Fréttasafn27. júl. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Færri störf í hátækniiðnaði hér á landi vegna gengissveiflna

Í ViðskiptaMogganum er rætt við Ingólf Bender, hagfræðing SI, um vísbendingar um að styrking krónunnar muni hafa áhrif á samsetningu iðnaðar í landinu. Hann segir blaðamanni, Baldri Arnarsyni, að vegna sterkara gengis haldi sum iðnfyrirtæki að sér höndum. „Þegar gengið sveiflast mikið fælir það iðnfyrirtæki, einkum þau sem eru í mestri samkeppni við erlend, frá því að fjárfesta á Íslandi. Það er einfaldlega mun meiri óvissa í kringum fjárfestingu en ella,“ segir Ingólfur. Í fréttinni segir hann að skipta megi iðnfyrirtækjum á Íslandi í tvo hópa. Annarsvegar þau sem njóta uppsveiflunnar, til dæmis fyrirtæki í byggingariðnaði og fyrirtæki í framleiðslugeiranum sem framleiða fyrir innlenda eftirspurn. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði hafi líka notið uppsveiflunnar. Hins vegar fyrirtæki í framleiðslu eða útflutningi en þar hafi orðið óveruleg uppbygging á síðustu árum. „Fyrirtæki í útflutningi og virkri erlendri samkeppni eru svolítið í hættu. Það er hætt við því að sú starfsemi flytjist úr landi, þangað sem hagkvæmara er að vera.“ 

Ingólfur segir aðspurður að vegna styrkingar krónu og vaxtar í ferðaþjónustu stefni í meiri aðlögun í hagkerfinu en menn hafi e.t.v. séð fyrir. „Þetta er talsverð strúktúrbreyting á hagkerfinu á tiltölulega stuttum tíma. Við sjáum mikinn vöxt í ferðaþjónustu til útflutnings og öllu sem tengist innlendri eftirspurn. Á móti hefur hitt svolítið verið sett á ís. Þetta á við fyrirtæki sem eru ekki bundin af því að vera hér, heldur geta valið sér stað. Þau horfa til Íslands og sjá örmynt sem sveiflast mikið.“

Í fréttinni segir Ingólfur jafnframt að vegna þessa verði önnur störf í boði á Íslandi en ella. „Það verða færri störf í hátækniiðnaði, sem er í mikilli samkeppni við erlend fyrirtæki. Á þeim hluta vinnumarkaðarins skapast færri störf en ella. Í staðinn verða til störf í greinum þar sem krafist er minni menntunar. Við höfum ekki séð jafn mikinn vöxt í framleiðni og við vildum sjá. Sveiflur í gengi krónunnar kunna að vera ein skýringin. Ef okkur tekst ekki að auka framleiðnina verða minni forsendur fyrir kaupmáttaraukningu launa á næstu árum.“

Morgunblaðið, 27. júlí 2017, mbl.is.