Fréttasafn



24. jún. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði tvöfaldast á 10 árum

Í nýrri greiningu SI hvetja samtökin sveitarfélög til að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði en útlit er fyrir að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði tvöfalt á við það sem þeir voru fyrir 10 árum. Í greiningunni kemur  fram að skattlagning þessi hafi aukist verulega á síðustu árum og sé hún nú mjög há bæði í sögulegu og alþjóðlegu ljósi. Dragi þessi háa skattlagning úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þar með getu fyrirtækja til að skapa störf og verðmæti. Mikilvægt sé að sveitarfélögin með lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði leggi sitt að mörkum við að skapa grundvöll aukinnar verðmætasköpunar og fjölgun starfa nú eftir efnahagssamdrátt síðustu missera. Það er mat Samtaka iðnaðarins að háir fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði séu fjötrar á efnahagslífið sem þurfi að slíta. Þegar fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru skoðaðir kemur eftirfarandi í ljós skv. greiningunni:

  • Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa hækkað mikið á síðustu árum: Samkvæmt útreikningum Samtaka iðnaðarins munu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði nema rúmum 28 mö. kr. í ár og tæplega 30 ma.kr. á næsta ári til samanburðar við ríflega 14 ma.kr.árið 2012. Þessi skattlagning hefur farið ört hækkandi á síðustu árum og hefur sú hækkun verið langt umfram vöxt verðmætasköpunar hagkerfisins. Á síðustu sex árum hefur skattur á atvinnuhúsnæði hækkað um 68% en verðmætasköpun hagkerfisins um 27%.
  • Há skattlagning í alþjóðlegum samanburði: Álagðir fasteignaskattar á íslensk fyrirtæki eru háir í alþjóðlegum samanburði. Þeir eru t.d. mun hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði voru um 0,9% af landsframleiðslu á árinu 2019 samanborið við 0,2% í Noregi og um 0,4% í Finnlandi og Svíþjóð. Áætlað er að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði 0,9% af landsframleiðslu í ár, þ.e. viðlíka og þeir voru á árinu 2019.
  • Skattbyrðin þyngst á atvinnuhúsnæði: Þrátt fyrir að álagningarstofn atvinnuhúsnæðis sé innan við fimmtungur af heildarstofni fasteignaskatta þá stendur atvinnuhúsnæði undir meira en helmingi tekna sveitarfélaga af fasteignaskatti, eða 56%. Íbúðarhúsnæði stendur undir þriðjungi og opinberar byggingar um 11%. Ástæðuna fyrir því má rekja til meiri álagningu, hærri skattprósentu, á atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði. Vegin meðalskattprósenta fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er um 1,56% en um 0,23% á íbúðarhúsnæði.
  • Fasteignaskattur oftast í lögbundnu hámarki: Stór hluti skattstofnsins, þ.e. atvinnuhúsnæðisins, er skattlagður með lögbundnu hámarki eða 1,65%. Nærri helmingur sveitarfélaga landsins er með skattprósentuna í lögbundnu hámarki, eða 31 sveitarfélag af 69. Mikið hefur verið kallað eftir því að sveitarfélögin hjálpi atvinnulífinu að takast á við efnahagssamdráttinn með lækkun fasteignaskatta. Þrátt fyrir það lækkuðu aðeins 10 af 69 sveitarfélögum álagningarprósentu fasteignaskatta milli áranna 2020 og 2021.
  • Ríflega önnur hver króna skatttekna rennur í borgarsjóð: Tæplega helmingur af heildarverðmæti atvinnuhúsnæðis á Íslandi er staðsett í Reykjavíkurborg. Álagningarprósentan þar var lækkuð úr lögbundnu hámarki, 1,65%, niður í 1,6% á milli áranna 2020 og 2021. Vegna hárrar álagningarprósentu ásamt háu fasteignaverði og magni atvinnuhúsnæðis er Reykjavík með yfir helming heildartekna af fasteignasköttum á atvinnuhúsæði á landinu. Það þýðir að ríflega önnur hver króna sem innheimt er af fasteignasköttum á landsvísu rennur í borgarsjóð. Næst á eftir höfuðborginni kemur Kópavogur með 8,7% hlutdeild af heildarstofni fasteignaskatta. Aftur á móti hefur sveitarstjórn Kópavogs mætt hærra fasteignamati með því að lækka skattprósentuna og létta þannig undir með fyrirtækjum. Frá 2017 hefur álagningarprósentan þar verið tekin niður um hver áramót, úr 1,62% niður í 1,47% eða 0,15 prósentustig í heildina.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI.