Fréttasafn20. maí 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Dómsmál að hefjast um innviðagjöld Reykjavíkurborgar

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, segir í Markaðnum í Fréttablaðinu að veruleg óvissa sé um heimildir Reykjavíkurborgar til þess að standa í tekjuöflun með innheimtu innviðagjalds á einkaréttarlegum grunni og að á það reyni í dómsmáli verktaka og Samtaka iðnaðarins gegn Reykjavíkurborg sem tekið verður fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

Í fréttinni kemur fram að dómurinn kunni að hafa áhrif á innheimtu borgarinnar á innviðagjöldum fyrir marga milljarða króna, að sögn Jóhönnu Klöru. Stefnuf járhæðin í málinu sé um 120 milljónir króna en fordæmisgildi dómsins geti orðið víðtækt og haft áhrif á innheimtu á innviðagjöldum við framtíðaruppbyggingu Reykjavíkurborgar. Vonir standi til þess að niðurstaða liggi fyrir áður en dómurinn tekur réttarhlé í sumar. 

Gjaldið til viðbótar við aðra tekjustofna

Jóhanna Klara segir að kjarni málsins sé sá að umrætt innviðagjald hafi verið innheimt af borginni, sem endurgjald fyrir þjónustu á sviði skipulagsmála en þau teljist til lögbundinna verkefna borgarinnar. „Einnig átti að ráðstafa gjaldinu til verkefna sem teljast til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins, til dæmis fjármögnunar skólabygginga, og verkefna sem þegar eru fjármögnuð með gatnagerðargjaldi til að kosta gerð nýrra gatna og fleira. Í þessum skilningi er gjaldið nýtt sem almennt tekjuöflunartæki Reykjavíkurborgar, til viðbótar við þá tekjustofna sem borginni standa nú þegar til boða á grundvelli laga.“

Þá segir í fréttinni að Markaðurinn hafi greint frá stefnunni á hendur Reykjavíkurborg í október í fyrra. Þá hafi Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagt hagsmunaaðila hafa kosið að láta reyna á rétt sinn með málsókninni. Hagsmunirnir væru miklir enda hefði gjaldið áhrif á byggingarkostnað og hækkaði mögulega söluverð nýbygginga.

Efasemdir um lögmæti gjaldsins frá upphafi

Jóhanna Klara segir í fréttinni að Samtök iðnaðarins hafi frá upphafi gjaldtökunnar haft efasemdir um lögmæti gjaldsins, gjaldið hækki byggingarkostnað, auk þess sem gjaldtakan virðist handahófskennd enda sé upphæð gjaldsins, miðað við fermetra, mismunandi eftir svæðum. „Þess ber að geta að slík innheimta stenst ekki skoðun þegar um breytingu á deiliskipulagi er að ræða á þegar byggðum svæðum, þar sem innviðauppbyggingar er ekki þörf. Þessu til viðbótar má benda á að svo virðist sem innheimta gjaldsins leiði síðan ekki til hraðari innviðauppbyggingar og jafnvel að sú innviðauppbygging sem innheimt innviðagjald á að standa straum af eigi sér ekki stað.“

Markaðurinn / Frettabladid.is, 20. maí 2020.

Frettabladid-20-05-2020