Fréttasafn



7. apr. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Efla þarf samkeppnishæfni á óvissutímum

Kristján Kristjánsson ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Sprengisandi á Bylgjunni um áhrif tollahækkana Bandaríkjanna ásamt Þorsteini Þorgeirssyni, hagfræðingi.

Sigurður segir í þættinum að leikreglunum hafi verið breytt. „Við höfum verið núna um nokkurra áratuga skeið á tímabili alþjóðavæðingar þar sem heimurinn opnaðist og viðskipti blómstruðu og færðist framleiðsla frá Vesturlöndum til annarra ríkja þar sem var ódýrara að framleiða. Þetta hefur heilt yfir haft góð áhrif á Bandaríkin og á Vesturlönd en líka einhver neikvæði. Góðu áhrifin eru til dæmis það að vöruverð er lægra, það eru ódýrari vörur og þjónusta, vegna þess að framleiðslan hefur færst til Kína, Mexíkó eða annarra landa þannig að við njótum þá hagkvæmara verðs á raftækjum, fatnaði og ýmsu öðru.“ Það opnuðust nýir markaðir þannig að vestræn fyrirtæki gátu þá sótt til dæmis til Kína eða annað fyrir tæknivörur, fjármálaþjónustu og afþreyingu. „Við sjáum stórfyrirtæki eins og Apple, Microsoft og Netflix sem hafa notið góðs af þessu, bandarísk fyrirtæki. Erlend fjárfesting jókst í Bandaríkjunum fyrir ríkið og Bandaríkin hafa rekið halla á ríkissjóði um talsvert skeið sem er þá fjármagnað meðal annars á þennan hátt.“ Þá nefnir hann nýsköpun og sérhæfingu. „Það hefur verið mikil nýsköpun í Bandaríkjunum eins og við þekkjum, miklar  tækniframfarir sem koma þaðan. Þetta er meðal annars afleiðing af alþjóðlegri samkeppni.“

Evrópa að dragast aftur úr lífsgæðum miðað við Bandaríkin

Sigurður segir að það sé áhugavert ef rýnt sé í tölurnar að það hafi verið talað um það hvernig Evrópa hafi setið eftir þarna. Hann segir að fjárfestingar í rannsóknum og þróun sem hlutfall af landsframleiðslu sé ákveðinn mælikvarði á þessu sviði og í Evrópu sé það 2,2% sem sé frekar lágt, á Íslandi sé það 2,7% og hafi verið að hækka. „Við sjáum það í öflugum hugverkaiðnaði. Bandaríkjunum 3,7% miklu miklu hærra, þetta er meðal annars afleiðing af þessu. Svo er það aukinn hagvöxtur ef við horfum yfir ríflega 30 ára skeið.“ Hann segir að til lengri tíma hafi verið miklu meiri vöxtur þar en í Evrópu og að Evrópa sé að dragast aftur úr í lífsgæðum miðað við Bandaríkin. 

Umtalsvert áhrif þangað til rykið sest

Þá kemur fram í máli Sigurðar að ójöfnuðurinn hafi aukist en veltir fyrir sér hvort þetta sé lækningin. „Það tekur langan tíma að koma í ljós vegna þess að flytja framleiðslu á milli svæða og byggja upp framleiðslugetu er mælt í árum. Í sjálfu sér vitum við ekki hvernig það mun þróast og hvort þessi tilraun tekst, það verður tíminn að leiða í ljós. En þangað til þá  verða talsvert mikil áhrif þangað til  að rykið sest.“ Hann segir að skoða þurfi hvort það  þjóðhagslegur ávinningur sé að aukast eða dragast saman. „Ef hann eykst ekki þá verður erfitt að sjá að það hjálpi til.“

