Fréttasafn



15. maí 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Blikur á lofti en góðar fréttir að við höfum þetta í hendi okkar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræðir við Andrés Magnússon í Dagmálum um atvinnulíf og efnahagshorfur og kemur þar meðal annars fram að blikur séu á lofti í efnahag landsins og raunar heimsins alls og sé það áhyggjuefni, sem bæði stjórnvöld og atvinnulíf verði að gefa góðan gaum. Góðu fréttirnar séu hins vegar þær að Íslendingar hafi lausnirnar að mestu í eigin hendi. Í Morgunblaðinu er birtur úrdráttur úr viðtalinu við Sigurð þar sem hann meðal annars hrósar stjórnvöldum fyrir að hafa haldið skynsamlega á hagsmunum Íslands í alþjóðlegu umróti og eins séu áform ríkisstjórnarinnar í orkumálum mjög til bóta. Meira þurfi þó til þess að rjúfa þá stöðnun sem gæti í efnahagslífinu en þar sé fjármagnskostnaður og óvissan erfiðust viðfangs, en mikilvægast sé að auka samkeppnishæfni landsins hratt og örugglega.

Mikill fjárfestingavilji sem verður ekki að veruleika í háu vaxtastigi

Um verðbólguna segir Sigurður að hún hafi sem betur fer komið svolítið niður. „En hún virðist ætla að verða þrálátari og við heyrum einhvern veginn minna talað um verðbólguna. Núna finnst mér alla vega af hálfu stjórnvalda eins og það sé meiri fókus á önnur mál kannski, heldur en hana. Seðlabankinn hefur haldið vaxtastigi mjög háu fyrir vikið og raunvextir eru háir og það er auðvitað farið að hafa áhrif víða í hagkerfinu en ekki síst í atvinnulífinu. Fyrirtækin finna þetta, heimilin að sjálfsögðu. Þetta hefur áhrif á fjárfestingar. Við heyrum af miklum fjárfestingarvilja víða um land, í rauninni bara úti um allt land, en það verður ekki að veruleika meðan vextir eru háir.“ 

Stöðnun í hagkerfinu hefur áhrif á ríkissjóð

Sigurður segir að ríkisstjórnin hafi boðað aðhald og fjármálaáætlunin sé núna til umfjöllunar í þinginu. „En fyrsti raunverulegi prófsteinninn verður í september þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram. Við erum að sjá það núna að það er stöðnun í hagkerfinu. Ef við horfum til dæmis á fjölda starfandi eftir greinum þá er það nokkurn veginn að fletjast út. Atvinnuleysi er aðeins á uppleið, velta núna miðað við síðasta ár er nokkurn veginn sú sama. Í sumum greinum er aðeins samdráttur, í öðrum er kannski örlítill vöxtur. Þannig að það eru blikur á lofti og þetta mun auðvitað hafa áhrif á ríkissjóð og getur verið mjög krefjandi staða fyrir ríkisstjórnina á næstu misserum. Við byggjum öll okkar lífskjör á Íslandi á því að framleiða hér verðmæti – bæði vöru og þjónustu – og selja á erlendum mörkuðum og þannig getum við svo flutt inn þau gæði sem við sjálf þurfum á að halda. Þessi staða í heiminum, kólnandi hagkerfi, tollastríðið og fleira, gerir það að verkum að markaðsaðstæður versna, ytri skilyrði versna, og auðvitað hefur það áhrif hér. Beinu áhrifin eru kannski ekki svo mikil, enn sem komið er, en á endanum mun þetta skila sér í aðeins hægari vexti eða jafnvel samdrætti.“ 

Stjórnvöld horfi til þess hvernig þau geti eflt samkeppnishæfnina

Þegar Sigurður er spurður hvernig honum finnist ríkisstjórnin hafa tekið á óvæntum aðstæðum utan úr heimi segir hann: „Við höfum verið mjög ánægð með skilaboðin frá henni hvað varðar tollana, sérstaklega hagsmunagæsluna gagnvart Evrópusambandinu. Þar erum við auðvitað í ákveðinni hættu á að klemmast á milli, sérstaklega varðandi stærstu einstöku útflutningsvöruna á þann markað, sem er ál. Hins vegar er það þannig í þessum óvissuaðstæðum að stjórnvöld í öllum ríkjum í kringum okkur horfa til þess hvernig þau geti eflt samkeppnishæfnina og gert atvinnulífinu og fyrirtækjunum kleift að framleiða verðmæti undir þessum kringumstæðum. Við myndum vilja heyra meira afgerandi skilaboð frá stjórnvöldum hér hvað það varðar.“

