Fréttasafn12. nóv. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Ekki samkeppnishindrun að gera kröfur sem felast í lögverndun

Í Speglinum á RÚV er rætt við Björgu Ástu Þórðardóttur, yfirlögfræðing SI, um nýútkomna skýrslu OECD þar sem gerðar eru tillögur að því að afnema lögverndun tiltekinna starfsgreina hér á landi. „Þegar við erum að tala um löggildingu á tiltekinni starfsgrein og tilteknu starfi þá er það yfirleitt þannig að það eru einhverjar hæfiskröfur, einhver skilyrði sem stjórnvöld setja til þess að þú megir vinna þessi störf. Síðan er það þannig að við erum kannski með aðeins vægari vernd þegar kemur að lögvernd á starfsheitum til þess að mega kalla sig eitthvað þá þurfir þú að uppfylla einhver tiltekin skilyrði, yfirleitt einhver menntunarskilyrði og þú færð þá viðurkenningu þess efnis að þú megir kalla þig það sem lögverndunin tekur til.“

Þrír aðilar sem mega starfa við lögverndaða iðngrein

Björg Ásta segir að í lögum um handiðnað frá 1978 sé talað um að það séu raunverulega þrír aðilar sem mega starfa við þessar greinar og selja þessa þjónustu. „Í fyrsta lagi eru það sveinarnir sem hafa þá fengið útgefið sveinsbréf, svo er það meistari í greininni sem hafa þá farið aðeins lengra inn í námið og fengið útgefið meistarabréf og svo eru það nemar sem að raunverulega starfa þá undir handleiðslu meistara. Það er í grunninn þessir þrír aðilar sem mega vinna þessi störf.“

Enginn eftirlitsaðili

Þegar Björg Ásta er spurð hvort það sé eitthvað sem komi í veg fyrir að Pétur og Páll geti málað fyrir Pétur og Pál segir hún að ætla mætti að það væri eitthvað í lögunum, að það væri eitthvað stjórnvald, einhver eftirlitsaðili sem mundi grípa inn í. „En staðan er nú þessi, og það er það sem Samtök iðnaðarins og meistarafélögin sem eru innanborðs hjá okkur hafa gagnrýnt er, að það er akkúrat ekkert sem kemur í veg fyrir það að einstaklingar sem hafa ekki réttindi fari að vinna við þau störf sem falla þarna undir. Það er akkúrat þessi starfshópur sem var settur á laggirnar á þessu ári sem er að skoða það núna. Við fögnum því sem kemur fram í fréttatilkynningu ráðherra í gær að þessum starfshóp sé einmitt falið að fara yfir þessar tillögur og komi með einhverjar tillögur að næstu skrefum og það er vel. Ég býð bara eftir að fá dýpri kynningu inn í þann starfshóp á úttekt OECD hvað þetta varðar og fá tækifæri til þess að eiga þetta samtal með þeim hópi.“

Þarf að horfa til almannahagsmuna

Þá er Björg Ásta spurð hvort OECD sé að gera þá kröfur að allir megi gera allt? „Ég mundi ekki ganga svo langt. Þeir gera ákveðinn fyrirvara. Við þurfum einmitt að horfa til þess að þessar reglur eru settar og hafa verið í gildi af ástæðu. Það þarf auðvitað að horfa til almannahagsmuna, það er bara réttarkerfið okkar sem er byggt þannig upp. Ég tel að OECD sé, vænti ég, að leggja það til að farið sé þá ofan í hagsmuni greinanna sem við fögnum, sem er bara fínt að taka þá umræðu um hverja og eina grein. Það sem hins vegar kemur á óvart í þessari úttekt hjá OECD og þessar skýrslu, mér kannski pínu brá því ég hélt að þetta væri ekki viðfangsefni þessarar úttektar, með svona afdráttarlausum hætti að taka tvær löggildar iðngreinar út fyrir sviga og leggja einfaldlega til að lögverndunin sé afnumin. Þarna eru bakarar og ljósmyndarar undir. Þetta kemur á óvart út af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var aldrei rætt við greinina eða hagaðila um þessar tillögur ólíkt öðrum atriðum í þessari skýrslu þannig að þetta var óvænt og auðvitað bara ekki eðlilegt að koma fram með þessum hætti. Síðan er það kannski bara það að bakaraiðnin hún er ekki bara lögvernduð á Íslandi. Það er ekkert einsdæmi og þarna eru margar gildar ástæður. Ljósmyndunin er auðvitað grein sem hefur verið að þróast í gegnum aldanna rás og breytast. Þar er bara hollt og mikilvægt að ræða stöðu hennar og ég held að það sé líka það sem greinin er tilbúin að gera.“

