Fréttasafn



2. júl. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Búast má við enn meiri samdrætti á framboði íbúða

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um stöðuna á byggingamarkaðnum í sérblaði sem fylgir nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Hann segir að reiknað sé með 9-10% samdrætti á landsframleiðslu sem hafi áhrif á byggingamarkaðinn. Gengi krónunnar hafi gefið eftir og innflutt efni til íbúðabygginga hækkað af þeim sökum en það sé umtalsverður hluti byggingakostnaðar. „Allt þetta hefur áhrif á framboð íbúða og við erum því að sjá fyrir okkur enn meiri samdrátt en spá okkar gerði ráð fyrir.“ Í blaðinu kemur fram að um 5.400 íbúðir hafi verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum samkvæmt vortalningu SI sem birtist í mars síðastliðnum, en það sé 11% samdráttur frá fyrra ári. Samdrátturinn sé enn meiri eða um 42% ef horft sé til íbúða á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu. SI spá því að 2.107 byggingar verði fullgerðar í lok ársins en í spá samtakanna í fyrra hafi verið búist við að 3.000 íbúðir myndu klárast á þessu ári. Talning SI fór fram rétt áður en kórónuveiran hafði náð mikilli fótfestu og því gæti samdrátturinn orðið enn meiri. „Staða heimilanna hefur versnað síðan þá, sérstaklega með tilliti til aukins atvinnuleysis. Algert hrun hefur verið í fjölda ferðamanna. Þetta hefur áhrif á eftirspurnarhlið markaðarins.“

Ingólfur segir að byggingamarkaðurinn sé seinn að bregðast við en menn klári þau verk sem eru í gangi. Hann kveðst þó áhyggjufullur yfir samdrætti á fyrstu framkvæmdastigum, vaxandi samdrætti í sölu á sementi og steypustyrktarjárni og auknum verkefnaskorti hjá arkitektum. Þá segir í blaðinu að í nýrri könnun Samtaka arkitektastofa komi fram að dregið hafi úr eftirspurn hjá 87% arkitektastofa vegna faraldursins. Um 75% þeirra geri ráð fyrir að lausafjárstaða verði erfið á næstunni og um 29% segja að það muni vega að rekstrargrundvelli þeirra. „Þegar við sjáum mikla niðursveiflu á þessum markaði þá birtist það í skorti á fullbyggðum íbúðum á næsta eða þar næsta ári. Það verði þá tilefni til þess að þrýsta verði upp.“ 

Viðskiptablaðið / vb.is, 2. júlí 2020.

Vidskiptabladid-02-07-2020