Áhrif á iðnaðinn af hækkun veiðigjalda þegar farin að koma fram

Þegar Andrés spyr hvort þau séu ekki að senda ýmis skilaboð þessa dagana svarar Sigurður: „Þetta er mismunandi eftir greinum, en þær snúa hver að annarri. Við sjáum það til dæmis með hækkun veiðigjalda, að áhrifin á iðnaðinn eru þegar farin að koma fram. Hvað ferðaþjónustuna varðar þá hefur ríkisstjórnin talað fyrir aukinni gjaldtöku, en þau áform eru mun styttra á veg komin.“ Andrés spyr jafnframt hvort aðrar atvinnugreinar hljóti ekki að óttast að þær séu næstar hvað svona skattahækkanir varðar: „Jújú, það blasir við að aðrar greinar munu máta sig við þetta,“ svarar Sigurður. 

Fagnaðarefni að ríkisstjórnin hefur boðað mótun iðnaðarstefnu

Þegar talið berst að samkeppnishæfni segir Sigurður að aðrar þjóðir vinni hörðum höndum að því öllum stundum að huga að þessum málum og efla sína samkeppnishæfni. „Það þýðir að ef við erum ekki alltaf á vaktinni þá drögumst við aftur úr. Við höfum raunar verið í ágætis samtali við ríkisstjórnina um þessi mál og fögnum því mjög að hún hefur boðað mótun iðnaðarstefnu.“ 

Kyrrstaða loks rofin í orkumálum

Um orkumálin segir Sigurður meðal annars: „Við höfum verið mjög ánægð með stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar orkumálin. Þau hafa verið í hnút um margra ára skeið. Hér hefur ríkt kyrrstaða, sem nú hefur verið rofin. Við erum að sjá miklar breytingar núna, sjáum stór mál koma inn í þingið. Það á til dæmis að höggva á hnútinn varðandi Hvammsvirkjun, sem er mikilvægasta málið akkúrat núna, en ég veit að það eru fleiri mál á leiðinni. Við höfum fagnað því mjög og forstjóri Landsvirkjunar hefur talað um að fram undan næstu árin sé mesta uppbyggingarskeið í sögu félagsins og það er svo sannarlega ekki vanþörf á því. Við sjáum ekki betur en að þarna gangi vel og við höfum hrósað ríkisstjórninni og Jóhanni Páli fyrir að taka þessi mál áfram af svona miklum krafti.“ 

Misræmi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði

Þegar talið berst að húsnæðismálunum spyr Andrés hvort þurfi ekki að binda enda á þessa heimatilbúnu húsnæðiskreppu þá svarar Sigurður: „Við sjáum enn samdrátt milli ára í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, hvort sem við horfum á fjölda starfandi eða veltu, og það er eitthvað sem við höfum ekki séð í mörg ár. Við sjáum líka á upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) að það er misræmi milli framboðs og eftirspurnar á markaði. Eftirspurnin er eftir litlum íbúðum, fólk vill bílastæði og svo framvegis, en skipulagsmálum er þannig háttað – sérstaklega í stærsta sveitarfélagi landsins – að það er ekki í boði að byggja það sem markaðurinn er helst að biðja um. Þetta skapar auðvitað ójafnvægi, en það þýðir að það tekur lengri tíma að selja og fjármagnskostnaðurinn hefur mikið um það að segja líka. Við höfum haft áhyggjur af húsnæðismarkaði í mörg ár og þær fara ekki minnkandi með tímanum. Verðið hefur bara farið í eina átt, upp á við, og miklar hækkanir á síðustu árum undirstrika þetta misræmi milli framboðs og eftirspurnar.“ 

Hér eru vandamál en góðu fréttirnar að við höfum þetta í hendi okkar

Þegar Andrés spyr Sigurð hvar tækifærin liggi helst segir Sigurður að myndin á Íslandi til lengri tíma sé björt. „Hér eru mörg tækifæri, viljinn til fjárfestinga er mjög ríkur og þar eru mörg tækifæri sem munu vonandi verða að veruleika í framtíðinni. Heilt yfir eru stoðirnar sterkar. En við erum ekki ónæm fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. Í því ástandi eru allir í kringum okkur að hugsa um það sama, hvernig er hægt að efla samkeppnishæfni, hvað er hægt að gera til að efla verðmætasköpunina og halda atvinnustiginu uppi. Við þurfum auðvitað að gera það líka. Hér eru ýmis vandamál, en góðu fréttirnar eru þær að við höfum þetta í hendi okkar.“

Hér er hægt að nálgast Dagmálaþáttinn með viðtalinu við Sigurð í heild sinni.

Dagmál / Morgunblaðið / mbl.is / mbl.is,15. maí 2025.

Morgunbladid-15-05-2025

Andrés Magnússon ræðir við Sigurð Hannesson í Dagmálum.

Dagmal-15-05-2025_2Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.