Fréttasafn12. des. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Engin úrræði gagnvart fúskurum

Rætt er við Jón Sigurðsson, húsasmíðameistara, og Má Guðmundsson, málarameistari, sem báðir eru í stjórn Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins í þætti Sigmundar Ernis Rúnarssonar 21 á Hringbraut um stöðu löggiltra iðngreina en mikið vantar upp á að virkt eftirlit sé með löggiltum iðngreinum sem leiðir til þess að fúskarar án fagmenntunar geta starfað óáreittir og almenningur situr oft á tíðum uppi með skaðann. 

Jón segir að staðan sé sú að engin úrræði séu fyrir hendi. „Í iðnaðarlögunum eru engin sektarákvæði. Þannig að þó svo við kærum fyrirtæki og við eigum dæmi þess að við höfum kært fyrirtæki, það þarf að fara í gegnum rannsóknarlögreglu og allan þann feril og tekur allt að tvö ár, þá yfirleitt er fyrirtækið búið að skipta um kennitölu áður en málið er komið alla leið þannig að málin klárast aldrei og fyrirtækið heldur áfram á nýrri kennitölu.“

Már segir meðal annars frá dæmi úr málaraiðninni þar sem réttindalaus maður fór mikinn á markaðnum.  „Við fórum með það mál alla leið. Það endaði í dómsmáli þar sem hann var sektaður um 80 þúsund krónur. Þá hafði hann starfað í 4 ár og viðurkenndi brot sitt en það leið ekki langur tími þar til hann hóf störf aftur og hefur verið að starfa síðan. Þetta var svo lág sekt að hún kom engan veginn við hann.“

Fúskarar með engin réttindi 

Jón segir fúskarana á markaðnum ekki vilja gera verksamninga. „Iðullega eru ekki gerð föst tilboð í verkin, þeir passa sig á því. Verking eru iðullega mjög illa unnin af því það er engin fagþekking á því sviði sem menn eru að framkvæma og verður til þess að fólk situr í súpunni með töluvert fjárhagslegt tjón.“ Hann segir þetta mjög algengt. „Við heyrum ekkert af þessu fyrr en fólk er komið í vandræði og fær viðkomandi ekki til að laga. Þá er fólk undrandi á að viðkomandi skuli ekki vera í einhverju meistarafélagi eða skyldugur til að vera í einhverju félagi. En þessir menn eru ekki með nein réttindi.“

Þeir segja að fúskararnir hafi takmarkaða þekkingu á því sem þeir eru að gera og geti því farið ódýrari leiðir en fagmennirnir fara. „Vegna þess að þeir eru ekki að nota þau efni sem þeir eiga að nota og ekki að nota þær vinnuaðferðir sem þeir eiga að nota. Við erum með dæmi um það að það er eins og menn viti ekki í hvora áttina vatnið rennur á þaki.“ 

Már segir það vera alveg ótrúlegt að vera með lög og hafa engin sektarákvæði í lögunum. „Það er mjög sérstakt, menn fá bara klapp á öxlina og halda áfram. Það er okkar sýn á málinu. Þetta setur niður þessar iðngreinar og þetta nám sem við erum að predikera um.“

Tækifæri til að breyta lögunum

Jón segir að núna sé tækifæri til þess að breyta þessu. „Það er núna verið að taka upp hluta af iðnaðarlögunum. Við skiluðum ályktun um breytingar sem við viljum  fá inn þessi ákvæði, bæði um sektarákvæði og eftirlit. Það er ekki með í umræðunni í dag í frumvarpinu eins og það lítur út núna. Okkur finnst það ákveðin móðgun við okkur. Því þarna er tækifæri til þess að breyta þessu fyrst það er verið að breyta þessu á annað borð. Mín skoðun er sú að þessi fyrirtæki eiga ekki að fá að starfa á markaði. Við erum reiðubúnir að vinna með stjórnvöldum til að finna leiðir til að stoppa þetta. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það er allavega hægt að fækka þeim verulega.“

Þeir segja að Meistaradeild SI hafi talað um það í mörg ár að setja á nokkurskonar heilbrigðisvottorð fyrirtækja sem ríkisvaldið hafi ekki haft neinn áhuga á. „Núna hyllir undir að það verði til fyrirtæki sem vottar svona fyrirtæki, að iðnaðarmenn séu með allar greiðslur í lagi, réttindi í lagi og allt slíkt. Þá er komið eitthvað sem heitir heilbrigðisvottorð fyrirtækja. Ef að það tekst vel sem við vonum þá er kominn mjög góður grundvöllur til að stoppa starfsemi eða þá hefur almenningur ekki afsökun fyrir því að lenda í vandræðum. En svo kemur bara hitt að almeningur er að sækjast eftir lágu verði og lendir þá oft í vandræðum.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Jón og Má í heild sinni.

Jon-HringbrautJón Sigurðsson, húsasmíðameistari. 

MarMár Guðmundsson, málarameistari.