Eining meðal frambjóðenda um mikilvægi innviðauppbyggingar
Það ríkti eining meðal frambjóðenda allra flokkanna um mikilvægi uppbyggingu innviða á fundi Samtaka iðnaðarins í Kaldalóni í Hörpu í síðustu viku og hlutu þeir lófaklapp fundargesta fyrir orð sín þó frambjóðendur greindi á um leiðirnar til að fjármagna uppbygginguna.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sagði í inngangi að í skýrslu sem Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga gaf út fyrir skömmu komi fram að ástand innviða væri ekki gott og uppsöfnuð viðhaldsþörf nemi hátt í 400 milljörðum króna. „Framtíðarhorfur eru ekki góðar, þær eru slæmar, sem þýðir að eftir 10 ár eru ekki líkur á því að staða innviða verði betri en þeir eru í dag, þ.e.a.s. að innviðirnir mæti betur þörfum samfélagsins á þeim tíma.“
Sigurður lagði fyrir frambjóðendur tvær spurningar, annars vegar hvers vegna mun staða innviða verða betri í lok næsta kjörtímabils, sem vonandi verður 4 ár, heldur en hún er í dag og hins vegar mun heildstæð áætlun um uppbyggingu innviða líta dagsins ljós á næsta ári.
Snýst um forgangsröðun fjármuna
Bergþór Ólason, Miðflokkurinn, sagði að myndbandið sem sýnt var um innviði hefði getað komið frá Miðflokknum. „Vandamálin sem snúa að innviðauppbyggingu hér og hvernig hún hefur setið á hakanum um all-langa hríð eru auðvitað gríðarlega umfangsmikil. Þarna erum við að horfa til þess að þarna undir er ekki bara vegakerfið, frárennsli og annað slíkt, þarna er auðvitað uppbygging í heilbrigðiskerfinu, fráflæðisvandi þar og annað slíkt sem er auðvitað hluti af þessari innviðauppbyggingu sem við erum að ganga til. Við erum fylgjandi því að vinna að samstarfi hins opinbera og einkaaðila.“
Bergþór sagðist hafa efasemdir um vegatolla inn og út frá höfuðborgarsvæðinu sem mikið hefur verið rætt. „Það útilokar ekki samstarf einkaaðila og hins opinbera. Það er til að mynda í umferðinni umtalsverð umfram skattlagning miðað við það sem varið er til vegaframkvæmda og viðhalds. Þetta snýst einfaldlega um forgangsröðun þeirra fjármuna og fjármunirnir eru til inn í kerfinu. Þetta snýst meira um ákvörðun að deila þeim í þennan farveg heldur en einhvern annan. Og við viljum auðvitað fyrst og fremst auka heildarskatttekjur hins opinbera með verðmætaaukningu en ekki aukinni skattheimtu út frá núverandi forsendum.“
Getum ekkert beðið lengur
Björt Ólafsdóttir, Björt framtíð, sagðist halda að staða innviða verði betri eftir 4 ár en hún er í dag. „Fólk veit, sama úr hvaða flokki það er, að við getum ekkert beðið lengur. En ég vil staldra við og margt hefur verið gert og við sjáum auðvitað uppbyggingu. En auðvitað ganga vegamálin ekki nógu hratt fyrir sig.“
Björt sagðist hafa lesið skýrsluna um innviði á Íslandi upp til agna. „Hún nefndi um 370 milljarða sem mundi vanta í innviðauppbyggingu. Svo kom ég á hugverkaþing hjá Samtökum iðnarins sem var mjög skemmtilegt. Þar var einmitt verið að ræða þessa fjórðu iðnbyltingu og þessa tæknibreytingar. Þessa byltingu sem við erum að verða fyrir, ekki þróun, heldur sífellda byltingu sem við verðum að taka inn í alla áætlanagerð til framtíðar. Þá skiptir það máli að þegar við erum að meta svona innviðauppbyggingu það sem þið voruð að gera svo ágætlega. Tökum bara fráflæðið frá Keflavík til Reykjavíkur, þessa lífæð fyrir ferðaþjónustuna og okkur öll. Þegar okkur vantar meira ætlum við þá að fara í innviðauppbyggingu og byggja áttfalda Reykjanesbraut eða ætlum við að hugsa þetta öðruvísi. Nota tæknibreytingar, nota skapandi drifkraftinn okkar, nota umhverfisvænar hugmyndir og þá að fara til dæmis í borgarlínu eða léttlest sem draga líka úr kostnaði við innviðauppbyggingu. Það er mikilvægt að ræða þetta í samhengi.“
Horfa á til arðgreiðslna úr fjármálakerfinu til að byggja upp
Katrín Jakobsdóttir, VG sagði að bregðast þyrfti við ekki seinna en strax og þá ekki eingöngu í samgönguframkvæmdum heldur líka í uppbyggingu til að mynda í mikilvægum innviðum eins og nýs Landspítala og hjúkrunarheimila þar sem væri gríðarleg uppbyggingarþörf. „Við höfum bent á það að það er hægt að horfa til arðgreiðslna úr fjármálakerfinu til að fara í þessar einskiptisframkvæmdir til þess að byggja upp, þar eru mikil tækifæri framundan að okkar viti.“
Aðspurð hvað VG þætti um aðkomu einkaaðila sagði Katrín að gera þyrfti greinarmun á því hvort verið væri að tala um grunnframkvæmdir, grunnkerfi samfélagsins, til að mynda hitaveitur og vatnsveitur.
