Fréttasafn



26. okt. 2017 Almennar fréttir Menntun

Endurspeglar viðhorf stjórnmálamanna til iðnnáms

„Þetta að mínu mati endurspeglar viðhorf stjórnmálamanna til iðnnáms. Við sjáum það t.a.m. í nágrannalöndunum, eins og í Noregi, þar sem að helmingur þeirra sem klára grunnskólanám fer í iðnnám á meðan að hlutfallið hér er 12%,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í hádegisfréttum RÚV í dag um þá staðreynd að erlendir iðnnemar fá ekki lengur dvalarleyfi til náms á Íslandi eftir breytingu á útlendingalögum. 

Sigurður telur þetta merki um neikvæð viðhorf til iðnnáms á Íslandi þar. Hann segir jafnframt að stjórnmálamenn tali um það á tyllidögum að efla þurfi iðnnámið og gera því hátt undir höfði. „En í praxis þá er staðan þessi. Iðnnámið er hérna tekið úr lögunum og nám er bara skilgreint sem nám á háskólastigi.“

Þá segir Sigurður í fréttinni að það sé mikill skortur á starfsfólki, sér í lagi skortur á fólki með iðnmenntun. „Þetta hefur verið viðvarandi vandamál lengi og það þarf svo sannarlega á því að halda að fá fólk hingað inn með þessa menntun.“

Dómsmálaráðherra telur um mistök að ræða við lagasetninguna

Í fréttinni er einnig rætt við dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, sem telur  að hér hafi einfaldlega verið gerð mistök við lagasetninguna. Engin umræða hafi farið fram um það að fella iðnnámið úr lögunum. Hún segir ljóst að þessu þurfi að kippa í liðinn með lagabreytingu þegar þing kemur saman á ný. „Það virðist hafa fallið niður skilgreiningin á iðnnámi í nýju útlendingalögunum, sem voru samþykkt á síðasta kjörtímabili, og það er að mínu mati mjög bagalegt,“ segir Sigríður. 

Í fréttinni kemur fram að dómsmálaráðherra hafi ekki verið kunnugt um þetta fyrr en málið kom fram í fréttum. „Ég tel einsýnt að það þurfi að endurskoða ákvæði um námsmenn í lögunum með tilliti til iðnmenntar. Ég fæ ekki betur séð en að það þurfi lagabreytingu til,“ segir Sigríður í frétt RÚV.

RÚV, 26. október 2017.