Fréttasafn20. feb. 2019 Orka og umhverfi

Fákeppnin leiðir til hækkandi raforkuverðs

„Markmið raforkulaganna sem voru sett árið 2003 hafa ekki náðst að öllu leyti. Í stað þess að samkeppni lækki kostnað þá virðist fákeppni á markaðinum leiða til hækkandi raforkuverðs,“ segir Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði Samtaka iðnaðarins, í Markaðnum í dag og er þar að vísa til fréttar sem birtist á vef Landsnets fyrr í mánuðinum þar sem kom fram að meðalverð raforku vegna flutningstapa fyrir 2. ársfjórðung 2019 lægi fyrir en samið var á grundvelli rafræns útboðs sem fram fór í janúarmánuði og þegar borin væru saman raforkuverð frá sama ársfjórðungi 2018 kæmi í ljós að verðin hefðu hækkað um 4,4 prósent.

Lárus segir í Markaðnum að það hafi komið sér á óvart að sjá Landsnet stíga svona hart fram. Yfirlýsing Landsnets endurspegli gagnrýni Samtaka iðnaðarins og hann bendir á að staða lóna sé í hámarki. „Öll lón eru full og ættu þá að leiða af sér jafnt eða lækkandi raforkuverð. En þvert á móti er það að hækka. Fyrirtæki í svona góðri stöðu hefur mikið svigrúm til að jafna út sveiflur. Okkur finnst sérstakt að sjá hvernig verðið fer hækkandi.“

Ísland að missa samkeppnishæfni vegna raforkuverðs

Í fréttinni bendir Lárus á að verðupplýsingar frá Íslandi séu ekki aðgengilegar og því ekki með í verðsamanburði Eurostat og sé það ein birtingarmynd á ógagnsæi markaðarins. Hins vegar sé ljóst að meðalverð á raforku í Evrópu hafi lækkað á síðustu árum og þannig sé Ísland að missa samkeppnishæfni sína „Þegar það er skortur á gagnsæi þá er erfitt að meta hver raunveruleg samkeppnishæfni okkar er í samanburði við önnur lönd.“ Þá segir hann að það sé óvenjulegt að stórnotendur geti ekki varið sig fyrir flutningstöpum og að þeir séu ekki að fá umsamda vöru. „Þú ert að fá 98% prósent af vörunni sem þú ert búinn að semja um en þarft síðan að greiða viðbótartöpin. Það er lítið svigrúm í samningunum til að verja sig þessum töpum.“

Markaðurinn/Fréttablaðið / Frettabladid.is, 20. febrúar 2019.