Fréttasafn



7. sep. 2020 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Bygginga- og mannvirkjagerð bráðnauðsynleg undirstaða

Vægi mannvirkjagerðar er mikið ef horft er á greinina út frá þessum hefðbundu mælikvörðum, þ.e. starfsmannafjölda og krónum og aurum. Í fyrra voru að jafnaði starfandi um 14.300 manns í bygginga- og mannvirkjagerð eða nær 6,5% af heildarfjölda starfandi í hagkerfinu. Samdráttur hefur þó eins og gefur að skilja verið í fjölda starfandi í greininni á þessu ári en í júní sl. voru ríflega 10% færri starfandi í greininni en í sama mánuði í fyrra. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í nýjasta tölublaði Sóknarfæra þegar hún svarar spurningunni Hversu mikla þjóðhagslega þýðingu hefur mannvirkjagerð í landinu fyrir efnahaginn? 

Hún segir jafnframt að á síðasta ári hafi byggingariðnaður og mannvirkjagerð skapað 7,3%  landsframleiðslunnar eða sem nemur rúmlega 220 milljörðum króna. Velta greinarinnar nam það ár tæplega 360 milljörðum króna en hafði á fyrri árshelming þessa árs dregist saman um ríflega 9% frá sama tímabili í fyrra. 

Uppbygging í húsnæði og innviðum ekki í formi síendurtekinna átaksverkefna

Jóhanna Klara segir ennfremur að við verðum þó að setja mikilvægi greinarinnar í annað samhengi líka þar sem efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild séu mjög slæmar ef ekki sé vel staðið að eðlilegri uppbyggingu. Mannvirkin sem við búum og störfum í og innviðirnir sem við notum bæði heima og í atvinnulífinu séu bráðnauðsynleg undirstaða í samfélaginu. Húsnæðisskortur eða slæmir innviðir hafi mjög neikvæð áhrif á bæði atvinnulífið og heimilin í landinu. Það hafi að hennar mati ekki verið nægilegur skilningur á þessu sjónarmiði. 

Uppbygging þegar kemur að bæði húsnæði og innviðum megi ekki vera í formi síendurtekinna átaksverkefna. „Sögulega þá höfum við ráðist í átaksverkefni til að ná í skottið á okkur þegar allt er komið í óefni. Það er að okkar mati eitt mikilvægasta verkefni greinarinnar nú að við náum að bæta áætlanagerð til að ná fram stöðugri uppbyggingu og viðhaldi til framtíðar.“

Allir liðir málaflokksins í innviðaráðuneyti

Þá kemur fram hjá henni að það þurfi að koma stjórnsýslunni í byggingariðnaði yfir á þess öld. „Áætlanagerð sveitarfélaga og aðgengi að upplýsingum er eitt af mikilvægustu umbótaverkefnum greinarinnar um þessar mundir. Það kann að vera ótrúlegt en staðan er sú að í dag er það íbúðartalning Samtaka iðnaðarins sem veitir mönnum bestu innsýnina inn í hvað er í byggingu hverju sinni. Við komum út með slíkar talningar tvisvar á ári en mönnum krossbregður þegar þeir átta sig á aðferðarfræðinni sem við verðum að beita. Það er einfaldlega þannig að starfsmaður samtakanna keyrir um landið og handtelur tómar íbúðir. Við höfum gengið svo langt að tala um nauðsynlega byltingu í rafrænni stjórnsýslu í greininni.“ 

Hún segir að ástæðan fyrir því að greinin sé svona langt á eftir sé að málaflokkurinn hafi einfaldlega verið allt of dreifður, inni í mörgum ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum. „Við höfum talað fyrir því að fá eitt innviðaráðuneyti til að sameina alla liði málaflokksins undir einn hatt líkt og gert er í Danmörku. Það varð ekki alveg svo en engu að síður þá sameinaðist málaflokkurinn fyrir skömmu að miklu leyti undir félagsmálaráðuneytið auk þess sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var stofnuð sem við bindum miklar vonir við.“ 

Byggingargátt gjörbreytir aðgengi að upplýsingum

Þá kemur fram hjá Jóhönnu Klöru að nú sé t.d. í þróun svokölluð byggingargátt hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem gæti, ef vel er að staðið, gjörbreytt aðgengi að upplýsingum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. „Á sama tíma sjáum við einnig stóraukna áherslu opinberra aðila á stöðuga uppbyggingu innviða og langtíma áætlanagerð. Atvinnulífið á sér draum um eitt kerfi frá upphafi byggingar til afhendingar og svo viljum við sjá viðhaldsbók hverrar fasteignar sem væri þá sambærileg og smurbók fyrir bílinn þinn.“ 

Sóknarfæri, september 2020.

Soknarfaeri-september-2020