Fréttasafn11. sep. 2020

Bylting í flokkun og endurvinnslu á Íslandi

Fyrirtækið Terra, sem sérhæfir segir meðal annars í að flokka, endurnýta og meðhöndla úrgang með ábyrgum hætti er að taka í notkun nýja flokkunarvél, sem styðst við samþættingu litrófsgreiningar og ljósmyndaminnis. „Þetta er nýr veruleiki, flokkun og endurvinnsla er komið á annað stig með þessari tækni,“ segir JÓNÍNA GUÐNÝ MAGNÚSDÓTTIR, framkvæmdastjóri viðskipta- og þjónustusviðs. Flokkarinn er sá eini sinnar tegundar á Íslandi og í sérflokki á Norðurlöndunum.

Við getum skilað til baka dýrmætum efnum í hringrásarhagkerfið.

Jónína segir gríðarlega möguleika felast í nýsköpun við flokkun og endurvinnslu. „Nýsköpun er grundvöllur framþróunar, Terra hefur sett sér þá stefnu að vera leiðandi í umhverfisþjónustu og er nýsköpun mikilvægur málaflokkur innan Terra. Flokkun og endurvinnsla eru tveir þættir af sjö í skilgreindu hringrásarhagkerfi og skiptir því miklu máli að þeir málaflokkar fylgi og leiði það samspil. Við viljum vera með puttann á púlsinum og hlusta vel, bæði á okkar viðskiptavini og svo þróunina erlendis. Við erum stöðugt að vinna í nýjum leiðum til að hjálpa okkar viðskiptavinum að skilja ekkert eftir, sem er kjarni og tilgangur starfsemi okkar. Við vorum til að mynda fyrsta fyrirtækið á Íslandi til flytja inn tví- og þrískipta söfnunarbíla, sem gerði það að verkum að við gátum minnkað kolefnisspor vegna aksturs. Það er margt í pípunum hjá okkur núna, meðal annars erum við að vinna í snjalllausnum í tengslum við aðgangsstýringar á gámum og pressum og „Pay As You Throw“, sem byggir á því að hver tekur ábyrgð á sinni neyslu.“ 

Skila dýrmætum efnum inn í hringrásarhagkerfið 

„Sjálfvirki flokkarinn okkar, eða Fróði flokkari, eins og við kjósum að kalla hann, er ein fullkomnasta flokkunarvél á Norðurlöndum sem byggir á samþættingu litrófsgreiningar og ljósmyndaminnis til þess að flokka úrgang með mun nákvæmari og fullkomnari hætti en áður hefur verið gert. Þetta færir í raun flokkun og endurvinnslu á annað stig á Íslandi. Við getum skilað til baka dýrmætum efnum í hringrásarhagkerfið.“

Hún segir að Terra leggi höfuð ­ áherslu á að koma eins miklu efni í endurvinnslu og hægt er og lágmarka þannig það efni sem fer í orkubrennslu eða í urðun. „Á meðan hér á landi er lítil endurvinnsla pappírs og plasts og offramboð er á endurvinnsluefni í heiminum miðað við endurvinnslugetu, þá skiptir miklu máli að endurvinnslur erlendis séu tilbúnar að taka við efninu frá Íslandi. Kröfur um hreinleika og gæði efnanna eru alltaf að aukast. Til þess að tryggja að sem hæst hlutfall endurvinnsluefna fari í endurvinnslu og bregðast við kröfum okkar samfélags, þá höfum við hjá Terra fjárfest í sjálfvirkum flokkara. Áhersla er á flokkun efna, eins og til dæmis frá Endurvinnslutunnunni okkar, í pappír, pappa, plast og málma. Forflokkað efni frá fyrirtækjum og sveitarfélögum getum við flokkað enn frekar niður eftir tegundum og efniseiginleikum. Flokkun af þessu tagi er með þeirri bestu sem þekkist í heiminum.“ 

GudnyTerra_806A1827

Miklir möguleikar í sorpinu 

Jónína segir heilmikla möguleika í sorpinu. „Síðustu ár hafa nýsköpunarfyrirtæki, matvælaframleiðendur og matvælastofnanir staðið sig gríðarlega vel varðandi að nýta verðmætin úr fiskinum. Því sem áður var hent, eins og roðinu, er núna nýtt í húðvörur og slógið er notað í fæðubótaefni svo eitthvað sé nefnt. Við þurfum að gera það sama með endurvinnsluefni. Ég skora á Gulleggið, Rannís og fleiri aðila að leggja áherslu á endurvinnslu og hvetja snillingana okkar til að finna leiðir til að hanna vörur úr endurunnum efnum og hanna umbúðir og vörur sem duga lengur og sem hægt er að endurnýta í einhverju formi eða endurvinna.“ 

Loftslags- og umhverfismálin verða sífellt meira áberandi í umræðunni, hér og um heim allan. Jónína segir græn skref koma til með að skipa stóran sess í því sameiginlega markmiði heimsbyggðarinnar að sporna við hlýnun jarðar. „Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikið vægi loftslags - og umhverfismál eru að fá núna í samfélagsumræðunni. Þau sem enn eru efins um hlýnun jarðar af mannavöldum eiga erfiðara með að andmæla því að við erum að ganga á takmarkaðar auðlindir jarðar, auðlindir eins og fágæta málma sem eru nauðsynlegur þáttur í framleiðslu nútímatækni. Því er nauðsynlegt að tryggja endingu vara og að efnin skili sér aftur inn í hringrásarhagkerfið.“ 

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_