Fréttasafn



6. jún. 2016 Iðnaður og hugverk

Einn af bakhjörlum íslensks sjávarútvegs

Innan Samtaka iðnaðarins (SI) eru rúmlega 1.400 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda sem eru mjög ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða. Fjölbreyttur hópur fyrirtækja samtakanna þjónustar sjávarútveg með einum eða öðrum hætti og hefur gert í áratugi að sögn þeirra Bryndísar Skúladóttur, forstöðumanns framleiðslu- og matvælasviðs, Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, viðskiptastjóra á framleiðslu- og matvælasviði og Ragnheiðar Héðinsdóttur, forstöðumanns matvælasviðs.

„Þar má m.a. nefna framleiðendur margvíslegra tækja, véla og búnaðar sem sjá bæði fiskiskipum og fiskvinnslum fyrir meira og minna öllum þeim búnaði sem þau þurfa á að halda. Þá eru fjölmörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í að hanna, viðhalda og smíða báta og svo eru önnur sem sérhæfa sig í þróun  og framleiðslu umbúða utan um þær fjölmörgu vörur sem tengdar eru sjávarútvegi,“ segir Bryndís.

Aðkoma fjölda fyrirtækja

Ragnheiður bendir á að íslensk fyrirtæki séu einnig brautryðjendur í framleiðslu á veiðarfærum og fatnaði fyrir sjómenn og landvinnslufólk sem er framleiddur hjá íslenskum textílfyrirtækjum. „Síðast en ekki síst þá sér íslenskur matvælaiðnaður útgerðinni fyrir fjölbreyttum kosti. Þar fyrir utan er fjöldi fyrirtækja í málmiðnaði og rafiðnaði sem þjónustar sjávarútveg og fiskiðnað með viðhaldi véla og búnaðar.“

Það er því ljóst að öflugur sjávarútvegur skiptir miklu máli fyrir flestar atvinnugreinar hér á landi að sögn Jóhönnu Klöru. „Það eru ekki mörg lönd sem reiða sig jafn mikið á sjávarútveg og við. Það sem meira er, þá hefur þessi öflugi heimamarkaður orðið til þess að íslensk fyrirtæki geta náð fótfestu á alþjóðamarkaði og náin tengsl fyrirtækja við sjávarútveginn auðveldar vöruþróun og prófun við raunverulega aðstæður. Útgerðin er auk þess mjög áhugasöm um hönnun og þróun nýrrar tækni og það hefur skipt sköpum fyrir uppbyggingu í kringum greinina.“

Nýtt og spennandi

Undanfarin 5-10 ár hafa ný fyrirtæki og ungar atvinnugreinar þjónað sjávarútvegi í meira mæli. „Þar má nefna fyrirtæki sem bjóða ýmiskonar hugbúnaðarlausnir en sum þeirra hafa það að markmiði að auka verðmæti afurða og koma í veg fyrir sóun. Einnig hefur sjálfvirkni færst í vöxt í íslenskri fisvinnslu þar sem íslenskir róbótar koma við sögu. Þá er vaxandi áhugi á að vinna verðmætar vörur úr hráefni sem áður var hent, en fullnýting afurða er t.d. verkefni sumra líftæknifyrirtækja.“

Undanfarin ár hefur áhersla á umhverfisvænar lausnir einnig aukist. „Þar koma hugbúnaðarfyrirtækin sterk inn en einnig eru hefðbundnar vörur að þróast á þennan hátt, til dæmis kælibúnaður sem notar minni orku en áður, vinnslulínur sem nýta aflann betur og minna hráefni er fargað auk þess sem veiðarfæri eru hönnuð til að nota minni orku. Með því að innleiða lausnir fjölda fyrirtækja þá hefur sjávarútveginum tekist að minnka orkunotkun sína umtalsvert og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.“

Þær nefna einnig áhugaverðar tilraunir með að nota íslenskt eldsneyti á skip, bæði rafmagn og metanól. „Íslendingar standa framarlega á þessu sviði og verður spennandi að sjá hverju framvindur í þeim tilraunum.“

Reynslu og þekkingu deilt

Þær segja SI vera vettvang fyrirtækja til að deila reynslu og þekkingu. Þannig greiði samtökin fyrir aukinni framleiðni og búi til jarðveg til að auðvelda nýjum tæknilausnum að fæðast. „Við vinnum auk þess að ýmsum hagsmunamálum fyrirtækja varðandi löggjöf og framkvæmd hennar. Þannig höfum við sem dæmi talað fyrir einfaldari löggjöf um eftirlit og leyfisveitingar en það fer oft mikill tíma fyrirtækja í samskipti til opinberar stofnanir. Það er til dæmis hægt að lagfæra slíka hluti án þess að gæði opinberrar þjónustu minnki.“

Birtist í Fréttablaðinu, föstudaginn 3. júní 2016