„Þetta teljum við eðlilegt að sé í eigu almennings en einkaaðilar koma auðvitað að framkvæmdinni.“
Sigurður spurði Katrínu hvað hún segði með aðkoma einkaaðila hvað rekstur varðar í ljósi þess að til væri gott dæmi um það á Íslandi sem væru Hvalfjarðargöngin. „Já við útilokum ekki slíkt í afmörkuðum tilfellum en í grunninn er það alveg klárt hjá okkur að veitukerfi og vegakerfi, þetta er almenningseign, það er bara alveg þannig fyrir okkur, og við erum auðvitað að nýta almannafé.“
Risavaxið verkefni sem þarf að fara í strax
Helgi Hrafn Gunnarsson, Píratar, fékk spurninguna verður staðan betri eftir 4 ár ef þið komist til valda? „Þú ert að fá mig til að lofa einhverju um risavaxið verkefni sem þarf að fara í strax.“ Sigurður skaut því inn í hvort kosningabaráttan snérist ekki um það og Helgi Hrafn svaraði að fólk kvartaði stanslaust yfir því að öll kosningaloforð séu svikin. „Við skulum reyna að vera raunsæ.“
Helgi Hrafn sagði áætlanir Pírata miða að því að fara í mikla uppbyggingu á samgöngum enda kominn tími til. „Það er sérstaklega mikilvægt að með þessari uppsöfnuðu þörf, vegna þess að við höfum gleymt því að næra iðnað eins og ferðaþjónustuna, við erum mikið þar, að reyna að fá endalaust af peningum úr henni í stað þessa að næra rótina að henni.“
Ætlið þið að ráðast í þetta verkefni? „Já klárlega, ég held að allir ætli að ráðast í þetta verkefni. Þetta er akkúrat þannig verkefni að stjórnmálamenn eru ekki endilega í mikilli samkeppni, bara spurning ætlum við að gera þetta og hvernig gerum við þetta. Hvernig við gerum það er kannski eitthvað sem við getum unnið öll saman.“
Taka þarf skattlagningar á rekstur bifreiða til endurskoðunar
Sigríður Á. Andersen, Sjálfstæðisflokkur, sagði það ekki alls ekki sjálfgefið að innviðirnir verði í betra horfi í lok næsta kjörtímabils en þeir eru í dag. Það gerist ekki af sjálfu sér. „Ég segi það, heimur batnandi fer, þegar ég heyri fólk hérna á undan taka undir réttmæti þess að einkaaðilar komi að innviðauppbyggingu og jafnvel rekstri. Það er nú auðvitað jákvætt.“
Sigríður nefndi að í skýrslunni um innviði á Íslandi væri ein af ráðleggingunum að koma á meira samstarfi vegagerðar og sveitarfélaga. „Ef við horfum til dæmis bara hérna á höfuðborgarsvæðið þar sem sveitarfélagið, borgaryfirvöld, hafa verið afskaplega andsnúin allri innviðauppbyggingu hér af hálfu ríkisins, sem varðar til dæmis vegi inn og út úr borginni. Ég tel auðvitað brýnt sem þingmaður Reykvíkinga að það verði sett á teikniborðið á næsta kjörtímabili nýir vegir út úr borginni til suðurs og norðurs. Það verður ekkert gert nema í samvinnu við borgaryfirvöld og það er auðvitað mjög ergilegt fyrir þingmenn Reykvíkinga að geta ekki unnið að þessu framfaramáli með betri hætti. Að sjálfsögðu leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á öll þau tækifæri sem felast í einkaframkvæmd og það hefur gefist vel hingað til. Umræður um vegatolla verða ekki teknar án þess að það verði tekið til gagngerrar endurskoðunar til dæmis skattlagningar á rekstur bifreiða í dag. Á rekstur heimilisbílsins í dag leggjast á sjö mismunandi skattar, algjörlega ógagnsætt og flókið kerfi, kerfi sem er orðið kerfi í kerfinu. Í tíð síðustu ríkisstjórnar þá setti þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, af stað vinnu við að endurskoða þessa gjaldaflokka á bifreiðar. Tekjur af rekstri heimilisbílsins eru 45 milljarðar á ári, sá peningur fer auðvitað bara í ríkiskassann í dag en menn hafa verið að horfa frá því fyrirkomulagi sem felst í mörkuðum tekjustofnum. Um það ganga til dæmis ný lög um opinber fjármál, það er ekki um það að ræða að féð renni beint inn í þessa innviðauppbyggingu. En það þarf auðvitað að gera það, það liggur alveg fyrir. Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, setti af stað mjög mikilvæga vinnu samstarfshóps sem var að skila nýlega skýrslu og tillögum en þeim var sérstaklega falið að skoða kosti einkaframkvæmdar, sérstaklega við vegaframkvæmd. Þetta er auðvitað alveg borðleggjandi að við þurfum að skoða.“
Nýta arðgreiðslur úr bankakerfinu
