Fréttasafn17. sep. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Engin svör vegna samninga RÚV við kvikmyndaframleiðendur

 „Okkar gagnrýni á samningagerð RÚV við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur, og þá sérstaklega útfærsluna, stendur en við bíðum enn svara frá ráðuneytinu. Þrátt fyrir góðan hug ráðherra ríkir ærandi þögn,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í Fréttablaðinu í dag þar sem sagt er frá því að Samtök iðnaðarins bíði enn svara frá menntamálaráðuneytinu um mat ráðuneytisins á samningsskilmálum Ríkisútvarpsins vegna kaupa á sýningarefni frá sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum.

Í fréttinni kemur fram að Ríkisútvarpið hafi breytt fyrir tveimur árum skilmálum í samningum við framleiðendur efnis um að í stað þess að kaupa sýningarrétt eignist RÚV hlut í þáttunum fyrir framlag sitt og það sé afstaða Ríkisútvarpsins að með þessu sé betur farið með almannafé, auk þess sé stofnuninni óheimilt að veita styrki. Samtök iðnaðarins hafi gagnrýnt þetta fyrirkomulag fyrir hönd innlendra framleiðenda og sent upphaflega erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins í ágúst í fyrra og  funduðu fulltrúar SI með ráðherra vegna málsins í mars síðastliðnum en síðan hafi engin svör borist.

RÚV með rýmri skilgreiningu á sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum

Þá segir í fréttinni að ráðuneytið og Ríkisútvarpið séu nú að semja um nýjan þjónustusamning við stofnunina sem taki gildi um áramótin og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verði engar stórvægilegar breytingar gerðar á samningnum, aðeins verði skerpt á orðalagi. Áfram verði gerð sú krafa að hluti útgjalda Ríkisútvarpsins renni til sjálfstæðra framleiðenda og að Ríkisútvarpið skuli styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Í fréttinni kemur fram að yfirlit yfir viðskipti RÚV við sjálfstæða framleiðendur á árunum 2016 og 2017 séu aðgengileg á vef Alþingis og þar sjáist að í mörgum tilfellum sé um að ræða þáttastjórnendur en RÚV neitar að afhenda tölur yfir árið 2018. „Þessi listi gefur að okkar mati tilefni til að skoða betur forsendur þjónustusamnings ríkisins við RÚV í ljósi þess að skilgreining RÚV á sjálfstæðum kvikmyndaframleiðendum er mun rýmri en almennt tíðkast,“ segir Sigríður og nefnir sem dæmi að RÚV tilgreini handritaráðgjöf, tækjaleigu, opinberar stofnanir og ýmsa verkþætti í framleiðslu sem hluta af þessum kaupum. 

Samræmist ekki markmiði um að efla samstarf við sjálfstæða framleiðendur

Jafnframt kemur fram í fréttinni að RÚV skilgreini sjálfstæðan framleiðanda sem „seljanda tilbúins efnis eða umsjónarmaður eða framleiðandi efnis“ og sé það afstaða RÚV að þessi skilgreining sé ekki óeðlileg en samkvæmt reglugerð um Kvikmyndasjóð megi finna skilgreininguna „sjálfstæður framleiðandi er fyrirtæki sem hefur kvikmyndagerð að meginstarfi“. Í niðurlagi fréttarinnar kemur fram að Sigríður telji þetta orka tvímælis. „Við efumst um að þetta samræmist upprunalegu markmiði ríkisins um að efla samstarf við sjálfstæða framleiðendur.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is / Vísir , 17. september 2019.