Fréttasafn9. júl. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Breytingar á byggingarreglugerð taka gildi

Reglugerð nr. 669/2018, til breytinga á byggingarreglugerð nr. 112/2012, var birt í Stjórnartíðindum síðastliðinn fimmtudag, og hefur þar með tekið gildi. Á vef Stjórnartíðinda er hægt að lesa reglugerðina. 

Á vef Mannvirkjastofnunar eru birtar helstu breytingar en helstu breytingar á reglugerðinni eru eftirfarandi:

  1. Nú er skylt að gera ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði í nýbyggingum og við endurbyggingu íbúðarhúsnæðis. Skyldan nær til þess að hægt verði að setja upp tengibúnað við hvert stæði án verulegs kostnaðar – en ekki til þess að setja upp tengibúnaðinn strax.
  2. Við hönnun bygginga til annarra nota en íbúðar skal í hönnunargögnum gera grein fyrir fjölda bílastæða þar sem hleðsla rafbíla er möguleg.
  3. Skilgreining á smáhýsi breytist þannig að bæði raf- og vatnslagnir geta nú verið í smáhýsi. Af breytingunni leiðir að nú er heimilt að byggja smáhýsi á lóð, án byggingarleyfis skv. g-lið 2.3.5. gr. bygg.rgl., með raf- og vatnslögnum en áður var slíkt smáhýsi byggingarleyfisskylt vegna lagnanna.
  4. Ekki þarf lengur staðfestingu Mannvirkjastofnunar á að rafvirkjameistari hafi tilkynnt um að raforkuvirki sé tilbúið til úttektar vegna öryggis- og lokaúttekta, heldur skal rafvirkjameistari sjálfur veita slíka staðfestingu.
  5. Tilvísun í staðal hvað varðar sement, steinsteypu og steinsteypuvirki, vísað er til ÍST EN 206 í stað ÍST EN 206-1. Þá var orðalagi í tilvísun til ÍST EN 13670 breytt og vísað til staðalsins í heild, í stað þess að vísa bara til ákvæða um niðurlögn steypu í sama staðli.
  6. Bætt er við tilvísun í staðalinn ÍST 151 vegna hönnunar raflagna í íbúðarhúsnæði en fyrir var aðeins vísað til ÍST 150.
  7. Uppfærð er tilvísun í reglugerð um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur vegna ákvæða um vélarrými og vélbúnað lyftu.