Fréttasafn



16. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Ekki rétt mynd af íslenskum raforkumarkaði í nýrri skýrslu

Í helgarútgáfu Fréttablaðsins kemur fram að stórnotendur á íslenskum raforkumarkaði segja að ný úttekt á samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar dragi ekki upp rétta mynd af stöðu mála í dag. Í samtali við Fréttablaðið segir Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, að meðalverð til stóriðju eins og það komi fram í uppgjörum Landsvirkjunar sé vissulega samkeppnishæft og að skýrsla Fraunhofer staðfesti það: „Hins vegar hefur ítrekað komið fram í skrifum forsvarsmanna Landsvirkjunar að það verð er einfaldlega ekki í boði lengur við endurnýjun samninga, nú síðast hjá upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar í fjölmiðlum fyrir helgi. Með þeirri verðstefnu er augljóst að samkeppnishæfni íslenskrar stóriðju til framtíðar er ógnað.“

Skýrslan endurspeglar ekki veruleika ISAL

Einnig er rætt við Bjarna Má Gylfason, samskiptafulltrúi ISAL í Straumsvík, í Fréttablaðinu sem segir að fyrirtækið muni ekki tjá sig um einstök atriði í skýrslu Fraunhofer. „En almennt getum við sagt að hún endurspeglar ekki þann veruleika sem ISAL býr við. Það er gott að stjórnvöld beini sjónum að orkuverði, sem er lykilþáttur í samkeppnishæfni áliðnaðar. ISAL og áliðnaðurinn á Íslandi vegur þungt í efnahagslífi þjóðarinnar og það er mikilvægt að ISAL geti orðið fjárhagslega sjálfbært og samkeppnishæft.“ 

Heimildavinnu skýrslunnar ábótavant

Þá kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við Jóhann Þór Jónsson, formann Samtaka gagnavera á Íslandi, sem nefnir að heimildavinnu skýrslunnar sé oft og tíðum ábótavant. „Það er ákveðið áhyggjuefni að ráðuneytið skuli í tilkynningu sinni draga þá ályktun að raforkuverð til gagnavera á Íslandi sé samkeppnishæft við til dæmis Noreg, þegar það er hreinlega tekið fram í skýrslunni að raforkuverð í Noregi sé töluvert lægra en á Íslandi, eins og allir þeir vita sem eru að skoða raforkuverð á þessum tveimur mörkuðum.“ Á einum stað í skýrslunni sé þannig talað um langtímaraforkuverð til norskra gagnavera í Noregi, en eina heimildin sem þar sé stuðst við sé blaðagrein frá árinu 2013. „Stærsta áhyggjuefnið er hins vegar sú staðreynd að orkunotkun íslenskra gagnavera hefur dregist saman um næstum því helming síðan 2018 og aðrir stórnotendur á landinu virðast stefna í svipaða átt. Það er ekki að gerast vegna þess að raforkuverð er svo samkeppnishæft.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 14. nóvember 2020.