Fréttasafn26. apr. 2016 Iðnaður og hugverk

Fagna frumkvæði þingmanns um málefni nýs fjarskiptastrengs

Áframhaldandi uppbygging á starfsemi gagnavera hér á landi er mikið hagsmunamál fyrir íslenskan upplýsingatækniiðnað þar sem aukin netvæðing og þróun í upplýsingatækni krefst þess að gögn séu vistuð í sífellt meiri mæli í þar til gerðum gagnaverum. Upplýsingar sem liggja fyrir benda til þess að fjárfestingar í innviðum fyrir gagnaver hafi mjög jákvæð áhrif á samfélagið og talsverð hagræn áhrif á þær greinar sem þessu tengjast bæði í formi vel launaðra tæknistarfa og fleiri verkefna fyrir byggingariðnað og mannvirkjagerð.

 

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera – DCI, sem er starfshópur innan Samtaka iðnaðarins, fagna því beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns, um skýrslu um ávinning og nauðsyn nýs fjarskiptastrengs til Íslands, m.a. til að laða starfsemi gagnavera til landsins, og um hagræn áhrif af starfsemi þeirra.

 

Að jafnaði skorar Ísland hátt sem staðarval fyrir gagnaver í heiminum sökum legu landsins vegna náttúrlegra aðstæðna í formi vinds, kalds lofts og grænnar orku og hefur uppbygging iðnaðarins hér á landi gengið nokkuð vel til þessa. Samtök gagnavera hafa hinsvegar bent á þá staðreynd að þeir fjarskiptastrengir sem liggja til landsins séu farnir að eldast og eins og staðan er núna eru þeir mun minna notaðir en þeir gætu verið sökum þess að verð á flutningi gagna um hann er hátt. Einungis 5% af mögulegri bandvídd er í notkun og bitnar þetta háa verð meðal annars á notendum gagna, bæði viðskiptavinum gagnavera og ekki síst almenningi í landinu. Þá er gagnaversiðnaðurinn á Íslandi í stöðugri samkeppni við önnur hagkerfi sem hafa með markvissum hætti ákveðið að laða til sín þennan iðnað.

 

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það fagnaðarefni að málið sé komið á dagskrá. „Á þessu sviði eins og öðrum þurfum við að vera samkeppnishæf. Það er mikilvægt að við séum ekki eftirbátar annarra landa þegar kemur að áreiðanlegum og traustum gagnaflutningum. Ófullnægjandi fjarskiptatengingar geta komið í veg fyrir að takist að laða til landsins erlenda viðskiptavini. Því er ánægjulegt ef lögð verður áhersla á innviðafjárfestingar af þessum toga.“

 

Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, tekur í sama streng og þakkar þingmanninum frumkvæðið og áhuga á málinu. ,,Við höfum verið í samræðum við stjórnvöld um þessi mál í þó nokkurn tíma, enda er það hagsmunamál okkar allra að hafa fjölbreyttan iðnað í landinu. Ef við horfum út fyrir landsteinana og til þeirra landa sem Ísland er hvað mest í samkeppni við á þessu sviði þá hafa stjórnvöld í þeim löndum lagt mikið á sig til að byggja upp örugg og hagkvæm gagnaflutningsnet að uppruna orkunnar þannig að hægt sé að minnka kostnaðarsaman flutning á raforku yfir langar vegalengdir og bjóða þannig bæði hagkvæma orku nálægt framleiðslustað og öflugar gagnateningar til þeirra staða. Með þessum rökum þá hreinlega má Ísland ekki einangra sig með því að enda í þeirri stöðu að vera með hagkvæma, græna og eftirsótta orku en á sama tíma með  verulega dýra innviði sem letja viðskiptavini frekar en hvetja til að koma með viðskipti sín til Íslands.“