Bandaríkin mikilvægasti markaðurinn fyrir hugverkaiðnaðinn

Í máli Sigurðar kemur einnig fram að hér á landi hafi orðið breyting með aukinni sérhæfingu og tæknivæðingu og að framleiðni hafi aukist. „Það hefur orðið til ný útflutningsstoð sem er hugverkaiðnaður sem gæti orðið verðmætasta stoðin í lok þessa áratugar ef rétt er á málum haldið. Það sem við sjáum er að Bandaríkin eru mikilvægasti markaðurinn fyrir hugverkaiðnaðinn og það er áhugavert að á síðasta ári þá voru flutt meira út af lækningavörum og -tækjum til Bandaríkjanna heldur en af þorski og jafnvel af sjávarfangi í heildina. Þetta sýnir hvernig hlutirnir hafa breyst á tiltölulega skömmum tíma og fyrirtæki í hugverkaiðnaði reiða sig mjög á þennan markað.“

Koma í veg fyrir tolla frá Evrópu og halda áfram samtali við Bandaríkin

Sigurður segir að við byggjum okkar lífskjör að öllu leyti á því að framleiða hér verðmæti og þjónustu og koma í verð á alþjóðlegum mörkuðum og þess vegna skipti okkur svo miklu máli að aðgangur að mörkuðum sé greiður. „Þannig að við erum kannski heppin með það að þær vörur sem eru framleiddar hér og seldar til Bandaríkjanna eru um margt nokkuð sérstakar, það eru lyf núna í auknum mæli sem er ekki hefð fyrir leggja tolla á heilt yfir, lækningavörur og -tæki. Þetta eru sérhæfðar vörur sem eru mjög eftirsóttar í Bandaríkjunum og ekki endilega til staðkvæmdarvörur fyrir, þetta hjálpar kannski aðeins til. En þetta bendir okkur á það að stjórnvöld þurfa núna að halda áfram sínu öfluga starfi, þau hafa verið mjög ötul við það að tala fyrir hagsmunum Íslands, með utanríkisráðherra og forsætisráðherra í broddi fylkingar. Það þarf núna að róa að því öllum árum að koma í veg fyrir einhverskonar tolla frá Evrópu fyrir okkar vörur. Svo þarf auðvitað að halda áfram samtali við Bandaríkin og það sem snýr að þeim markaði.“ 

Þýðir ekki að spila gamla leikinn áfram þegar leikreglurnar eru að breytast

Sigurður nefnir að eftirspurn geti dregist saman og vörur leiti inn á nýja markaði og þá á lægri verðum. „Það kemur á móti. Hér mætti alveg búast við minni efnahagsumsvifum og lægri verðbólgu sem mundi flýta fyrir vaxtalækkunum Seðlabankans.“ Þá segir hann að núna þegar ytri skilyrði séu að versna fyrir okkur og leikreglurnar séu að breytast þá þurfi að fylgjast með því. „Við sjáum það á umræðunni í löndunum í kringum okkur að stjórnvöld eru að horfa til þess að leikreglurnar séu að breytast. Það þýði ekki endilega að spila gamla leikinn áfram, það þarf að fylgjast mjög vel með þróuninni. Stjórnvöld hérna þurfa líka að vinna að því hörðum höndum í þessum krefjandi aðstæðum að efla samkeppnishæfni iðnaðarins og atvinnulífsins.“ 

Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar við þessar aðstæður

Jafnframt segir Sigurður að það þurfi öfluga framleiðslu hér eins og annars staðar og það hafi orðið mjög mikil viðhorfsbreyting. „Við sjáum til dæmis í Bandaríkjunum er dæmi um iðnaðarstefnu, Evrópa hefur verið með sína iðnaðarstefnu um nokkurt skeið sem miðar að grænu málunum. Forsætisráðherra Breta skrifaði grein í Telepgraph þar sem hann kemur sérstaklega inn á þetta og boðar aðgerðir í þágu uppbyggingar. Þessu þarf að huga að hér. Þetta kemur inn á orkumálin, það þarf að einfalda líka uppbyggingu hvort sem það eru innviðir eða íbúðir, það þarf að einfalda regluverk, það er auðvitað talað um það í stjórnarsáttmála, það þarf að flýta fyrir því. Þetta þarf að vera forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar við þessar aðstæður ef við horfum út á við.“ 

Hér er hægt að nálgast viðtalið í heild sinni.

Bylgjan, 6. apríl 2025. 

Þorsteinn Þorgeirsson og Sigurður Hannesson.