Fréttasafn7. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Eyrir í hálfgerðu foreldrahlutverki

ÞÓRÐUR MAGNÚSSON, stjórnarformaður Eyris Invest, Eyris Sprota og Eyrir Ventures, fjárfestingasjóða sem fara fyrir um 10 milljarða króna fjárfestingum í 15 ólíkum sprotafyrirtækjum, segir hlutverk sjóðanna oft vera hálfgert foreldrahlutverk. Hann leggur mikla áherslu á að vinna náið með stjórnendum fyrirtækjanna, kaupir í félögum og byggir þau upp. Þórður situr sjálfur í stjórnum meirihluta fyrirtækjanna í eignasafninu.

Mín reynsla er sú að frumkvöðullinn er ekki alltaf endilega best til þess fallinn að leiða fyrirtækið áfram í vexti, þó að hann gegni vitaskuld mikilvægu hlutverki.

„Mín reynsla er sú að frumkvöðullinn er ekki alltaf endilega best til þess fallinn að leiða fyrirtækið áfram í vexti, þó að hann gegni vitaskuld mikilvægu hlutverki. Oft þarf að ná fram breytingum í rekstrinum sem betra er að einhver annar leiði. Við lítum á það sem okkar hlutverk að leiðbeina frumkvöðlum sem við fjárfestum í, hjálpa til við að setja saman farsæl stjórnendateymi og aðstoða við að byggja upp sölu - og markaðsstarf, en sá hluti er að mínu mati Akkilesarhæll íslenskrar nýsköpunar. Við leggjum gríðarlega áherslu á söluog markaðsstarf, því þú getur haft frábæra vöru í höndunum en ef enginn veit af henni eða aðgangur að mörkuðum er ekki til staðar, þá hefur það ósköp lítið að segja,“ segir Þórður og bætir við að sala og markaðsstarf, aðlögun vörunnar að þörfum markaðarins og markaðsskilaboðin séu oft 60–70% af veg­ferðinni. 

Eignasafn úr ólíkum áttum 

Eignasafn Eyris er sannarlega fjölbreytt. Þar er meðal annars að finna líftæknifyrirtækið Saga Natura sem framleiðir fæðubótarefni úr hvönn og þörungum, eTactica sem selur mælitæki sem gerir fyrirtækjum kleift að skilja og bæta orkunotkun sína, Sæbýli ehf., sem ræktar japönsk sæeyru á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn aðallega til útflutnings til Asíu og Cooori sem tvinnar saman tækni og nýjustu þekkingu í kennslufræðum og skapar þannig nýja og skilvirkari leið til að læra tungumál. Þetta eru einungis nokkur dæmi. Þórður lítur svo á að þrátt fyrir að fyrirtækin séu um margt ólík, sé langstærstur hluti alls reksturs eins uppbyggður í grunninn, þvert á greinar. „Uppbygging fyrirtækjanna er eins, vegferðin svipuð en ef til vill er 20% af vegferðinni sérgreind þekking á atvinnugreininni sem fyrirtækið starfar í. Þá þekkingu verður vitaskuld að tileinka sér en stærsti hluti vegferðarinnar er svipaður. Það þarf vitaskuld að setja sig inn í það sem mestu skiptir í fyrirtækjunum. Við höfum oftast lítið fram að færa hvað varðar tækni, nema tilfinningu fyrir því hvort það sé raunhæft að ná að klára að þróa vöruna. En okkar reynsla er af því að fjárfesta í sprotum og gera þeim kleift að vaxa. Byggja upp markaðsstarfið, sem er svo mikilvægt.“ 

ThordurEyrir_806A1222

Fyrirtæki sem gera heiminn betri 

Eyrir fjárfesti í fyrsta sprotafyrirtækinu fyrir réttum 13 árum þegar það eignaðist hlut í tæknifyrirtæki sem þróaði hugbúnað til að hámarka sætanýtingu í flugvélum. Þeir seldu félagið þremur árum síðar, það rann inn í annað félag sem lifir enn góðu lífi. Virði félagsins fólst þó ekki nema að takmörkuðu leyti í því að hámarka sætanýtinguna heldur hvernig það var gert. Það var aðferðafræðin í því hvernig upplýsingarnar voru sóttar í hin ýmsu gömlu „legacy“ -kerfi flugfélaganna sem skipti máli. „Það gekk mjög vel. Ætli það hafi ekki verið þá sem við komumst á bragðið?“ segir Þórður og hlær. „Vitanlega er það sama vegferð sem við höfum farið í með Marel þó svo það hafi verið mun þroskaðra félag.“ 

Nú sé litið til þess að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem geri heiminn betri með einhverjum hætti. Þar liggja sjö þættir til grundvallar, að sögn Þórðar. „Öll þessi sjö þemu snúast um byltingar eða breytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum. Því fleiri þemum sem sproti sem við erum að íhuga að koma inn í fellur að, því ákjósanlegri fjárfestingarkostur,“ lýsir hann. 

Við leggjum gríðarlega áherslu á sölu- og markaðsstarf, því þú getur haft frábæra vöru í höndunum en ef enginn veit af henni eða aðgangur að mörkuðum er ekki til staðar, þá hefur það ósköp lítið að segja.

Leiðin er oft hlykkjótt 

Þórður segist óhræddur við að spyrja grundvallarspurninga þótt vegferð fyrirtækja sé komin langt á veg. „Maður verður að hafa skýra stefnu. Vita nákvæmlega hvað það er sem maður vill ná fram. Ef fyrirtækið er ekki að komast á réttan kjöl, þá verður maður að spyrja hvort hugmyndin hafi kannski ekki verið nægilega sterk í upphafi? Hvað þarf að bæta? Hverju þarf að breyta? Svo þarf að hafa hugrekkið til að leggja í þá vegferð og sú leið er oft hlykkjótt og stundum getur reynst erfitt að hverfa frá einhverju sem fólk hefur skapað af mikilli ástríðu. En það er bara hluti af þessu öllu saman.“ 

Hann tekur dæmi um eTactica, sem nefnt var fyrr í viðtalinu. „Mælitæknin sem fyrirtækið þróaði var hannað til þess að draga úr orkunotkun og þar með kostnaði. Eftir að umhverfisvernd fór að skipa jafn stóran sess og raun ber vitni, breyttist notkunin og nú einblínir eTactica á að mæla árangur fyrirtækja í að minnka kolefnisfótspor þeirra. Það eru komnar reglugerðir sem fyrirtæki verða að uppfylla og fyrirtæki þurfa að sýna fram á að þau séu að ná tilætluðum árangri við að draga úr mengun, kolefnisfótspori, útblæstri. Um leið er dregið úr orkunotkun. Það sem breyttist um leið er að nú er ákvörðunin um að fjárfesta í svona tæknilausn tekin á stjórnarfundum, vegna þessa aukna vægis umhverfismálanna. Það er af sem áður var þegar umsjónarmaður eigna bar ábyrgð á að orkunotkunin væri lágmörkuð. Varan er sú sama en söluskilaboðin og kaupendahópurinn annar.“ 

Sjö fjárfestingaþemu Eyris 

1. Aukin áhersla á umhverfisvernd. 

2. Fólk flytur í auknum mæli úr sveit í borg. 

3. Aukin áhersla á upplifun – til að mynda að kaupa fisk sem veiddur var í hreinu hafi og því séu tækifæri í að sýna fram á rekjanleika fisksins. 

4 . Þjóðir séu að eldast og því sé horft til þess að aðstoða fólk við að öðlast betri heilsu. 

5 . Aukið internetöryggi, hvort sem litið er til hernaðar eða viðskipta. 

6 . Allir séu nú tengdir netinu öllum stundum og það hefur þau áhrif að samskipti og viðskiptaferlar færist þangað. 

7. Sjálfvirknivæðing.

 

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_