Fréttasafn22. des. 2022 Almennar fréttir Menntun Starfsumhverfi

Breytingar á löggildingu 16 iðngreina

Löggilding 16 iðngreina hefur ýmist verið felld niður eða sameinaðar öðrum iðngreinum samkvæmt reglugerð ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Samtök iðnaðarins gerðu alvarlegar athugasemdir við fyrirætlanir ráðuneytisins um breytingarnar og skiluðu samtökin fimm umsögnum um málið fyrr á árinu.

Tekið var tillit til nokkurra af athugasemdum Samtaka iðnaðarins og aðildarfélaga sem fram komu í umsögnum en þó hafa verið gerðar breytingar sem eru að mati samtakanna óásættanlegar. Þar vegur þyngst sameining skipa- og bátasmíði við húsasmíði og afnám löggildingar á málmsteypu. Breytingarnar sem fylgja þessari nýju reglugerð munu óhjákvæmilega hafa mikil áhrif í sumum iðngreinum, bæði á nám í greininni og starfsréttindi þeirra sem þar starfa. Samtök iðnaðarins hafa þegar óskað eftir fundi með mennta- og barnamálaráðuneytinu til að fá upplýsingar um áhrif þessara breytinga á nám í viðkomandi iðngreinum.

Samtök iðnaðarins vænta þess jafnframt að unnt verði að endurmeta umræddar breytingar þar sem fram kemur í skýringum með reglugerðarbreytingunum að hér sé „ekki um óafturkræfar breytingar að ræða og ef veigamikil sjónarmið koma síðar fram sem kalla sérstaklega á að þær iðngreinar sem nú missa lögverndun verði lögverndaðar að nýju gefst tækifæri til að endurmeta stöðuna í ljósi nýrra gagna eða aðstæðna.“.

Á vef Stjórnartíðinda er hægt að nálgast reglugerðina um breytingu á reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar.