Fréttasafn



20. ágú. 2015 Iðnaður og hugverk

Er 50 milljarða króna velta og 70% vöxtur flopp? – svarað fyrir kvikmyndaiðnaðinn

Því var slegið upp á forsíðu Viðskiptablaðinu 30. júlí s.l. að þær ívilnanir sem færu til kvikmyndagerðar væru „ríkisstyrkt flopp“.

Þessi fullyrðing skýtur skökku við þegar litið er til þess hversu ört vaxandi kvikmyndaiðnaðurinn er. Framleiðsluhlutinn velti yfir 50 milljörðum síðastliðin fjögur ár og vöxtur greinarinnar á þessu tímabili var 73%. Ísland er á góðri leið með að skapa iðnaðinum samkeppnisskilyrði í takt við það sem er að gerast á alþjóðavísu. 

Kvikmyndir hafa verið framleiddar á Íslandi allt frá upphafi þriðja áratugar síðustu aldar, en greinin fór ekki að vaxa verulega fyrr en á þessum áratug og tók verulegt stökk árið 2009, þegar endurgreiðslur til kvikmyndaframleiðslu voru hækkaðar í 20%. Meginmarkmið með endurgreiðslunni var að ná til erlendra fyrirtækja og í kjölfarið mynduðust hér fjölmörg tækifæri. Íslensk fyrirtæki fengu tækifæri til að starfa með þeim erlendu, íslenskt fagfólk fékk tækifæri til að vinna að alþjóðlegum kvikmyndum sem teknar eru upp hér á landi, við fengum kynningu á landi og þjóð og erum nú áhugavert staðarval fyrir erlend verkefni.

Of miklar ívilnanir? 

Margir hafa sett spurningarmerki við það að ein grein sé tekin út fyrir sviga og henni veittar endurgreiðslur. Sé atvinnulífið á Íslandi hins vegar skoðað kemur í ljós að margar atvinnugreinar hljóta ívilnanir með einum eða öðrum hætti. Má þar nefna samninga sem gerðir hafa verið við stóriðjufyrirtæki og ýmsar nýfjárfestingar, stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og ferðaiðnaðinn sem er með lægra virðisaukaskattþrep en flestur annar iðnaður landsins. Þá hefur því einnig verið haldið fram að kvikmyndaiðnaðurinn fái meiri ívilnanir en raun ber vitni. Samkvæmt hagtölugreiningu Samtaka iðnaðarins voru heildarívilnanir þó einungis 11,8% af heildarveltu síðustu fjögurra ára með 20% endurgreiðslu og styrkjum úr Kvikmyndasjóði. Það er þó varasamt að blanda saman umræðum um endurgreiðslur og Kvikmyndasjóð. Markmið þessara tveggja gerða ívilnana eru ólík þó að báðar séu greininni lífnauðsynlegar. Endurgreiðslan byggir á að laða að erlenda framleiðendur og styrkja samkeppnishæfni innlendra framleiðenda en Kvikmyndasjóður byggir fremur á menningarlegum gildum.

Samkeppnishæf en þó nokkuð í land

Íslenskur kvikmyndaiðnaður er samkeppnishæfur upp að ákveðnu marki. Kerfið er einfalt og skilvirkt, fólkið okkar er frábært fagfólk, lipurt, hæft og úrræðagott og náttúra Íslands er einstök og nálægðin við hana mikil. Allir þessir þættir gera það að verkum að við fáum til okkar áhugaverð verkefni. Við getum þó ekki borið okkur saman við þau lönd sem gera hvað best í þessum efnum eins og Kanada, Bandaríkin, Írland, Holland og fleiri lönd þar sem endurgreiðslan er komin upp í allt að 50%. 

Alvöru iðnaður sem kominn er til að vera

Kvikmyndaframleiðendur innan Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) ákváðu árið 2013 að gerast aðilar að Samtökum iðnaðarins og er það tákn um það að kvikmyndaiðnaður á Íslandi er kominn til að vera. Í SÍK eru um þessar mundir fjögur stór kvikmyndaframleiðslufyrirtæki í rekstri allan ársins hring auk fjölda minni fyrirtækja. Almennt er mikið um undirverktöku og aðkeypta þjónustu í greininni en helstu áherslumál  SÍK er að tryggja starfsskilyrði fyrirtækja í greininni.

