í verkmenntaskólana og iðnskólana í ár sem er útaf fyrir sig jákvætt en auk þess teljum við okkur vera að upplifa ákveðna viðhorfsbreytingu gagnvart slíkri menntun. Við höfum verið að benda á að við teljum að stór hluti af unga fólkinu okkar sé að missa af tækifærum sem felist í því að velja slík störf því þau eru í raun mun hreinni, tæknilegri og betur borguð en ímynd þeirra ber með sér,“ segi Almar.

Upphaflegt úrtak könnunarinnar var 1.345 manns en fjöldi svarenda var 284 eða 21,12%.

Viðskiptablaðið, 15. mars 2017.