Löggildingin og menntunin hefur alltaf verið samofin

Þegar Björg Ásta er spurð hvort SI og félög innan samtakanna ljái máls á því að slaka á kröfum? „Það er eiginleg ómögulegt að segja til um það. Við höfum skoðað þetta hjá okkur, við höfum farið ofan í hverja grein og í langflestum tilvikum erum við nokkuð brött með það að almannahangsmunir liggi þeim til grundvallar og í raun og veru má ganga lengra heldur en að segja að maður sé nokkuð brattur. Það séu einfaldlega mjög ríkir hagsmunir þeim til grundvallar. Ef að niðurstaðan er hins vegar sú að það eru ekki almannahagsmunir þá auðvitað þarf að skoða það. En við teljum að svo sé. Við teljum líka og að því leytinu erum við ósammála OECD við teljum að það sé ekki samkeppnishindrun að gera þessar kröfur. Það má alveg benda á það að aðsókn inn í þetta nám í flestum tilvikum flestra þessara greina er mikil og hefur aukist ár frá ári. Það er metaðsókn núna. Mér finnst í raun og veru mikilvægt ef við erum að horfa á þetta sem heild að löggildingin og menntunin hefur alltaf verið samofin. Það er í raun ekki hægt að taka þetta frá hvort öðru. Þegar þetta kerfi var sett á þá var meistarinn hugsaður sem ábyrgðaraðili, hann á að bera ábyrgð á nemandanum. Auðvitað breytast tímarnir og skólakerfið breytist og þróast en það er ennþá grunnhugsunin að meistarinn er ábyrgur. Hann er ekki bara ábyrgur fyrir því að taka inn einstaklinga á samning til sín heldur er hann líka ábyrgur fyrir því að verksvið sé unnið fagleg og rétt sé staðið að málum.“

Hætta ef dregið er úr menntunarkröfum

Björg Ásta er spurð hvort felist hætta í tilmælum OECD að það verði slakað á kröfunum? „Ég verð að segja já það sé ákveðin hætta þegar þú dregur úr menntunarkröfum í þeim störfum sem nú er verið að tala um. Það á auðvitað að opna markaðinn enn betur fyrir þá aðila sem koma inn á markaðinn sem eru þá ekki með þessa menntun sem við sem þjóð höfum lagt mikið upp úr. Okkur skortir þennan grunn og við teljum að menntun í grunninn sé jákvæð og leiði til þess að við komumst áfram sem þjóð. Það má ekki gleyma því að hér á Íslandi er gríðarleg krafa til menntunar og fagmennsku þannig að það er líka hluti sem við þurfum að taka tillit til. Við erum ekkert sérstaklega hrifin af því að slá af þeim kröfum. Megum við gera betur, klárlega, en þegar við erum að taka afstöðu þá hljótum við að alltaf að horfa á gæði sem grundvallarþátt í ákvarðanatökunni.“

Gæði og neytendavernd eru grundvallaratriði

Þáttastjórnandinn segir að í OECD skýrslunni segi að hvergi séu jafnmargar greinar lögverndaðar eins og hér á landi, eru Íslendingar þarna til fyrirmyndar eða eru þeir að flækja fyrir? „Ég held að þarna þurfi að horfa á hverja og eina grein fyrir sig. Ég held að markmiðið í sjálfu sér sé ekki að vera með fæstar lögverndaðar iðngreinar. Við þurfum hins vegar að horfa á hverja og eina grein fyrir sig og velta fyrir okkur þeim hagsmunum sem liggja þarna að baki og hvaða almannahagsmunir krefjast þessarar verndar. Það er hins vegar þannig að auðvitað getur þessi tala gefið okkur tilefni til þess að fara ofan í greinarnar og velta þessu fyrir okkur. Hvort það séu einhver tækifæri til þess að gera einhverjar breytingar án þess að gera einhverjar minni kröfur um gæði og hæfni og draga úr þeirri fagmennsku sem að við teljum mikilvægt að ríki í þessum greinum. En að okkar mati er það einfaldlega þannig að hér eru gæði og neytendavernd grundvallaratriði og við þurfum að horfa á breytingar sem að draga ekki úr þessum tveimur lykilþáttum.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Björgu Ástu sem hefst á mínútu 8:50 og lýkur á mínútu 17:30.

RÚV, 12. nóvember 2020