Fréttasafn9. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Einblínt á þéttingu en þörfin mest á hagkvæmum íbúðum

Á meðan uppbyggingin einblíni á þéttingu sem skili dýrum íbúðum á markað, sé þörfin mest á hagkvæmari íbúðum á lægra verði sem aðeins sé hægt að bjóða fjær miðbænum. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í viðtali Júlíusar Þórs Halldórssonar í Viðskiptablaðinu þar sem greint er frá nýrri íbúðatalningu SI þar sem kemur fram að heilt yfir fækkaði íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum um 18%, en á fyrstu byggingarstigum hafi fækkunin numið 41%. Í Viðskiptablaðinu kemur fram að íbúðum í byggingu hefur fækkað mikið í miðbæ og mörgum úthverfum höfuðborgarsvæðisins, og heilt yfir, en fjölgað í Hlíðum og Árbæ. Skert aðgengi að fjármagni, óvissa fyrr á árinu og lóðaskortur séu meðal helstu ástæðna fækkunarinnar.

Staðan önnur en í hefðbundinni íslenskri niðursveiflu

Í viðtalinu bendir Ingólfur á að tilhneigingin í niðursveiflum hér á landi hafi verið að samhliða aukinni verðbólgu og atvinnuleysi hækki vextir, eftirspurn dragist saman, og raunfasteignaverð lækki. Því megi ætla að á fyrri hluta ársins eða jafnvel seint á síðasta ári, þegar ákvarðanir um þær framkvæmdir sem nú eru hafnar voru teknar, hafi fjármögnunaraðilar að einhverju leyti lesið stöðuna rangt og verið hikandi. „Síðar hefur komið í ljós að staðan er öll önnur. Vaxandi kaupmáttur, mun lægri húsnæðisvextir til heimilanna og fólksfjölgun er allt þveröfugt við það sem kalla má hefðbundið í íslenskri niðursveiflu, og hefur allt stuðlað að aukinni eftirspurn á húsnæðismarkaði.“ 

Lóðaskortur og langur afgreiðslutími skipulags- og byggingarmála

Í Viðskiptablaðinu segir að í könnun meðal félagsmanna mannvirkjasviðs SI komi fram að 94% svarenda segja að afgreiðslutíma skipulags- og byggingarmála þyrfti að stytta. Enn annar áhrifaþáttur sé svo lóðaskortur en í könnuninni segja 80% að skortur á lóðaframboði kæmi í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu. Hættan sé þá að saman muni fara mikil eftirspurn og afar lítið framboð á fasteignamarkaði, með tilheyrandi verðþrýstingi.

Stífla í miðlunarferli vaxta dregur úr framkvæmdum

Ingólfur segir mikinn samdrátt í fjölda íbúða í byggingu meðal annars skýrast af skertu aðgengi fyrirtækja að fjármagni. Í könnun meðal félagsmanna SI segja 80% svarenda stýrivaxtalækkanir Seðlabankans ekki hafa skilað sér í vöxtum framkvæmdalána. Þetta geti búið til ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar húsnæðis þegar fram líða stundir. „Annars vegar ertu að örva eftirspurn eftir húsnæði, en hins vegar er stífla í miðlunarferlinu gagnvart framkvæmdalánum, sem dregur úr framkvæmdum. Þetta er auðvitað mjög bagalegt.“ 

Viðskiptablaðið, 8. október 2020.

Vidskiptabladid-08-10-2020