Fréttasafn14. mar. 2019 Almennar fréttir Menntun

Börn velji nám eftir áhuga

„Ég hef alltaf sagt við mín börn að velja fyrst og fremst nám eftir áhuga – að það sé skynsamlegasta valið. Við sjáum hins vegar að það eru ýmsir kostir við iðnnám umfram bóknám, til dæmis sjálfstæði og sveigjanleiki, mikil umfram eftirspurn eftir vinnuafli og svo eru það tekjumöguleikarnir en fær iðnaðarmaður hefur oft mun meiri tekjumöguleika með tilliti til ævitekna en margir af þeim bóklærðu,“ segir Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá Samtökum iðnaðarins, í kynningarblaðinu Verkiðn sem fylgir Fréttablaðinu í dag. 

Víða mikil þörf á iðnmenntuðu starfsfólki

Þar segir að í könnunum meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins komi fram að þrír af hverjum fjórum finna fyrir skorti á iðnmenntuðu starfsfólki og í samanburði telja aðeins 12% vera skort á háskólamenntuðu starfsfólki. „Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að víða sé mikil þörf á iðnmenntuðu starfsfólki. Það sætir svo sem ekki furðu því Ísland sker sig úr á alþjóðavettvangi þar sem rétt um þriðjungur nema á framhaldsskólastigi leggur stund á starfsnám. Í samanburði er hlutfallið á hinum Norðurlöndunum rúmlega helmingur og nær 70 prósent í Finnlandi. Íslenskir nemendur eru því ekki að velja starfsnám í nægum mæli, jafnvel þótt áhugi margra liggi mun meira í verklegum fögum en bóklegum.“

Jóhanna Vigdís segir ástandið misjafnt eftir iðngreinum. „Það er til dæmis áhyggjuefni að orðið hefur þó nokkur fækkun í ýmsum greinum, eins og bygginga- og mannvirkjageiranum. Ef okkur tekst ekki að snúa þeirri þróun við verður erfitt að takast á við ýmsar framtíðaráskoranir og sem dæmi má nefna þann mikla húsnæðisskort sem nú blasir við og þarf að leysa.“ 

Hætta að tala um aðgreiningu bóknáms og verknáms

Þá segir í blaðinu að innan Samtaka iðnaðarins verði greinilega vart við aukinn áhuga á iðn- og verknámi hjá íslenskum ungmennum. „Við leggjum ríka áherslu á að iðn- og verkgreinum sé gert jafn hátt undir höfði og bóknámsgreinum í námsskrá skólanna og þjóðfélagsumræðu almennt. Það er mín skoðun að við ættum að sleppa þessum hólfum og hætta að tala um aðgreininguna bóknám og verknám. Nám er nám og öll færni krefst bæði verklegrar og fræðilegrar þekkingar. Við þurfum að leggja meiri áherslu á kennslu verkgreina strax á fyrstu stigum grunnskóla og vinna með þá færni frá fyrstu stigum.“ 

Mikilvægt að draga fram sterkar fyrirmyndir

Jóhanna Vigdís kallar eftir þjóðarátaki í kynningarmálum fyrir iðn- og verkgreinar. „Með slíku átaki gæti ungt fólk áttað sig á þeirri staðreynd að námið er bæði áhugavert og skemmtilegt og að þær skaðlegu staðalímyndir sem oft eru dregnar fram eru beinlínis rangar. Ég tel þannig mikilvægt að draga fram sterkar fyrirmyndir til að höfða til ungs fólks og nýta þær til að kynna hinar ýmsu iðngreinar því það er svo sannarlega mikið af flottu fólki í iðnaði.“ 

Kynna faggreinar snemma í grunnskólum

Sé horft til sveinsprófa á árabilinu 2011 til 2018 er vinsælasta iðnnámið rafvirkjun, en málmsuða, rafveituvirkjun og húsgagnasmíði eru nú í mikilli sókn. „Því miður hefur ekki orðið nein stórkostleg fjölgun kvenna í iðnaði, en það mjakast og nú hefur til dæmis konum fjölgað í bílamálun í Borgarholtsskóla. Ýmsar herferðir hafa reynt að sýna fram á að þetta séu svo sannarlega kvennastörf líka og ég hef unnið mikið með Félagi fagkvenna sem eru konur með sveinspróf eða meistararéttindi í karllægum iðngreinum. Þær fara í heimsóknir í yngstu bekki grunnskóla og segja frá sinni iðngrein, sýna krökkunum verkfærin sín og leyfa þeim að prófa. Það er svo mikilvægt að leyfa krökkum að prófa og kynna þessar faggreinar snemma í grunnskólanum og ekki spillir fyrir að hafa flottar kvenfyrirmyndir.“ 

Með aukinni nýsköpun verða til ný störf

Jóhanna Vigdís segir sjálfvirknivæðinguna hafna í iðnaði sem öðrum greinum „Vélar munu þó aldrei taka að fullu yfir störf sem krefjast sköpunar og aðlögunarhæfni eins og mörg störf iðnaðarmanna gera. Auðvitað munu sum störf hverfa eins og í fyrri iðnbyltingum en fjölmörg ný munu koma í staðinn. Eðli menntunar og starfa er að breytast hratt og með aukinni nýsköpun verða til ný störf. Við sjáum til dæmis núna að fær rafvirki er orðinn hátæknimenntaður einstaklingur.“

Fréttablaðið, Frettabladid.is, 14. mars 2019.

Frettabladid-14-03-2019