Fréttasafn22. feb. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Finna þarf aðrar leiðir til að fjármagna viðhaldsþörfina

Í leiðara Fréttablaðsins um helgina er vikið að innviðum Íslands og vitnað til nýrrar skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða. Í leiðaranum sem ritstjóri blaðsins, Jón Þórisson, skrifar segir meðal annars að gengnar kynslóðir hafi byggt af eftirtektarverðu harðfylgi upp innviði sem við sem á eftir komum höfum notið en undanfarinn áratug hafi uppbyggingin stöðvast og viðhaldið setið á hakanum. Í niðursveiflunni í kjölfar falls bankanna hafi stjórnvöld dregið stórkostlega úr fjárframlögum til viðhalds og uppbygginga innviða og hafi það ástand varað síðan. Undantekning þess sé gríðarleg uppbygging á Keflavíkurflugvelli, svo anna mætti þeim straumi ferðamanna sem hingað hafi lagt leið sína.

Í leiðaranum er sagt frá að í skýrslunni komi fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða sé 420 milljarðar króna, eða sem nemi 14,5% af landsframleiðslu. Niðurstaða skýrslunnar sé að nær 60% af þessum 420 milljörðum megi rekja til innviða sem fá einkunnina 2. Þá segir að mest sé þörfin í vegakerfinu, eða 160 til 180 milljarðar króna. Þá segir að í skýrslunni sé vikið að lélegu viðhaldi fasteigna í eigu hins opinbera. Reglulega komi upp mál þar sem mygla hrekji starfsemi úr opinberum byggingum. Ráðuneyti og stofnanir ríkis og sveitarfélaga hafi neyðst til að færa til starfsemi sína með tilheyrandi kostnaði, vegna heilsuspillandi aðstæðna af völdum myglu. „Allt að einu blasir við að sparnaður í viðhaldi hefnir sín grimmilega og 420 milljarðar króna er meira fé en lagt verður á sjóði hins opinbera. Allra síst eins og mál standa nú í kjölfar heimsfaraldursins. Það er óforsvaranlegt að stíla þann reikning á komandi kynslóðir, til viðbótar þeim reikningum sem í þessum svifum er verið að skrifa vegna áhrifa faraldursins. Finna þarf aðrar leiðir til að fjármagna þessa viðhaldsþörf um leið og tryggja verður að viðhaldinu sé sinnt en því ekki slegið ítrekað á frest með þeim afleiðingum að stórfellt átak þarf til að koma þessu í viðunandi horf.“

Í niðurlagi leiðarans segir að það sé á ábyrgð stjórnvalda að viðhalda þeim verðmætum sem gengnar kynslóðir hafi myndað og það sé ekki sanngjarnt að afleiðingar vanrækslu okkar séu lagðar á börn okkar og barnabörn.

Fréttablaðið, 20. febrúar 2021.