Fréttasafn



13. sep. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Erum að nálgast hápunktinn

„Ef við hefðum ekki getað flutt inn vinnuafl á síðustu árum værum við í mjög alvarlegri stöðu. Við hefðum til dæmis ekki getað fullnægt vinnuaflsþörf hagvaxtarins sem við höfum séð. Að sama skapi hefði launaskrið, og þar með verðbólguþrýstingur, sennilega verið umtalsvert meira í hagkerfinu ef ekki hefði komið til þessarar aukningar á innfluttu vinnuafli.“ Þetta segir Ingólfur Bender, hagfræðingur SI, meðal annars í frétt Kristins Inga Jónssonar, blaðamanns, í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að aldrei hafi fleiri útlendingar starfað hér á landi en í júní voru hátt í 25 þúsund erlendir ríkisborgarar starfandi. Þeim hefur fjölgað um rúm 17% á undanförnum 12 mánuðum og hátt í 65% á síðustu fimm árum. 

„Við erum að nálgast hápunktinn,“ segir Ingólfur og bendir á að það sé viðvarandi skortur á vinnuafli. Hann segir að skorturinn hamli meðal annars uppbyggingu, ekki síst í byggingariðnaðinum, sem hafi vaxið hratt undanfarið. Reynt hafi verið að mæta skortinum að hluta með því að flytja inn erlent vinnuafl, en það hafi ekki dugað til. 

Dregur úr vexti eftirspurnar eftir vinnuafli

Ingólfur segir í fréttinni að af gögnum Hagstofunnar megi ráða að farið sé að draga úr vexti eftirspurnar eftir vinnuafli samfara því að hægst hafi á vexti hagkerfisins. „Hægari vöxtur er í sjálfu sér það sem hagkerfið og vinnumarkaðurinn þurfa til þess að forðast ofhitnun,“ segir hann. Enn sem komið er segir Ingólfur hagvöxtinn vera hraðan og spennuna talsverða í hagkerfinu. Það sé sérstaklega sýnilegt á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi sé mjög lítið og atvinnuþátttaka með því hæsta sem mælst hefur. „Ef maður rýnir í þá hagvísa sem geta veitt okkur vísbendingar um hver þróunin verður á næstu misserum, þá reikna ég með að við munum sjá snúningspunktinn tiltölulega fljótt, á næsta eða þar næsta ári, og mun þá atvinnuleysið sennilega rísa aftur og atvinnuþátttakan minnka.“ Hann segir jafnframt að hagvöxtur komandi missera verði ekki það mikill að hann geti haldið atvinnuleysinu áfram eins lágu og verið hefur.

Einnig er rætt við Katrínu Ólafsdóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík og nefndarmann í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sem segir meðal annars að ef ekki hefði verið fyrir erlenda vinnuaflið værum við í allt annarri stöðu. „Launaskrið og verðbólga hefðu þá gert vart við sig og okkur hefði ekki tekist að þjóna öllum þeim ferðamönnum sem hér eru.“

Þá segir Ari Skúlason, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, að sjá megi fram á að vöxtur ferðaþjónustunnar verði minni en verið hefur og það sama megi segja um byggingariðnaðinn. „Það hefur mikið verið byggt af hótelum og atvinnuhúsnæði og sú þörf, sem var fyrir hendi, fer væntanlega að verða betur uppfyllt en áður. Þannig að við nálgumst nú betra jafnvægi.“

Nánar á Vísi, 13. september 2017.