Fréttasafn



26. maí 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Carlsberg-ákvæðið hamlar íbúðauppbyggingu

Stjórnvöld þurfa að stíga varlega til jarðar við setningu ákvæðisins enda fyrirséð að bæði óvissa og ágreiningur um framkvæmd þess eru til þess fallin að hamla íbúðauppbyggingu. Þetta segja Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, og Árni Grétar Finnsson, lögmaður á efnahags- og samkeppnishæfnissviði SA, í grein í Viðskiptablaðinu um Carlsberg-ákvæðið þar sem þau gagnrýna frumvarp ráðherra þar sem áformað er að lögfesta heimild sveitarfélaga til að skilyrða 25% af heildarfermetrafjölda íbúða við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði fyrir íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir, íbúðir sem uppfylla skilyrði fyrir hlutdeildarlán og lán til leiguíbúða samkvæmt lögum um húsnæðismál.

Í niðurlagi greinarinnar segir jafnframt að það sé sameiginlegt verkefni allra aðila að tryggja íbúðauppbyggingu í samræmi við þörf og ljóst sé að áform ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu 35 þúsund íbúða næstu tíu árin sé mikilvægt skref í þá átt. Carlsberg-ákvæði frumvarpsins muni því miður vinna gegn því góða markmiði.

Í greininni kemur fram að Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafi í umsögnum sínum bent á að Carlsberg-ákvæðið geti að óbreyttu hamlað uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þeir annmarkar sem séu á ákvæðinu munu ganga gegn markmiðum stjórnvalda og sveitarfélaga um hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Að mati samtakanna séu útfærsla og takmörk hinna fyrirhuguðu kvaða óljós. Sé ætlunin að lögfesta heimild sveitarfélaga til að setja skilyrði um uppbyggingu tiltekinna tegunda íbúða þá verði ákvæðið að vera alveg skýrt um takmörk og umfang þeirrar heimildar. 

Þau segja í greininni að í dag sé staðan sú að sum sveitarfélög séu að gera margvíslegar kröfur til uppbyggingar í þeirra sveitarfélögum. Til að mynda geri sum sveitarfélög kröfu um að tiltekinn hluti eigna sé seldur fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins, í sumum tilvikum undir kostnaðarverði. Sveitarfélögin virðast telja sig hafa rúmar heimildir til slíks á ólögfestum grunni en slík skilyrði séu almennt sett í samningsskilmála sveitarfélaga við lóðarhafa. Í greininni segir að öllu nær væri ef ákvæði frumvarpsins fæli í sér tæmandi talningu á heimildum sveitarfélaga til að setja kvaðir um uppbyggingu tiltekinna tegunda íbúða og að þær kvaðir séu eingöngu framsettar í deiliskipulagi. 

Viðskiptablaðið, 26. maí 2023.

Vidskiptabladid-26-05-2023