Fréttasafn9. feb. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Boltinn er hjá sveitarfélögunum

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Markaðnum í Fréttablaðinu um þær 40 tillögur til að bregðast við vanda á húsnæðismarkaðinn sem koma fram í skýrslu átakshóps sem forsætisráðherra skipaði 2019. Sigurður segir að miklu hafi verið áorkað í þessum efnum síðan skýrslan kom út en betur megi ef duga skuli. Enn eru 15 tillögur sem eiga eftir að koma til framkvæmda. „Ef maður er sanngjarn þá var mörgum af þessum aðgerðum fylgt eftir en það er tvennt sem er ábótavant; skipulagsmálin og uppbygging á vegum sveitarfélaga. Hluti af þessum 40 aðgerðum sem kynntar voru var að gera umbætur í skipulagsmálum. Umhverfisráðuneytið tók þær tillögur til sín til frekari úrvinnslu og til að gera langa sögu stutta þá skiluðu þau auðu. Það var mjög slæmt fyrir málaflokkinn.“ 

Íbúðum í byggingu hefur fækkað frá árinu 2019

Sigurður segir í frétt Markaðarins að ekki megi gleyma þætti sveitarfélaganna. „Sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvar er byggt og hversu mikið. Þau samþykkja skipulag á sínu svæði og þó að mikil uppbygging hafi átt sér stað þá er það staðreynd að íbúðum í byggingu hefur fækkað samfellt frá árinu 2019. Við teljum íbúðir í byggingu tvisvar á ári og fjöldi þeirra náði hámarkið haustið 2019 en síðan þá hefur þeim fækkað talningu frá talningu. Þó einhver umsvif hafi verið hjá sveitarfélögum þá er það bara ekki nóg.“

Margt áunnist með einföldun regluverks, endurskoðun reglugerða og stafrænni stjórnsýslu

Sigurður segir einnig í Markaðnum að margt gott hafi áunnist í málaflokki húsnæðismála. „Það er til dæmis búið að einfalda regluverk að sumu leyti. Áður fyrr var það þannig að í eftirliti var ekki gerður greinarmunur á því hvort verið væri að byggja einbýlishús eða hátæknisjúkrahús. Nú er búið að breyta því. Einnig hefur byggingarreglugerðin verið endurskoðuð og stafræn stjórnsýsla hefur verið bætt. Þó svo að við eigum langt í land þá er yfirsýnin engu að síður orðin meiri.“ 

Íbúðamálin aðeins áherslumál í kringum kosningar

Þá segir Sigurður í Markaðnum að þó svo að stigin hafi verið skref í rétta átt þá sé boltinn hjá sveitarfélögunum. „Við vorum í svipaðri umræðu fyrir fjórum árum síðan í kringum sveitarstjórnarkosningarnar. Síðan 2018 hefur dregið úr fjölda íbúða í byggingu. Virðist vera sem íbúðamálin séu aðeins áherslumál í kringum kosningar en ekki í millitíðinni.“

Langtímamarkmið að stuðla að stöðugleika

Í frétt Markaðarins er einnig rætt við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem segir meðal annars: „Við höfum stuðlað að aukinni uppbyggingu annars vegar í gegnum aukin framlög í almenna íbúðakerfið og hins vegar með nýjum hlutdeildarlánum sem fæðast eftir þessa stefnumótun. Við höfum markvisst verið að vinna í því að bæta íbúðamarkaðinn. Langtímamarkmiðið hlýtur að vera að stuðla að stöðugleika. Þannig að við séum ekki að sjá miklar sveiflur í framboði og verði.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 9. febrúar 2022.

Frettabladid-09-02-2022