Fréttasafn



30. jan. 2019 Almennar fréttir Nýsköpun

Efla aðgang að vaxtarfjármagni nýsköpunarfyrirtækja

„Rannsóknir hafa sýnt fram á að mikilvægasta skrefið fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem hafa orðið að einhyrningum, það er verðmetin á einn milljarð dollara, er hve ríkulega fjármögnun þau fengu á vaxtarstiginu. Til að setja stærðirnar í samhengi, þótt þau fyrirtæki hafi ekki orðið að einhyrningum, þá sótti Plain Vanilla 25 milljónir dollara og CCP 40 milljónir dollara á sínum vaxtarskrefum. Það eru þrír og fimm milljarðar króna. Það er trauðla hægt að sækja slíkt fjármagn eingöngu til íslenskra fjárfesta,“ segir Tryggvi Hjaltason, sem fer fyrir greiningardeild hjá CCP og er formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, í samtali við Helga Vífil Júlíusson, blaðamann, í Markaðnum í dag um hvað þurfi til að efla umgjörðina um nýsköpun og þróun, annað en að afnema þak á endurgreiðslur við rannsóknir og þróun. Hann segir að efla þurfi aðgang að vaxtarfjármagni og að það megi gera með því að byggja brýr til fjárfesta í Bandaríkjunum, eins og gert hafi verið í Ísrael, Írlandi og fleiri löndum.

Þurfa einnig greiðan aðgang að þekkingu

Þá nefnir Tryggvi í viðtalinu að nýsköpunarfyrirtæki þurfi einnig greiðan aðgang að þekkingu og hana megi nálgast með tvennum hætti, annars vegar sé hægt að flytja hana inn og hins vegar að efla menntakerfið. „Það þarf að verða auðveldara að ráða erlenda sérfræðinga og aðlaga þá inn í samfélagið. Það er ekki nóg að þeir fái atvinnuleyfi heldur þurfa makar þeirra það líka og börnin þurfa að komast í alþjóðlega vottaðan skóla. Fólk þarf jú að geta flutt fjölskylduna hingað til lands. Sá þáttur hefur gleymst.“ Hann segist hafa áhyggjur af því að menntakerfið sé að dragast aftur úr og nefnir að um þriðjungur útskrifaðra drengja úr grunnskóla kunni ekki að lesa almennilega samkvæmt mælingum menntamálaráðuneytisins. 

Meiri nýsköpun í heilbrigðis- og menntakerfið

Í viðtalinu segir Tryggvi að efla megi heilbrigðis- og menntakerfið með aukinni nýsköpun. „Þessar stoðir samfélagsins eru fjármagnaðar og reknar af ríkinu. Á næstu 25 árum munu útgjöld til heilbrigðismála aukast verulega vegna þess að þjóðin verður sífellt eldri. Nær eina fyrirsjáanlega leiðin til að efla skilvirkni og hagkvæmni kerfisins er með auknum tæknistuðningi.“ Hann segir að auk þess þurfi að nútímavæða menntakerfið. „Tæknivæðing er því grundvallaratriði fyrir þá sem nýta þjónustuna og skattgreiðendur. Viljum við áfram góð og helst aukin lífsgæði þá er þetta svarið. Á sama tíma sitja lífeyrissjóðir á um 4.000 milljörðum króna með yfir 100 milljarða króna endurfjárfestingarþörf á ári. Samfélagið er því í afar áhugaverðri stöðu til að láta til sín taka í þessum málaflokkum. Venjulegt fólk, sem á t.d. veika ættingja eða börn í skóla, mun svo sannarlega njóta góðs af framförum á þessu sviði.“

Á vef Fréttablaðsins er hægt að lesa viðtalið við Tryggva í heild sinni.

Markaðurinn/Fréttablaðið, 30. janúar 2019.