Fréttasafn



  • Borgartún 35

1. mar. 2015 Almennar fréttir

Erlend fjárfesting á Íslandi og samkeppnishæfni

Öll ríki leitast við að laða til sín erlendar fjárfestingar. Það eykur fjölbreytni atvinnulífs og skýtur nýjum og fleiri stoðum undir efnahagslíf. Alþjóðlegt fjármagn leitar að hagstæðustu skilyrðunum og það leiðir af sér harða samkeppni milli þjóða. Til að Ísland sé samkeppnishæft þarf að bjóða upp á hagkvæm og samkeppnishæf starfsskilyrði. Það er mikil áskorun fyrir okkur enda  hefur vandamálið ekki verið of mikil erlend fjárfesting heldur frekar skortur á henni.

Nokkur nýleg dæmi um uppbyggingu iðnaðar á Íslandi og erlendar fjárfestingar hafa verið til umfjöllunar undanfarna daga. Ekki er vanþörf á að dýpka þá umfjöllun, annars vegar um starfsskilyrði fyrirtækja í aljóðlegri starfsemi á Íslandi og hins vegar þá fjárfestingasamninga sem einstök fyrirtæki hafa gert við komu sína hingað til lands.

Fjárfestingarsamningar eru ekki íslensk uppfinning heldur tíðkast um gjörvallan heim. Með þeim er fyrirtækjum sem standa í verulegum fjárfestingum til langs tíma tryggt stöðugra og fyrirsjáanlegra rekstrarumhverfi en ella. Fjölmörg fyrirtæki hafa gert slíka samninga hér á landi, þ.m.t. álfyrirtæki. Þeir eru afar mikilvægir því á grundvelli þeirra hefur verið hægt að ýta undir erlenda fjárfestingu á Íslandi og stækka þar með og styrkja útflutningsgrunn þjóðarinnar. Eiga þá íslensk stjórnvöld að gera slíka samninga? Svarið er já. Efnahagslegur ávinningur af erlendri fjárfestingu er afar mikill. Í þessu samhengi hefur áliðnaðurinn á Íslandi mikið verið ræddur. Álútflutningur nemur 220 milljörðum króna á hverju ári og þar af verða um 100 milljarðar eftir í landinu. Það er rúmlega tvöfalt framlag ríkisins til Landspítalans, sem þó er stærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum. Það segir sig sjálft að það væri verulegt högg fyrir íslenskt þjóðarbú ef við yrðum af þessum tekjum. Samt sem áður er starfsemi þessara fyrirtækja gerð tortryggileg, nú síðast skattamál Alcoa Fjarðaáls. Ef horft er á það fyrirtæki sérstaklega þá greiddi það  1,5 milljarða króna í skatta og opinber gjöld í fyrra og 28 milljarðar króna urðu eftir í landinu í formi innkaupa á vörum og þjónustu, skatta, launa og samfélagsstyrkja. Að auki hefur byggst upp þekking og starfsemi í kringum áliðnaðinn sem er okkur verðmæt og löngu orðin sjálfstæð útflutningsvara.

Þegar ráðist er í risavaxnar fjárfestingar eins og álver er ofureðlilegt að miklar afskriftir fyrstu árin geri það að verkum að hagnaðarmyndun sé minni framan af og að skattalegt tap myndist samkvæmt almennum skattareglum. Síðar má reikna með að fyrirtæki fari að greiða tekjuskatt og raunar eru skattgreiðslur annarra álfyrirtækja ágætt dæmi um það. Við blasir að Alcoa verður einn allra stærsti skattgreiðandi landsins. Ennfremur er það eðlilegur hluti af alþjóðlegri starfsemi að fyrirtæki fjármagni sig með lánum innan samstæðu. Það er eðli þeirra. Varla er verið að fara fram á að ef íslenskt fyrirtæki sem hafa eða ætla að hasla sér völl erlendis, geti ekki fjármagnað vöxt erlendis héðan frá Íslandi, heldur þurfi það að gerast með láni frá þriðja aðila? Það er freistandi að ræða skaðleg áhrif gjaldeyrishafta á fjármögnun alþjóðlegra fyrirtækja, en því verða ekki gerð meiri skil hér.

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um samkeppnisstöðu Íslands hvað varðar uppbyggingu gagnavera, m.a. tengt ákvörðun Apple um að staðsetja gagnaver í Danmörku. Slíkur iðnaður er mikið tækifæri fyrir Ísland enda eru skilyrði hér varðandi orkumál og mannauð hagstæð, en með skýrari skattalöggjöf væri samkeppnishæfnin meiri. Eðlilega sögðu margir að Ísland hefði misst af stórkostlegu tækifæri til að laða hingað erlent fjármagn. En á sama tíma voru sett spurningamerki við alþjóðleg fyrirtæki sem hér starfa og fara eftir lögum og samningum við ríkið. Það er óneitanlega sérstakt.

Lykilatriðið er þetta: Það vantar sárlega meiri erlenda fjárfestingu á Íslandi. Hún hefur og á að byggjast upp á okkar styrkleikum, t.d. hvað varðar orkumál, mannauð og fjölbreytni starfa. Það er einnig mikilvægt að hér byggist upp fjölbreyttur iðnaður þannig að atvinnulíf og hagvöxtur byggi á fleiri stoðum. Ísland hefur marga kosti þegar kemur að því að laða erlenda fjárfesta til landsins. En það er líka margt sem vinnur gegn okkur. Eitt af því er að starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi  sé gerð tortryggileg.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI