Fréttasafn



1. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Dregur hratt úr uppbyggingu á húsnæðismarkaði

„Það sem við höfum talað um núna síðustu vikurnar er að vegna hækkandi vaxtastigs muni draga úr uppbyggingunni á húsnæðismarkaði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins. Hann segir að það komi á óvart hversu hratt þetta sé að gerast.  „Árið 2025 koma innan við tvö þúsund íbúðir nýjar inn á markaðinn, að mati HMS. Á sama tíma hafa stjórnvöld sett það markmið að byggðar verði 35 þúsund nýjar íbúðir á áratug. Miðað við þessar tölur er það ekki að fara að gerast, nema stjórnvöld grípi á ákveðinn hátt inn í málið,“ segir Sigurður. 

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að á fundi HMS hafi Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri lánasviðs HMS, sagt að vísbendingar séu uppi um að verktakar bíði með að klára þær eignir sem eru í byggingu, byggingar séu látnar bíða á byggingarstigi fjögur eða eftir að þær eru orðnar fokheldar og ástæðan sé m.a. hve lánsfjármagn er orðið dýrt og því veigri margir sér við því að sækja sér fjármögnun í að klára byggingarnar.

Vítahringur á húsnæðismarkaði

„Við erum að horfa upp á vítahring á húsnæðismarkaðnum. Það má segja að of lítið hafi verið byggt á árunum 2010-2020. Það gerði það að verkum að íbúðaverð hækkaði meira en sem nam launahækkunum og kaupmætti. Við náðum okkur aðeins á strik á allra síðustu árum. En þessar verðhækkanir leiddu samt til verðbólgu og Seðlabankinn brást við með að hækka vextina. Það hefur þau áhrif að það er dýrara að byggja íbúðir sem leiðir til þess að færri íbúðir eru byggðar. Svo ef við horfum tvö ár fram í tímann miðað við þessa stöðu, þá er fyrirsjáanlegur skortur á íbúðum sem aftur leiðir til meiri verðhækkana og þá verður erfiðara að lækka vextina. Þetta er staðan,“ segir Sigurður í frétt Morgunblaðsins.

Þarf að sporna við að byggingar standi ókláraðar

Sigurður segir í fréttinni nokkra möguleika til að sporna við að byggingar standi ókláraðar vegna ástandsins: „Í fyrsta lagi er það aðkoma ríkisins í gegnum hlutdeildarlán, en það þarf að setja meiri kraft í þá uppbyggingu. Í öðru lagi þarf að endurskoða áform um að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fasteignaframkvæmda úr 60% í 35% um mitt ár, en það eykur kostnað og hægir á uppbyggingu. Síðan þurfa sveitarfélög að stórauka framboð á byggingahæfum lóðum og einnig að endurskoða fyrirkomulag á innheimtu gjalda áður en framkvæmdir hefjast. Í háu vaxtastigi eins og er núna, er þessi liður mjög dýr fyrir uppbygginguna. Það má benda á að Hafnarfjarðarbær hefur gefið kost á því að dreifa þessum gjöldum yfir ákveðið tímabil sem hefur gefið góða raun. Önnur sveitarfélög ættu að horfa til þess fordæmis.“ 

Áhrifin birtast fyrst í hærra leiguverði 

Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að Sigurður segir að áhrifa þessa vítahrings gæti fyrst á leigumarkaðnum. „Það er búið að setja ákveðið lok á eftirspurnarhliðina með hertum skilyrðum um greiðslumat. Áhrifin birtast því fyrst þar í hærra leiguverði. Færri geta keypt og fleiri þurfa að leigja. Svo er þetta allt að gerast á meðan landsmönnum fjölgar mjög hratt.“

Morgunblaðið / mbl.is, 1. júní 2023.

Morgunbladid-01-06-2023