Fréttasafn5. feb. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Efnahagshorfurnar ekki góðar

Jakob Bjarnar, fréttamaður, ræðir við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, á Vísi í dag þar sem hann segir að efnahagshorfurnar fyrir þetta ár séu ekkert góðar og að menn hafi verið of seinir að átta sig. Hann segir að fyrir hafi legið spár sem hljóðuðu uppá dágóðan hagvöxt en ekki hafi verið innistæða fyrir þeim og að þau hjá Samtökum iðnaðarins hafi vakið máls á því á sínum tíma. „Hvaðan á þessi hagvöxtur að koma? Við sáum það ekki fyrir okkur að það myndi kannski reddast eins og síðast með auknum fjölda ferðamanna eða uppsveiflu í sjávarútvegi eins og varð með makríl á sínum tíma.“

Ingólfur segir í viðtalinu að samkeppnisstaða iðnaðarins sé ekki góð í þess samhengi en þar séu laun og kostnaður fyrirtækja hár í samanburði við samkeppnisaðila utan landsteina. „Raungengi krónunnar hefur hækkað mjög mikið undanfarin ár og stendur mjög hátt sögulega séð. Laun eru mjög há í alþjóðlegum samanburði. Fyrir framleiðsluiðnaðinn að vaxa við þessar að kringumstæður og auka gjaldeyristekjur, það er …áskorun getum við sagt.“

Framleiðsluiðnaður og byggingariðnaður að dragast saman

Í fréttinni kemur fram að fyrirtæki hafi að undanförnu verið að bregðast við þessari hröðu kólnun með hagræðingu og uppsögnum. Ingólfur segir framleiðsluiðnaðinn hafa verið að dragast saman og hið sama sé að gerast í byggingariðnaði. „Fjárfesting atvinnuveganna hefur verið á leiðinni niður, við höfum séð samdrátt þar sem og í íbúðafjárfestingu, séð samdrátt þar á fyrstu byggingarstigum. Kjarninn í þessu er kannski sá að þegar við horfum á þetta ár og kannski næsta ár líka, þá erum við ekki að sjá þennan vöxt í gjaldeyristekjum sem við þurfum til að drífa hagvöxt hér á landi. Það eru þessi slæmu vaxtarskilyrði, þessi erfiðu samkeppnishæfniskilyrði fyrir samkeppnisiðnaðinn, sem eru að draga úr vexti. Og varðandi auðlindadrifnu greinarnar; maður sér ekki að þar sé að myndast uppsveifla. Og þá erum við að tala um ferðaþjónustu, sjávarútveg og orkusækna iðnaðinn.“ Í fréttinni segir að þar blasi við slæmar fréttir á öllum póstum, í sjávarútvegi sé loðnubrestur, ferðaþjónustan sé að takast á við Wohan-veiruna og varðandi hinn orkusækna iðnað þá sé verið að minnka framleiðslu á áli vegna erfiðrar markaðsstöðu.

Hægur hagvöxtur og mikið atvinnuleysi

Þetta er býsna svört staða? „Jájá, við höfum talað um óveðursský í þessu sambandi, sem eru að myndast yfir landinu. Það er ekki orðum aukið.“ Ingólfur bendir á að í fyrra hafi landsframleiðsla á mann, sem er mælikvarði á velmegun, verið að dragast saman. Og þá talsvert í sögulegu ljósi, slíkur samdráttur hafi ekki sést síðan 2010. „Já, í fyrsta sinn í nokkuð langan tíma. Og við erum að sjá atvinnuleysi í 4,3 prósentum sem er hátt sögulega séð. Spár nú hljóða uppá að atvinnuleysi verði nokkuð yfir fjórum prósentum sem er hátt. Staðan hvað það varðar er ekki góð. Við erum að horfa á raunhæfan möguleika á því að við séum að festast í tímabili, nokkuð löngu hugsanlega, þar sem verður hægur hagvöxtur og mikið atvinnuleysi á okkar mælikvarða.“

Þarf aðgerðir til að efla stöðu atvinnulífsins

Í viðtalinu segir Ingólfur að ekki dugi annað en fara í raunverulegar aðgerðir til að efla stöðu atvinnulífsins „Við verðum að bregðast við, ekki dugar að sitja og segja: Þetta reddast. Þar höfum við verið að horfa til starfsumhverfis fyrirtækja, vaxtastigsins, auka aðgengi að lánsfjármagni, að ríkið eigi að reka sig með halla og þannig lyfta undir eftirspurnarstig í hagkerfinu, ríki og sveitarfélög ættu að lækka álögur á fyrirtæki svo sem með lækkun fasteignaskatta og tryggingagjalds.“ Þá segir að hvað útgjaldahliðina varði hafi Samtök iðnaðarins lagt áherslu á auknar innviðaframkvæmdir, aðgerðir til að auka nýsköpun, menntamál og svo framvegis. Ingólfur segir fjölmargt hægt að gera en hættan sé sú að menn fari ekki nægilega hratt í það en að greina megi viðleitni í rétta átt bæði af hálfu ríkis og sumra sveitarfélaga. „En við höfum verið að sjá of lítið gert og of seint. Sama er með peningastjórnunina, menn hafa þar verið að lækka vexti en það hefðum við vilja sjá gerast hraðar.“ Jafnframt kemur fram að menn hafi sofið á verðinum en einhverja jákvæða punkta megi sjá svo sem þá að staðan til að takast á við þessa miklu kólnun sé sterk og að Ingólfur vilji sjá stjórnvöld nýta það. „Skuldastaða hins opinbera er tiltölulega sterk og við eigum að nýta það til að örva efnahagslífið. Við erum með ytri stöðu þjóðarbúsins tiltölulega góða, afgang af utanríkisviðskiptum og okkur hefur tekist að halda stöðugleikanum hingað til, ef horft er til verðbólgu, sem gefur Seðlabankanum svigrúm til að beita stýrivöxtum til að örva hagkerfið til vaxtar.“

Vísir, 5. febrúar 2020.