Ekki byggðar nægilega margar íbúðir á næstunni
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Morgunútvarpi Rásar 2 um áform ríkisstjórnarinnar að lækka endurgreiðsluhlutfall við vinnu iðnaðarmanna á verkstað úr 60% í 35%. Þáttastjórnendur eru Ingvar Þór Björnsson og Snærós Sindradóttir. „Síðan á 9. áratugnum hefur þetta hlutfall aldrei verið lægra. Þessu kerfi var komið á 1990, söluskattur sem var áður var ekki lagður á vinnu iðnaðarmanna á verkstað svo kemur kerfi virðisaukaskatts og þá er virðisaukaskattur lagður á en endurgreiddur að fullu. Þannig að endurgreiðslan var 100% en var lækkað niður í 60% og svo hefur það stundum hækkað í 100% en aldrei lækkað niður fyrir 60%. Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum það,“ segir Sigurður. Hann segir að þetta sé hluti af af fjármálaáætlun sem hafi verið lögð fram rétt fyrir páska og þingið hafi málið núna til umfjöllunar og taki sínar ákvarðanir. „Það sem kemur okkur líka á óvart er hve fyrirvarinn er skammur því þetta á að taka gildi um mitt þetta ár. Þetta er mjög skammur fyrirvari.“
Of fáar íbúðir verið byggðar síðustu 10-15 ár
Þegar Sigurður er spurður hver áhrifin geti orðið: „Við sjáum það að það er ójafnvægi á húsnæðismarkaði og það að grunni til stafar af því að það hefur hreinlega of lítið verið byggt og of fáar íbúðir verið byggðar á síðustu 10-15 árum eða svo þó það hafa verið mikil umsvif núna síðustu árin. Þetta hefur leitt til mikilla hækkana og við höfum séð mikla verðbólgu. Það sem er ólíkt hér á landi versus annars staðar er að verðbólgan hér á landi er að miklu leyti út af húsnæðiskostnaði en úti er verðbólgun að mestu leyti út af orkuverði og öðru. Vextir hafa hækkað þannig að þetta hefur mikil áhrif. Landsmönnum fjölgar. Ég held að landsmönnum á síðasta ári hafi fjölgað í kringum 10 þúsund og öll þurfum við þak yfir höfuðið eins og við þekkjum. þannig að það þarf stöðugt að vera að byggja. við megum ekki við minni umsvifum. En staðan í dag er sú að verð á aðföngum hafa hækkað, laun hafa hækkað, vextir hafa hækkað og fjármagnskostnaður. Það er aukin óvissa. Við sjáum að sölutíminn hefur lengst. Þetta bætist svo við með starfsumhverfið, það er þá minni hvati.“
Áforma að fækka úr 1.500 í 500 íbúðir
Sigurður segir frá könnun sem gerð var meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins sem hafa verið að byggja íbúðir um þeirra áform á næstunni. „Fyrir ári síðan þá voru þessir aðilar að byrja á tæplega 1.500 íbúðum á næstunni hyggjast sömu aðilar byrja á um 500 íbúðum. Þannig að þetta er fækkun í þessum áformum um tvo þriðju eða ca 65%. Þetta sýnir aðeins hvernig staðan er á byggingarmarkaðinum. Þetta er staðan eins og við sjáum hana í dag. Við erum ekki að sjá fram á að það verði byggðar nægilega margar íbúðir á næstunni. Það er auðvitað mjög slæmt.“
Sigurður segir að innviðaráðherra og ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að það þurfi að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum frá og með þessu ári og til ársins 2032. „Það er ekki alveg fyrirséð að það gangi eftir.“ Hann segir að það sé margt í gangi. „Ríkið og Reykjavíkurborg gerðu samkomulag til dæmis um svona uppbyggingu. Ég veit til þess að önnur sveitarfélög eru að vinna að slíkum samningum og vonandi fáum við að sjá þá raungerast á næstunni. En það eru margir sem koma að þessu. Það eru mörg sveitarfélög, margir verktakar og svo framvegis. Það þarf einhvern veginn að skýra ábyrgð og taka forystu og það hefur ráðherrann gert. Mjög ánægjulegt að sjá það. En því þarf svo að fylgja eftir.“
Hækkar verð á íbúðum og letur til viðhalds
Þessi lækkun ef hún kemur til framkvæmda í sumar, fer niður í 35%, hvað má ætla að þetta séu háar fjárhæðir fyrir íbúð? „Ég mundi halda að fyrir hverja íbúð þá er þetta kostnaður upp á nokkar milljónir, við höfum talað um að kostnaðaraukinn gæti legið á bilinu 3-5% fer eftir eðli verkefna. Á heildina eru þetta stórar fjárhæðir. Svo er hin hliðin á þessu varðandi viðhald á fasteignum, þetta snertir það líka. Þar letur þetta til viðhalds sem er slæmt því það skiptir máli að passa upp á gæði eigna.“
Nota tímann til að byggja nægilega mikið
Sigurður segir að þessi lækkun á endurgreiðsluhlutfalli sé ekki í takt við þá stóru mynd sem við sjáum. „Vandamálið er líka það að eftirspurnin breytist mjög hratt og fer eftir ýmsum þáttum. Núna eru aðgerðir til að hefta eftirspurn, til dæmis varðandi útlán og slíkt. Við þyrftum að nota tímann á meðan við erum með þær hömlur og byggja nægilega mikið því það tekur um 2 ár að byggja íbúð. Þetta er þá ákveðið áhyggjuefni ef við horfum núna 2-3 ár fram í tímann þá verður hagkerfið vonandi farið að rétta úr kútnum og við sjáum fram á betri tíma og eftirspurnin verður mikil en framboðið verður þá ekki til staðar.“
Ráðast þarf á rót vandans
Sigurður segir að áform verktakanna bendi til að þeir ætla að ráðast í mun færri verkefni á næstunni. „Auðvitað getur það breyst en ef það gerist gengur eftir þá erum við að horfa fram á það að þá verði aftur einhvers konar krísa á fasteignamarkaðnum með tilheyrandi verðhækkunum, verðbólgan kemur aftur, vextir verða háir og svo framvegis. Það er staða sem við viljum ekki. Við hljótum að vilja taka á málunum, ráðast á rót vandans.“
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð frá mínútu 34:40.
Morgunútvarpið Rás 2, 24. apríl 2023.