Enginn vöxtur í framleiðni hefur áhrif á kjaraviðræður
Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Innherja á Vísi þar sem segir að framleiðni á mann hafi ekki vaxið undanfarin ár og sú fjölgun starfa á vinnumarkaði sem hafi orðið sé að stórum hluta lágframleiðnistörf. Ingólfur segir að þessi staða muni hafa áhrif á komandi kjaraviðræður sem varar við því að með sama framhaldi verði ekki innistæða fyrir auknum lífsgæðum. Hann segir að það séu tækifæri í umbótum á sviði samkeppnishæfni og það muni leiða til aukinnar framleiðni. „Hversu vel okkur tekst til í því ræður þróun lífskjara.“
Launahækkanir umfram framleiðnivöxt koma í bakið á okkur
Þá segir Ingólfur að framleiðni megi auka með því að skapa störf í nýjum greinum þar sem verðmætasköpun vinnuaflsins sé meiri en í þeim greinum sem fyrir séu í hagkerfinu. „Vöxtur hugverkaiðnaðar hér á landi er gott dæmi um þetta. Launahækkanir umfram framleiðnivöxt koma í bakið á okkur í formi verðbólgu líkt og við sjáum nú. Það að framleiðni standi í stað mun hafa áhrif í komandi kjaraviðræður. Með sama áframhaldi verður ekki innistæða fyrir auknum lífsgæðum. Spurningin um hvernig við aukum framleiðni er spurningin um hvernig við aukum lífsgæði til framtíðar. Sóknarfærin felast í umbótum á sviði samkeppnishæfni sem leiða til aukinnar framleiðni. Hversu vel okkur tekst til í því ræður þróun lífskjara.“
Menntun, innviðir, nýsköpur og starfsumhverfi hafa helst áhrif á framleiðni
Í Innherja segir að Samtök iðnaðarins hafi bent á að þeir málaflokkar sem helst hafi áhrif á framleiðni og þar með samkepnnishæfni séu menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi fyrirtækja. Hafi samtökin bent á aðgerðir innan þessara málaflokka sem miða þá að því að styrkja framboðshlið hagkerfisins. „Slíkar aðgerðir fela meðal annars í sér að skapa starfsumhverfi sem er stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt. Stöðugleikinn skapar fyrirsjáanleika og eykur fjárfestingu í þáttum sem auka framleiðni.“
Hægt að auka framleiðni með því að skapa störf í nýjum greinum
Jafnframt segir Ingólfur í Innherja að framleiðni megi auka með því að skapa störf í nýjum greinum þar sem verðmætasköpun vinnuaflsins sé meiri en í þeim greinum sem fyrir séu í hagkerfinu. „Vöxtur hugverkaiðnaðar hér á landi er gott dæmi um þetta. Um er að ræða útflutningsstoð þar sem framleiðni er mikil og laun eru há í samanburði við aðrar greinar hagkerfisins. Þetta er stoð sem byggir fyrst og fremst á hugviti og hugverkum. Ljóst er að tækifærin til frekari uppbyggingar hugverkaiðnaðar eru til staðar hér á landi en hún er þegar orðin ein af fjórum meginstoðum gjaldeyristekna þjóðarbúsins.“
Innherji á Vísi, 20. september 2023.