Fréttasafn25. ágú. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Fagna samræmingu í öryggisflokkun gagna ríkisins

Samtök iðnaðarins fagna því að vinna sé hafin við að samræma öryggisflokkun fyrir gögn ríkisins. Þetta kemur fram í umsögn SI um öryggisflokkun gagna íslenska ríkisins, mál nr. 103/2022. Þar segir að samtökin telji þetta framfaraskref en gera jafnframt athugasemdir við nokkur atriði framkvæmdarinnar. Þar á meðal gera samtökin athugasemd við það fyrirkomulag sem lagt er til varðandi mat á hæfni vinnslu- og vistunaraðila gagna og finnst þurfa að skýra hvers konar öryggiskröfur þurfi að uppfylla og hver sé hæfur til að meta það. Auk þess gera samtökin athugasemdir við að hafa ekki fengið sæti í vinnuhópi en upplýsingatæknifyrirtæki séu undir hatti SI. Sérþekking og reynsla félagsmanna sem hýsi gögn og vinni með þau á degi hverjum sé ómetanleg þegar komi að því að móta stefnu til framtíðar og samráð við breiðari hóp sérfróðra aðila hefði styrkt vinnuna.

Jafnframt spyrja samtökin hvort Ríkiskaup hafi ákvörðunarvald í að ákveða í samstarfi við viðeigandi ríkisstofnun hvers konar öryggiskröfur verði gerðar til hýsingar- og vinnsluaðila. Í umsögninni segir að samtökin dragi í efa að slíkt fyrirkomulag skapi traust og fyrirsjáanleika í stjórnkerfinu og vilja eindregið leggja til að farið verði í vinnu við að greina og ákveða öryggiskröfur sem gerðar verði fyrirfram og að ákveðnu hlutlausu stjórnvaldi verði falið að framfylgja þeim kröfum.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.