Fréttasafn14. okt. 2020 Almennar fréttir Menntun Starfsumhverfi

Boðaðar breytingar flækja eftirlit og auka skriffinnsku

Samtök iðnaðarins gera athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í umsögninni sem send hefur verið í Samráðsgátt kemur fram  samtökin gjaldi þess varhug að lögfest sé með frumvarpinu almennt orðaðar kvaðir á alls óskilgreinda aðila og sem afleiðing verði undirorpið viðbótareftirlit háð geðþóttaákvörðun stjórnsýslunnar hverju sinni eftir án frekari fyrirmæla eða skilgreininga. 

Samtökin segja að um sé að ræða viðbótareftirlit í viðkomandi starfsemi sem eftir sem áður sé eftirlitsskyld vegna einstakra þátta í starfsemi þeirra, t.a.m. vegna búnaðar, tækja og tóla og annað sem kunni að heyra undir mismunandi stjórnvöld og eftirlitsaðila. Þá þurfi starfsmenn í einhverjum tilvikum sérstök leyfi vegna starfa og einnig séu aðföng, vinnsla þeirra og flutningur til og frá starfsstöð undir sérstöku eftirliti. Því megi með sanni segja að stjórnvöld hafi þegar í óbreyttu ástandi tryggt bæði almennt öryggi og hagsmuni umhverfisins með umfangsmiklum reglum og víðtæku eftirliti. Ekki verði séð að heimild til heilbrigðisnefnda til aukinnar upplýsingaöflunar eða afskipta af tiltekinni starfsemi auki öryggi eða tryggi aukna umhverfisvernd frá því sem nú sé og að boðaðar breytingar séu til þess fallnar að auka á reglubyrði, flækja eftirlit og auka skriffinnsku án þess að því fylgi sérstakur ávinningur. Eina sem liggi fyrir óumdeilt sé að þetta muni vera íþyngjandi fyrir fyrirtæki og fela í sér kostnaðarauka.

Nám snyrtifræðinga nægir fyrir húðrof

Þá kemur fram í umsögninni að nám snyrtifræðinga ætti að vera metið inn í þau skilyrði sem sett eru um þekkingu og fræðslu þeirra sem starfa við húðrof (tattoo/húðflúr) og ætti því aukin þjálfun eða hæfnispróf ekki að eiga við um snyrtifræðinga þótt þeir sinni húðrofi í störfum sínum. Samtökin leggja því til að nám snyrtifræðinga verði metið inn í lágmarkskröfur um menntun, þjálfun og endurmenntun á vegum umhverfisstofnunar.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.