Efla hæfni norrænna nemenda í endurnýtingu byggingarefnis
Norræna samstarfið Nordic Sustainable Construction hefur sett af stað nýtt verkefni til að efla hæfni nemenda í verknámi á Norðurlöndunum í endurnýtingu byggingarefnis. Um er að ræða nýtt norrænt framtaksverkefni sem hefur það að markmiði að kortleggja, þróa, dreifa og meta nýtt verknámsefni undir forystu Norion og Dönsku þekkingarmiðstöðvarinnar um handverk og sjálfbærni sem unnu verkefnisútboðið sem fór í almennt útboð haustið 2022. Saman hafa þessir aðilar reynslu af bæði hringrásarhagkerfi í byggingariðnaði og verknámi. Nýja framtaksverkefnið um að efla hæfni nemenda í endurnýtingu byggingarefnis er hluti af stærra norrænu samhengi – Framtíðarsýn 2030. Þessi sýn Norrænu ráðherranefndarinnar miðar að því að Norðurlöndin verði leiðandi á sviði sjálfbærra og samkeppnishæfra bygginga árið 2030. Til að ná árangri með grænum umskiptum og hringrás í norrænum byggingariðnaði eru samstarf og framtaksverkefni á Norðurlöndunum lykilatriði.
Í tilkynningur segir að nýr framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Karen Ellemann, líti á verkefnið sem gott dæmi um hvernig norrænt samstarf geti hjálpað til við að leysa sameiginlegar áskoranir.
Karen Ellemann, nýráðinn framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar: „Auðlindaskortur og hringrás í byggingariðnaði eru áskoranir sem öll Norðurlönd standa nú frammi fyrir. Með norrænu samstarfi og verkefnum sem beinast að þessum áskorunum getum við lært af nálgun og reynslu hvers annars og skapað verðmæti fyrir norræna byggingariðnaðinn og víðar.“
Helle Redder Momsen, skrifstofustjóri hjá Nordic Sustainable Construction: „Nordic Sustainable Construction leggur sitt af mörkum til þeirrar framtíðarsýnar Norðurlandanna að verða sjálfbærasti heimshlutinn fyrir árið 2030. Til að ná þessu metnaðarfulla markmiði þurfum við að endurskoða hvernig við nýtum auðlindir og byggingargeirinn getur bætt sig mikið. Við munum ýta undir þessar framfarir með því að auka getu nemenda, sem munu koma með nýja þekkingu inn á vinnustaði sína og gegna þannig hlutverki boðbera aukinnar endurnýtingar byggingarefnis á Norðurlöndunum.
Bjørn Bauer, framkvæmdastjóri Norion Consult og verkefnisstjóri: „Sjálfbærni hefur smám saman orðið mikilvægari í verknámi á síðustu árum; aftur á móti er ekki sérstaklega minnst á endurnýtingu í námsskrám verknámsskóla, sem undirstrikar mikilvægi þessa verkefnis. Við hlökkum til að taka þátt í að byggja upp hæfni í endurnýtingu á Norðurlöndunum.“
Framtaksverkefnið hefst á því að kortleggja viðeigandi löggjöf um endurnýtingu og fyrirliggjandi kennsluefni varðandi endurnýtingu byggingarefnis í hverju Norðurlandanna. Út frá því verður viðbótarkennsluefni þróað, prófað og því dreift í nánu samstarfi við norræna verknámsskóla.
Hér er hægt að nálgast upplýsingar.