Fréttasafn



4. jan. 2018 Almennar fréttir

Eðlilegri taktur á fasteignamarkaði

Hægari hækkun húsnæðisverðs og lækkun milli mánaða í nóvember stafar meðal annars af minni vexti á eftirspurn vegna minni vaxtar kaupmáttar en verið hefur. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í umfjöllun Gunnars Dofra Ólafssonar, blaðamanns, í Viðskiptablaðinu í dag um þróunina á fasteignamarkaðnum en fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í nóvember samkvæmt tölum Þjóðskrár. 

Ingólfur nefnir einnig að dregið hafi úr fjölgun ferðamanna, sem hafi einnig verið þáttur í þessum vexti eftirspurnar, og á sama tíma hafi framboð á nýjum íbúðum aukist. „Þessir tveir þættir gera að verkum að við sjáum hægari hækkun íbúðaverðs undanfarið og talsvert hægari en þegar mest var.“ Það verður þó að skoða í því ljósi að verðhækkunin sem varð á fyrri hluta nýliðins árs er að mati Ingólfs eitthvað sem getur ekki verið viðvarandi. „Sem betur fer má segja. Það hefði bara endað í einhverjum ósköpum. Við erum því komin í eðlilegri takt.“ 

Í umfjölluninni kemur fram hjá Ingólfi að ekki sé viturlegt að lesa of mikið í breytingar á fasteignaverði milli einstakra mánaða. „Við höfum mælt með því að til að meta lengri tíma þró­un þurfi einmitt að horfa lengra aftur í tímann en einn mánuð. Þá sér maður samt sem áður markverða breytingu því það er að hægja á hækkuninni. Það er í sjálfu sér í samræmi við það sem sagt hefur verið að myndi gerast.“ 

Skil orðin á milli launa og húsnæðisverðs en ekki húsnæðisbóla

Í umfjölluninni  kemur fram að þegar fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um tæplega fjórðung á tólf mánaða tímabili sem lauk í sumar hafi sumir velt upp þeirri spurningu hvort fasteignabóla væri að myndast. „Hagfræðin hefur ákveðna mælikvarða sem hefur verið horft í á þessum markaði sem geta gefið vísbendingar um hvort það gæti verið að myndast bóla. Þá er markaðsstaðan borin saman við söguna. Þar er horft í hlutföll eins og fasteignaverð á móti launum, byggingarkostnaði og leiguverði. Síð­an hefur þetta verið borið saman milli landa,“ segir Ingólfur. „The Economist og OECD hafa reynt að greina hvar séu húsnæðisbólur í heiminum. Við höfum ekki verið á rauðu svæði á þeim mælikvörðum. Hér hefur samt undanfarið skilið á milli. Framan af í þessari uppsveiflu fylgdust laun og húsnæðisverð mjög vel að. Það fór hins vegar að skilja á milli fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo – en ekki þannig að það sé afgerandi bólumyndun.“

Viðskiptablaðið, 4. janúar 2018.