Lilja Alfreðsdóttir, Framsóknarflokkur, sagði það blasa við að það væri stórkostleg innviðauppbygging framundan. „Ég fagna því að það sé verið að nálgast þetta á svona heildstæðan hátt, vegna þess að ég tel að ef við gerum þetta með þessum hætti þá megi nýta fjárfestingarnar miklu betur. En ég ætla samt að segja það að ég hafna algjörlega tillögu Sjálfstæðisflokksins um að það eigi að reisa hérna tollamúr í kringum Reykjavík. Við höfum heyrt það í umræðunni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að skoða svona hugmyndir. Ég vil bara hafa það alveg á hreinu að við í Framsóknarflokknum, þó ég sé þingmaður Reykvíkinga, ég hafna því algjörlega. Mér finnst þetta óskilvirkt og við eigum að nýta þá fjármuni sem við erum nú þegar að taka í gegnum skattheimtuna í þessa innviðauppbyggingu. Það er alveg ljóst að ef við tökum þetta ekki alvarlega eins og kemur fram í þessari skýrslu, ég fagna henni og sérstaklega þessari heildstæðu nálgun, þá getur orðið kostnaðarsamt að fara ekki í þessar framkvæmdir núna. Við sjáum það til að mynda núna að framundan eru talsverðar arðgreiðslur úr þessu bankakerfi okkar og við eigum að nýta það í einskiptisframkvæmdir og einnig að líta til þess að samstarf hins opinbera og einkaaðila er algjörlega sjálfsagt þegar við erum að líta til framkvæmda.“
Fjárfestingaáætlun þarf að vera í samhengi við atvinnustefnu
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Samfylking, sagðist vona að staða innviða yrði betri á næstu 4 árum.„Þetta er auðvitað risavaxið verkefni eins og allir hér hafa farið inn á. Ég get ekki betur séð en að þetta kalli á fjárfestingaáætlun í innviðum til næstu áratuga. Það verður að vera áætlun í einhverju samhengi við þá atvinnustefnu sem við viljum móta hérna til framtíðar. Vegna þess að við förum ekki í allt strax, eðlilega. En við þurfum líka að skoða hvernig samfélag við ætlum að byggja hérna og hvernig atvinnulíf við viljum styðja við. Við viljum klárlega leggja mikla áherslu á að byggja upp þekkingariðnað hérna. Í því samhengi þurfum við til dæmis að hugsa, ætlum við að leggja áherslu á að styrkja gagnatengingar við útlönd. Við byggjum ekki upp fleiri gagnaver hérna nema það sé gert. Vegakerfið og ferðaþjónustan eru nátengd og það þarf að hugsa þetta í samhengi. Þetta er ekki bara spurning um að tvöfalda eitthvað eða stækka, þetta þarf að vera í samhengi við atvinnustefnu til framtíðar. Það er það sem við höfum mestan áhuga á að líta til.“
Innviðaupbyggin er ekki einskiptisaðgerð
Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, sagði engann vafa á því að það verði að forgangsraða fyrir innviðauppbyggingu, það væri nauðsynlegt. „Við erum að koma inn í uppsveiflu núna þar sem ekki tókst að gera nokkurn skapan hlut í niðursveiflunni vegna fjárhagslegrar stöðu ríkissjóðs og raunar allra. Við megum ekki líta á innviðauppbyggingu sem einskiptisaðgerð. Þetta er viðhaldsfjárfesting á innviðastrúktúrnum okkar ár eftir ár. Það þýðir ekki að fara að taka arðgreiðslur út úr bönkum til að fjármagna viðvarandi fjárfestingaþörf. Við eigum að nota fjármálakerfið sem ríkið heldur á í dag, selja þar myndarlegan hluta, halda kjölfestu í Landsbanka, greiða niður skuldir og nota það sem þar skapast til að fjármagna innviðauppbyggingu.“
Leita nýrra leiða við fjármögnun uppbyggingu innviða
Ólafur Ísleifsson, Flokkur fólksins, sagði sinn flokk mjög eindregið vera hlynntan uppbyggingu innviða.„Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa ágætis-skýrslu sem er mjög lýsandi. Við viljum að sjálfsögðu nýta kosti samstarfs við einkaaðila og við viljum leita nýrra leiða við fjármögnun rétt eins og gert var þegar ráðist var í gerð Hvalfjarðarganga. Þá var það nýmæli að það var gefið út skuldabréf til 23 ára sem var selt bandarískum lífeyrissjóði. Það er um það bil verið að greiða þetta bréf upp og þessi göng verða afhent ríkissjóði til eignar.“
Hér fyrir neðan er hægt að horfa á upptöku frá fundinum:
https://www.youtube.com/watch?v=CpBVsdNft2s#action=share
Hér fyrir neðan er hægt að nálgast myndband sem sýnt var frá á fundinum áður en umræður um uppbyggingu innviða hófst:
http://augnablik.is/verkefni/SI2017/Kjosum_betra_lif/SI2017_1_Innvidir_v5.mp4