Fréttasafn



25. apr. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Meistarafélag húsasmiða

Byggingarmarkaðurinn hefur breyst mikið segir formaður MFH

Rætt er við Jón Sigurðsson, formann Meistarafélags húsasmiða og Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðinu um byggingargalla og segir hann að slæleg vinnubrögð skýri galla í nýbyggingum. „Menn eru einfaldlega að byggja illa. Byggingarmarkaðurinn hefur breyst svo mikið. Áður fyrr voru meistarar að byggja, fengu lóðir og byggðu upp hús og fyrirtæki og orðspor. Þeir komu og löguðu gallana ef eitthvað kom upp á, jafnvel tveimur til fjórum árum síðar. Nú eru komnir fjárfestar inn á markaðinn sem hugsa aðeins um að græða sem mest á sem skemmstum tíma. Þeim er sama um gæði bygginganna sem þeir skila af sér enda ætla þeir aðeins að hirða hagnaðinn og eru svo farnir. Þeir ráða til sín unga og jafnvel reynslulausa meistara til að vera byggingarstjórar sem eru þar með á þeirra vegum. Byggingarstjórarnir þora þar af leiðandi ekki að taka afstöðu á móti fjárfestunum. Ef fjárfestarnir fá ráðleggingar um úrbætur fara þeir jafnvel ekki í málin af því að það kostar allt peninga. Sumir fjárfestar hugsa lítið um gæði bygginganna heldur eru bara að hugsa um að hámarka hagnaðinn. Því miður.“

Sveitarfélög og bankarnir

Þegar blaðamaður spyr hvaða leiðir séu til úrbóta svarar Jón: „Sveitarfélögin eru farin að nota lóðir sem tekjulind. Það er lítið framboð af lóðum og of lítið byggt og það sprengir upp verðið. Ef fleiri lóðum væri úthlutað og meira byggt myndi fasteignaverð lækka og þessir aðilar fara út af markaðnum. Þeir hafa engan áhuga ef þeir geta ekki grætt nógu mikið og þá verða þeir ekkert á markaðnum lengur. Bankarnir stýra þessu líka enda lána þeir bæði til framkvæmdaaðila og íbúðareigenda. Bankarnir hafa lánað til framkvæmda út á hátt íbúðaverð. Heldurðu að þeir vilji lána til framkvæmdaaðila sem ætlar að byggja ódýrara og selja ódýrara? Það er ég ekki viss um.“

Miklu betur byggt áður

Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að Jón segir að hús hafi verið betur byggð áður „Miklu betur. Áður var lítið um viðgerðir á húsum sem voru yngri en 20-30 ára. Það var ekki farið að gera við hús á Íslandi að einhverju ráði fyrr en árið 1990. Viðhaldsmarkaðurinn á Íslandi er því nýr. Mörg af fyrstu fyrirtækjunum sem sérhæfðu sig í viðhaldi tóku til starfa í kringum 1990. Það væri líka óskandi að hafa meiri upplýsingar um galla í nýbyggingum. Hvað er vandamálið? Hvar er lekinn? Eru það veggirnir eða þökin?“ 

Slakað á kröfum

Í fréttinni kemur fram að Jón segir að slakað hafi verið á kröfum í þessu efni. „Ég hef komið inn í nýjar íbúðir og hef lesið skilalýsingar á nýbyggðum íbúðum. Ég var að vinna hjá Byggungi í gamla daga en á árunum 1980-1985 vorum við að byggja íbúðir sem áttu að teljast frekar ódýrar. Við hefðum hins vegar ekki skilað íbúðum eins og þeim sem er lýst í nýju skilalýsingunum. Það sem eru nú ekki taldir vera gallar hefðum við lagað á þessum árum sem sýnir hvernig hlutirnir hafa þróast til verri vegar. Þetta verður að laga. Þetta gengur ekki upp.“

Hætta þarf að tryggja byggingarstjóra

Þá segir Jón í frétt Morgunblaðsins: „Einnig þarf að hætta að tryggja byggingarstjóra heldur á að láta fyrirtækið sem byggir og selur kaupa tryggingu sem tryggir hér um bil andvirði hússins og gildir í tíu ár að lágmarki. Fólk kaupir bíl með sjö ára tryggingu. Af hverju ætti fólk að kaupa húsnæði fyrir aleiguna með sex ára tryggingu fyrir aðeins að hámarki 16 milljónir? Þetta er galið. Það þarf að hætta að tryggja byggingarstjórana, heldur á að láta fyrirtækin kaupa tryggingarnar.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 23. apríl 2025.


Breytingar í byggingargeiranum  

Í frétt Stöðvar 2 segir Jón að breytingar í byggingageiranum ráði mestu um galla í þessum nýju húsum. „Fyrir hrun þá voru meistarar úr okkar félagi með fyrirtæki, þeir fengu lóðir og voru að byggja, þeir voru að byggja upp sín fyrirtæki og allir mennirnir voru starfsmenn hjá þeim, þannig þeir reyndu að skila af sér góðu verki. Síðan eftir hrun þá koma fjárfestar inn á markaðinn og þeir eru bara að hugsa um hagnað og ætla bara að reyna að ná eins út miklum hagnaði og þeir geta á eins skömmum tíma og þeir geta,“ segir Jón.

Hraði, vöntun á leiðbeiningum og val á efni 

Í frétt Stöðvar 2 kemur fram að fjárfestarnir hafi enga starfsmenn á sínum snærum, allt sé boðið út í smáum einingum og þar bjóði verktakar eins lágar upphæðir og þeir geti í verkin svo þeir tapi sem minnstu. Hraði uppbyggingar, vöntun á leiðbeiningum fyrir íslenskar aðstæður og val á efni spila einnig inn í að sögn Jóns, frekar en hönnun nýju húsanna, sem athygli vekur að eru flest með flötum þökum. „Það vantar náttúrulega, eins og leiðbeiningar sem ég er að tala um, það vantar að hönnuðir skili inn sérteikningu og frágangi á gluggum. Flatt þak á ekkert að leka. Það er ekkert samansemmerki þar á milli, það er bara gömul klisja frá því Ómar Ragnarsson var hérna með fréttir úr Fossvoginum. Flatt þak á alveg að geta verið þétt, það þarf bara að gera það rétt.“ 

Þá kemur fram í fréttinni að Jón segi að lágmarki séu hús í lagi í tíu ár og að iðnaðarmenn hafi ekki farið að gera við hús á Íslandi svo heitið getur fyrr en í kringum 1990. „Hús sem voru byggð í kringum 1930, 1940, þau entust. Það segir okkur eitthvað.“ Þegar hann er spurður hvort þau endist í 40, 50 ár svarar Jón: „Já já. Það er bara þannig. Það þarf náttúrulega og mála og halda við en hús eiga ekki að vera farin að leka vatni.“

Stöð 2/Vísir, 25. apríl 2025.