Fréttasafn



19. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Eðlilegt að fá tíu sinnum nei

FIDA ABU LIBDEH er forstjóri og annar tveggja stofnenda GeoSilica, sem framleiðir náttúruleg, íslensk fæðubótarefni. Um er að ræða eina fyrirtækið í heim inum sem framleiðir hágæða steinefni sem unnið er úr jarðhitavatni, sem svo er notað sem aðalhráefnið í fæðubótarefnin sem fyrirtækið framleiðir. Fida segir þörf á því að efla samstarf innan nýsköpunargeirans og auka fjármagn til nýsköpunarfyrirtækja í vexti. „Ég tel að stuðningur við nýsköpun þegar lengra er komið sé ábótavant og þá aðallega stuðningur varðandi að gengi að sérfræðingum og fjármagni,“ segir Fida.

Ég myndi segja að það sé þörf fyrir að efla samstarf og auka fjármagn til nýsköpunar fyrirtækja í vexti.

 

Hugmyndin kviknaði við ritgerðarskrif 

Hugmyndin að GeoSilica, sem stendur fyrir Geothermal Silica, sem á íslensku útleggst sem jarðhitakísill, kviknaði við skrif á lokaritgerð Fidu við Háskóla Íslands. „Þá var ég skoða mögulega nýtingu á jarðhitakísli sem hluta af lokaverkefni mínu í orku­ og umhverfis tæknifræði á sama tíma og samnemandi minn, Burkni Pálsson, var að skoða möguleika á hreinsun á jarðhitakísli,“ útskýrir hún, en Burkni er meðstofnandi GeoSilica. 

„Við vinnslu á lokaverkefninu fór ég að skoða kísilinn nánar og fann út að hann er notaður í framleiðslu á fæðubótarefnum, en sú framleiðsla er yfirleitt kölluð iðnaðarframleiðsla þar sem notast er við sýrur eða basa til að fella út kísilinn. Við á Íslandi fáum kísilinn með jarðhitavatni og töldum við að við gætum framleitt fæðubótarefni úr jarðhitakíslinum,“ segir hún. 

Á sama tíma var Burkni að þróa aðferðir til að hreinsa kísilinn og hafði tekist að komast upp í 99,98% hreinan kísill. „Eftir útskrift ákváðum við að fylgja hugmyndinni eftir og byrjuðum á því að sækja um verkefnastyrk til Tækniþróunarsjóðs. Við fengum þann styrk og það var upphafið að nýsköpuninni okkar.“

Þetta er langhlaup, en alveg þess virði.

1_FidaGeoSilica_806A6912

Nýir markaðir innan seilingar 

Vörur GeoSilica hafa náð nokkurri útbreiðslu. „Við erum að selja á Íslandi, í Kína, Ástralíu og í öllum þýskumælandi löndum, og þá aðallega í Þýskalandi og Sviss. Við erum búin að vera í dálítinn tíma í Kína, og verðum komin til Spánar, Ítalíu og Frakklands fljótlega. Við erum líka komin með samninga við dreifiaðila sem mun dreifa vörunum í stórum hluta Asíu og erum nú í skráningarferli á vörunum þar,“ segir Fida, en GeoSilica stefnir á Bandaríkjamarkað árið 2020. „Þegar við erum komin þangað inn ætlum við að leggja áherslu á frekari vöruþróun og einbeita okkur að sölu á þeim mörkuðum sem við erum nú þegar á.“ 

Fida segir stuðning við nýsköpun á Íslandi mjög öflugan og sérstaklega við nýsköpunarfyrirtæki sem séu að stíga sín fyrstu skref. „Ég myndi segja að stuðningurinn sé til fyrirmyndar. Ég tel hins vegar að stuðningi við nýsköpun þegar lengra er komið sé ábótavant og þá aðallega varðandi aðgengi að sérfræðingum og fjármagni. Nýsköpunarfyrirtæki mættu vinna nánar saman þar sem við erum í sama geiranum. Ísland og íslensk fyrirtæki eru lítil á heimsmælikvarða og ég tel að það myndi gera okkur sterkari sem heild að takast á við þessa markaði í sameiningu í stað þess að fara út, eitt fyrirtæki í einu, þar sem flestir eru að gera það sama hver í sínu horni. Ég myndi segja að það sé þörf fyrir að efla samstarf og auka fjármagn til nýsköpunarfyrirtækja í vexti.“

Langhlaup – en þess virði 

Aðspurð segir Fida að lykillinn að árangri í nýsköpunargeiranum sé þrautseigja – að gefast ekki upp og vill hún koma þeim skilaboðum til þeirra sem nú stíga sín fyrstu skref í bransanum. „Þetta er langhlaup, en alveg þess virði. Það er eðlilegt að fá tíu eða fleiri nei áður en þið fáið verðskuldað já! Þá hefur jáið líka svo miklu meiri þýðingu og er drifkrafturinn til að halda áfram með sóknina. Nýsköpun er ein mikilvægasta stoð samfélagsins, og er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem er leiðarvísir að sjálfbærari heimi. Heimurinn þarf einfaldlega á okkur að halda og við skulum taka hlutverkið alvarlega.“

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_