Koma erlendra framleiðenda til landsins veitir íslensku fagfólki tækifæri til að kynnast stórum kvikmyndaframleiðendum og taka þátt í verkefnum sem væri annars fjarlægari möguleiki. Það getur verið stökkpallur fyrir feril fagfólks eða jafnvel ungs áhugafólks um kvikmyndagerð. Umsögnin sem við fáum frá erlendum aðilum er að við séum fær, áhugasöm, dugleg og fagleg. Slíkar umsagnir hafa í för með sér að erlendu fyrirtækin sækja í auknu mæli hingað og kaupa meiri þjónustu af innlendum fyrirtækjum. Þannig skilar endurgreiðslan sér aftur inn í iðnaðinn og hagkerfið hérlendis

Blómlegur kvikmyndaiðnaður hefur menningarlegt ekki síður en uppeldislegt gildi og gefur okkur færi á  að kynnast ólíkum fyrirmyndum í kvikmyndum, jafnt fyrir börn sem fullorðna. Að hafa aðgang að framleiddu efni á íslenskri tungu fyrir t.d. börn skiptir miklu máli fyrir foreldra, skóla og í raun samfélagið allt. Augljósu hliðaráhrifin eru kynning á landi og þjóð, hvort sem talað er um íslenskar framleiddar myndir sem fá dreifingu erlendis eða erlendar þekktar kvikmyndir teknar upp hér á landi. Það er orðin grein innan ferðaiðnaðarins að heimsækja tökustaði þekktra kvikmynda sem er dæmi um samstarf tveggja ólíkra greina og ýtir undir þá hugmynd að þegar fjölbreyttur iðnaður blómstrar geta ólíkar greinar átt hlutdeild í velgengni hvors annars. 

Ef við viljum öflugan iðnað sem hefur vaxtartækifæri og getur örvað aðrar atvinnugreinar þá er kvikmyndaiðnaðurinn sannarlega einn slíkur. 

Endurgreiðslan skiptir máli

Truenorth er meðal stærstu kvikmyndarframleiðslufyrirtækja á Íslandi og sérhæfir sig sérstaklega í að bjóða hágæða þjónustu til erlendra kvikmyndaframleiðenda. Helga Margrét Reykdal framkvæmdastjóri segir þegar hún er spurð að því hvernig hún sjái Íslenska kvikmyndaframleiðslu þróast á næstu árum.

,,Eftir því sem stóru stúdíóinu mynda meira hér á landi því fleiri dyr opnast fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn og íslensk verkefni. Til að mynda eru verkefni í þróun hjá Truenorth sem stóru stúdíóin hafa sýnt mikinn áhuga á og vonandi fara þau í tökur innan 5 ára og að sjálfsögðu á Íslandi en til þess að það gerist verður 20-30% endurgreiðsla að vera í gildi á Íslandi. Þetta er vaxandi markaður og því eigum við að horfa til þess að bæta í frekar en að draga úr til að fá stærri og betri bita af kökunni.“

Guðný Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Sagafilm og stjórnarmaður SÍK var spurð um þýðingu endurgreiðslunnar fyrir iðnaðinn.

„Jákvæð áhrif endurgreiðslunnar fyrir ríkissjóð samkvæmt greiningu sem Sagafilm gerði að beiðni Hagfræðistofnunar Háskólans fyrr á árinu nemur 330 millj. yfir sjö ára tímabil. Greind voru 35 erlend sem og innlend verkefni sem hlotið hafa endurgreiðslu og framleidd voru á árinu 2007-2013. Þetta þýðir verkefnin skiluðu til ríkissjóðs 330 millj. umfram það sem þau fengu í formi virðisauka, skatta, tryggingargjalds og annarra opinberra gjalda.  Þess fyrir utan eru jákvæð markaðsleg áhrif sem eru hér ekki reiknuð inn, en mætti eflaust telja í hundruðum milljóna þvert yfir iðnaðinn.“

Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, viðskiptastjóri SÍK hjá Samtökum iðnaðarins

Birt í Viðskiptablaðinu 20.08.2015