Eftirspurn eftir íbúðum og fólksfjölgun meiri hér en í ESB
Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hefur verið að aukast umtalsvert hér á landi frá árinu 2010 og umfram það sem sést hefur að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins. Hér á landi hefur fólksfjölgunin verið langt umfram það sem við höfum séð að jafnaði í Evrópusambandinu og hagvöxtur mun meiri. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, meðal annars í frétt Helga Vífils Júlíussonar í Innherja á Vísi. „Á sama tíma hefur framboð nýrra íbúða verið of lítið hér á landi,“ segir Ingólfur.
Of lítið byggt vegna of lítils framboðs af lóðum
Ingólfur bendir á í frétt Innherja að íbúðamarkaðurinn hér, eins og annars staðar, ráðist af framboði og eftirspurn. „Kaupmáttur launa hefur vaxið umtalsvert hraðar hér en í ríkjum Evrópusambandsins frá árinu 2010 á þessum tíma. Vextir hafa verið lækkaðir meira framan af á þessu tímabili sem hefur haft talsverð áhrif á verðþróunina. Á sama tíma hefur framboð nýrra íbúða verið of lítið hér á landi. Það hefur verið byggt of lítið og ástæða þess er fyrst og fremst að það hefur verið of lítið framboð af lóðum. Saman hefur þetta skapað verðhækkun íbúða sem er mun meiri hér en víðast hvar.“
Lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts mun draga úr framboði íbúða
Þá segir Ingólfur í fréttinni að miklar vaxtahækkanir Seðlabankans dragi úr bæði eftirspurn og framboði íbúða: „Einnig hefur hægt á hagvextinum og kaupmáttarvextinum. Við þetta bætast aðgerðir stjórnvalda sem auka skattlagningu á greinina en lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu iðnaðarmanna er fyrirhuguð um mitt ár. Það er mikið áhyggjuefni því slíkar aðgerðir muni hækka kostnað við húsbyggingar og draga úr framboði íbúða litið til næstu ára. Gætum við þá aftur séð viðlíka ástand eins og við höfum séð á síðustu árum og lýsir sér ágætlega í þessum verðbreytingum, það er að eftirspurnin er að vaxa mun hraðar en framboðið með tilheyrandi áhrifum á verð, verðbólgu og vexti. Það viljum við forðast og hvetjum því til þess að byggt sé í takti við langtímaþörf markaðarins og dregið sé úr þeim sveiflum sem einkennt hafa íbúðamarkaðinn og byggingariðnaðinn á síðustu árum og áratugum en þær sveiflur eru afar kostnaðarsamar fyrir allt hagkerfið.“
Í frétt Innherja er einnig rætt við Magnús Árna Skúlason, hagfræðing hjá Reykjavík Economics, og Kára S. Friðriksson, hagfræðing hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Innherji á Vísi, 29. apríl 2023.