Er almenningur að greiða niður raforku fyrir áliðnaðinn?
Í Viðskiptablaðinu í dag skrifar Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, um raforku fyrir áliðnaðinn:
Því hefur verið haldið fram að íslenskur almenningur niðurgreiði raforkuverð til stóriðju. En því er í raun öfugt farið. Tekjur orkufyrirtækja eru um 20% hærri af uppsettu afli til stóriðju en til almennings. Hér er rakið í fáeinum skrefum hvers vegna: a) Fyrst má nefna að orkuverð til heimila hér á landi er með því lægsta sem þekkist á byggðu bóli. Í skýrslu OECD frá 2014 er borið saman orkuverð til heimila í höfuðborgum Norðurlanda og er það hvergi lægra en í Reykjavík. Sjá þessa vefslóð: http://dx.doi.org/10.1787 /9789264214200-graph31-en b) Meðalverð Landsvirkjunar til iðnaðar árið 2015 á hverja megavattstund var 24,5 USD að jafnaði. Meðalgengi dollars árið 2015 var 131,85 krónur og meðalverð til iðnaðar samsvarar því um 3,2 krónum á hverja kWst. Sambærilegt verð til almennings er 4,4 kr/kWst og er það lægra að raunverði en árið 2007. Raforkuverð Landsvirkjunar til stóriðju var því um 73% af sambærilegu verði til almennings. Sjá: www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/ fjolmidlatorg/frettir/frett/rangfaerslur-um-raforkuverd/ c) Almenningur borgar því vissulega hærra verð en stóriðja. En munurinn á endanlegum reikningi stafar að mestu leyti af lægri kostnaði við dreifingu til stóriðju, sem rekur eigin spennistöðvar en almenningur ekki. Ofan á það bætist að nýtingarhlutfall stóriðju á rafmagni er um 96% samanborið við 56% hjá almenningi vegna minni notkunar um nætur og á sumrin, eins og fram kom í kynningu Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins árið 2010. d) Því eru tekjur orkusala um 20% hærri af uppsettu afli til stóriðju en til almennings. Þar sem kostnaður orkufyrirtækjanna er fyrst og fremst fjárfestingarkostnaður er einmitt mikilvægt fyrir þau að fá jafna nýtingu á uppsettu afli yfir sólarhringinn til að hámarka nýtingu fjárfestingar sinnar. e) Eftir stendur því að orkufyrirtækið fær meiri arð af fjárfestingum sínum í orkumannvirkjum frá stóriðju en almenningi.
Lægra heildsöluverð á raforku til heimila á Íslandi
Í skýrslu sem Ásgeir Jónsson skrifaði fyrir Gamma í september 2013, en hún ber yfirskriftina Sæstrengur og hagur heimila (s. 11-12), er raforkuverð til heimila borið saman á milli landa í Evrópu. Um þann samanburð segir í skýrslunni: „Smásöluverð raforku á Íslandi er mun lægra en þekkist í þeim evrópsku samanburðarlöndum sem hér hafa verið valin, en það eru Bretland, Danmörk, Holland, Noregur og Þýskaland. Ástæðan fyrir lægra verði hérlendis er fyrst og fremst lægra heildsöluverð á raforku en hlutfall annarra kostnaðarliða – dreifingar og skattheimtu – er aftur á móti áþekkt og þekkist ytra. Verðmismunur á milli samanburðarlandanna í Evrópu skýrist einkum af mismunandi skattheimtu.“ Af því má ráða að raforkuverðið er hagstætt til almennings vegna lágs heildsöluverðs eða grunnkostnaðar í virkjunum, þar sem stóriðjan hefur staðið straum af uppbyggingu öflugra innviða – stórra virkjana þar sem hagkvæmni stærðarinnar lækkar verð til almennings.
„Fullyrðingar um niðurgreiðslu á raforku til stóriðju eru þjóðsaga“
Það kemur heim og saman við orð Friðriks Sophussonar, fyrrverandi forstjóra Landsvirkjunar. í ritinu Orkubrunnur á Austurlandi (s. 59), sem kom út í október árið 2009: „Hvernig í veröldinni á það að geta gengið upp að almenningur, sem nýtir 20% raforkunnar á Íslandi, niðurgreiði verð 80% þeirrar raforku á markaðinum, það er að segja þeirrar orku sem stóriðjan kaupir?“ http://www.landsvirkjun.is/Media/karahnjukar_orkubrunnur. pdf Hann heldur áfram: „Hlutur stóriðjufyrirtæka á orkumarkaðnum hefur stækkað mjög mikið undanfarin ár en á sama tíma lækkar raforkuverð að raunvirði verulega til heimila og lítilla fyrirtækja samkvæmt gögnum frá Samorku og nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Íslands (sjá grafið hér fyrir ofan). Sífelldar fullyrðingar um niðurgreiðslu raforkuverðs til stóriðju eru þjóðsaga.“
Augljós stærðarhagkvæmni við virkjun fallvatna
„Enginn vafi leikur á að virkjun fallvatna hefur augljósa stærðarhagkvæmni í för með sér og að því stærri sem virkjunin er því ódýrari verður orkuframleiðslan að öðru óbreyttu,“ segir í skýrslu sem Hagfræðistofnun skilaði iðnaðarráðuneytinu í júlí 2009 um áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf (s. 26). http://www. atvinnuvegaraduneyti.is/media/ Rafraen_afgreidsla/2009-07-ahrif-storidjuframkvaemda-islefnahagslif.pdf „Hið sama gildir einnig um flutning á rafmagni; fastur kostnaður á hverja kWst verður því minni eftir því sem meira rafmagn er flutt eftir flutningskerfinu. Stórvirkjanir gefa jafnframt kost á að byggja upp betra og öruggara flutningskerfi en ella hefði verið kostur. Jafnframt er ljóst að mun hentugra er að framleiða rafmagn fyrir stóriðju sem notar ætíð jafnmikið af raforku en fyrir minni fyrirtæki og heimili þar sem notkun getur sveiflast mikið til, bæði innan sólarhrings og ársins. Samningstími vegna stóriðju er langur, 20 ár eða meira. Raforka er keypt í miklu magni og nýtingartími er mjög hár, eða um og yfir 95%. Að auki skuldbindur orkukaupandi sig til þess að greiða fyrir tiltekið raforkumagn að lágmarki árlega, hvort sem það er nýtt eða ekki. Af þessum ástæðum kann jaðarkostnaður við að framleiða rafmagn fyrir stóriðju að vera annar en jaðarkostnaður við að framleiða rafmagn til minni notenda.“ Til þess að standa undir stórum virkjanaframkvæmdum þarf öfluga kaupendur á raforkunni. Annars hefðu skrefin í uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi verið smærri og kostnaðarsamari fyrir almenna neytendur.
Viðskiptablaðið, 22. september 2016